Fundargerðir

Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðslu- og tómstundanefnd - 33

Haldinn í ráðhúsi,
21.06.2017 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Þóra Björg Gísladóttir varaformaður,
Þórey Bjarnadóttir aðalmaður,
Einar Smári Þorsteinsson aðalmaður,
Sigrún Birna Steinarsdóttir Fulltrúi ungmennaráðs,
Hjördís Skírnisdóttir 1. varamaður,
Arna Ósk Harðardóttir 1. varamaður,
Ragnhildur Jónsdóttir .
Fundargerð ritaði: Ragnhildur Jónsdóttir, Fræðslustjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 201705074 - Skóladagatal Leik- og grsk.Hofgarði 2017-2018
Farið var yfir skóladagatal Grunnskólans í Hofgarði sem byggt er á hefð sem skapast hefur í gegnum tíðina. Því er beint til skólastjóra að hann samræmi eins og kostur er starfsdaga og frí í leik- og grunnskóla. Fram kom að leikskólinn er opinn á starfstíma grunnskólans nema að hann verður opinn í sumar með mánaðarsumarfríi. Skóladagatalið var samþykkt með fyrirvara um breytingar sem nýr skólastjóri myndi vilja gera á því.
Skoladagatal-2017-2018 Grunnskólinn í Hofgarði.pdf
 
Gestir
Pálína Þorsteinsdóttir skólastjóri
2. 201706072 - Ráðning skólastjóra við leik- og grunnskólann í Hofgarði
Ein umsókn barst um stöðu skólastjóra við leik- og grunnskólann í Hofgarði, frá Magnhildi Björk Gísladóttur og er verið að ganga frá samningum við hana. Fræðslu- og tómstundanefnd þakkar Pálínu Þorsteinsdóttur fyrir langan og farsælan skólastjóraferil við skólann og býður Magnhildi velkomna til starfa.
3. 201705105 - Ósk um aukið starfshlutfall í náms- og starfsráðgjöf
Fræðslu- og tómstundanefnd leggur til að skólastjóra verði heimilað að auka starfshlutfall í náms- og starfsráðgjöf úr 50% í 100% fáist menntaður náms- og starfsráðgjafi til starfa.
 
Gestir
Þórgunnur Torfadóttir skólastjóri
Herdís T. Tryggvadóttir
4. 201706071 - Gjaldfrjáls námsgögn grunnskólabarna
Framsóknarmenn leggja fram eftirfarandi tillögu:
"Að börn í Grunnskóla Hornafjarðar fái öll námsgögn endurgjaldslaust frá og með næsta skólaári og vísa með því til 28. greinar barnasáttmála sameinuðu þjóðanna sem segir að öll börn eigi rétt á grunnmenntun án endurgjalds. Með þessu sé stigið annað skref í innleiðingu sáttmálans í Sveitarfélaginu Hornafirði." Umræður urðu um tillöguna, að námsgögnin ættu að vera til í skólanum til afnota fyrir alla nemendur þar eða hvort þeir ættu að fara með þau heim, og hvort um sé að ræða námsgögn eins og tölvur, reiknivélar og fleira. Ákveðið að fela fræðslustjóra að afla upplýsinga um hvernig staðið er að málum annars staðar og unnið verði að framgangi tillögunnar eftir sumarfrí og miðað við að þetta komist til framkvæmda haustið 2018.
5. 201705076 - Hugmyndasamkeppni um nafn á nýjan leikskóla
Tillögur bárust um 72 mismunandi nöfn á nýjan sameinaðan leikskóla. Flestar tillögur voru um eftirfarandi nöfn: Lönguhólar 14, Krakkahólar 9 og Sjónarhóll 7. Nafnanefnd leggur til að nýr leikskóli hljóti nafnið Sjónarhóll. Rökstuðningur nefndarinnar byggir m.a. á því að:
- Um er að ræða sameiningu tveggja leikskóla með sitthvort nafnið. Sjónarhóll hefur tengingu við hvorugan skólann og markar því ákveðið upphaf nýs leikskóla.
- Sjónarhóll er hús Línu Langsokks sem allir tengja við mikið fjör, ævintýri, klára, sterka og skemmtilega stelpu.
- Nafnið hefur heldur ekki neina beina tengingu við örnefni, staðhætti, staði eða fyrirtæki á Höfn eða í sveitarfélaginu.
- Nafnið er þjált, íslenskt orð: í íslenskri orðabók segir um merkingu orðsins: 1 útsýnishóll, hóll sem er víðsýnt af. 2 afstaða, sjónarmið,sjónarhóll.
Fræðslu- og tómstundanefnd samþykkir tillögu nafnanefndarinnar og leggur til að nýr leikskóli hljóti nafnið Sjónarhóll.
 
Gestir
Maríanna Jónsdóttir leikskólastjóri
Harpa Þorgeirsdóttir fulltrúi leikskólakennara
Lena Hrönn Marteinsdóttir
6. 201706015 - Reglur fyrir leikskóla Sveitarfélagsins Hornafjarðar
Farið var yfir drög að nýjum reglum fyrir leikskóla Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Gerðar voru tillögur að breytingum og ákveðið að semja þurfi sérreglur eða sérákvæði fyrir leikskóladeildina í Hofgarði.

Lagðar voru fram eftirfarandi breytingatillögur frá þremur foreldrum barna á biðlista:
- Biðlisti verði gerður opinber að því leiti að foreldrar fái að vita númer hvað barn þeirra er á biðlistanum. Hægt yrði að nálgast slíkar upplýsingar á íbúagáttinni. Ef um forgangsbörn er að ræða færu þau ávallt efst á biðlistann og þá myndu hin færast neðar.
- Leikskólaplássi er úthlutað eftir aldri barns.

Fræðslu- og tómstundanefnd leggur til að biðlistinn verði sýnilegur á íbúagáttinni þó ekki undir nafni heldur sé staðfestingarnúmer umsóknar birt á listanum. Fræðslustjóra falið að kanna hvort hægt sé að útfæra þetta án mikils tilkostnaðar.

Nefndin tekur ekki undir að leikskóladvöl verði úthlutað eingöngu eftir aldri barns en minnir á mikilvægi þess að sækja um leikskóladvöl þegar barn hefur náð níu mánaða aldri.

7. 201704091 - Erindisbréf Ungmennaráðs 2017
Fræðslu- og tómstundanefnd samþykkir framlagt erindisbréf og vísar því til afgreiðslu bæjarráðs.
8. 201302035 - Velferðarteymi fundargerðir
Fundargerðir velferðarteymis no. 73, 74 og 75 lagðar fram til kynningar.
9. 201705085 - Skólaakstur 2017-2018
Farið var yfir upplýsingar vegna fyrirspurnar frá síðasta fundi. Fram kom að mikið óhagræði og jafnvel slysahætta væri af því að foreldrar í dreifbýli biðu eftir skólabílnum við þjóðveg.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:15 

Til baka Prenta