Áramótapistill bæjarstjóra

11.1.2019

Ég vil óska öllum Hornfirðingum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir árið sem er liðið.

Það má segja að árið hafi verið viðburðaríkt og hafði í för með sér töluverðar breytingar fyrir mig persónulega að taka við starfi bæjarstjóra síðastliðið haust. Ég vil nú nota tækifærið og þakka fyrir það tækifæri og að mér sé treyst fyrir þessari mikilvægu stöðu.

 Árið 2018 var kosningaár sem leiddi til þess að nýr meirihluti tók til starfa í júní. Auglýst var eftir bæjarstjóra en enginn umsækjenda var ráðinn. Meirihlutinn bauð mér að taka við stöðu bæjarstjóra sem ég þáði. Ég hóf formlega störf 1. september. Auglýst var eftir nýjum framkvæmdastjóra á heilbrigðisstofnunina og gengið frá ráðningu í september. Nú 2. janúar hóf nýr framkvæmdastjóri störf og þar með hef ég látið formlega af störfum á heilbrigðisstofnuninni. Ég hef því gengt tveimur störfum síðustu mánuði sem hefur verið talsverð áskorun. (auðvitað reynt töluvert á. )Ég kveð mitt gamla starf með söknuði en ég hef unnið sem framkvæmdastjóri á heilbrigðisstofnuninni í 6 farsæl ár. Þar á ég góða vini og samstarfsfélaga og í gegnum starfið hef ég kynnst fjölmörgu skemmtilegu fólki sem ég á góðar minningar um.

Fjárhagsáætlun 2019

Starfsárið fór geyst af stað með gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019 sem var samþykkt í desember. Fjárhagsáætlun er mikilvægasta stjórntæki sveitarstjórna en þar koma fram stefna og markmið á hverjum tíma. Í áætlun Sveitarfélagsins Hornafjarðar er stefnt að áframhaldandi uppbyggingu sveitarfélagsins og góðri þjónustu við íbúana. Lögð er áhersla á að hlúa vel að starfsfólki, skólum samfélagsins og eldri íbúum. Að sveitarfélagið sé gott samfélag þar sem eftirsótt er að búa og starfa. Vel er haldið utan um rekstur sveitarfélagsins og er staða sveitarsjóðs mjög góð.

Atvinnulíf

Atvinnuástandið í sveitarfélaginu er mjög gott sem fyrr. Atvinnuleysi í ágúst síðastliðnum var 0,3% og því ljóst að mikil eftirspurn er eftir starfsfólki. Atvinnulífið er fjölbreyttara með hverju árinu. Nútímatækni breytir starfsumhverfi töluvert en nú hafa margir möguleika á að starfa nánast hvar sem er í heiminum hjá sínu fyrirtæki. Þrátt fyrir það þurftum við að horfa upp á flutning starfa frá Höfn og nærtækasta dæmið er lokun skrifstofu VÍS nú í haust. Starfsemi Nýheima þekkingarseturs er orðinn hluti af kjarnastarfsemi í sveitarfélaginu og þar hefur störfum fjölgað með auknum verkefnum. Það er mikilvægt að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækja í Nýheimum því mörg störf þar eru fjármögnuð með verkefnastyrkjum. Ég hvet stjórnendur fyrirtækja til að hafa í huga þá möguleika sem felast í samstarfi við Nýheima hvað varðar ráðgjöf, rannsóknir og fleira.

Undirstöðu atvinnuvegir Hornfirðinga eru sjávarútvegur og ferðaþjónusta. Sjávarútvegurinn er í stöðugri þróun og fiskistofnar missterkir. Humarinn hefur átt undir högg að sækja og er það áhyggjuefni í humarbænum okkar. Óvissa ríkir um magn loðnukvóta nú sem oft áður. Innsiglingin okkar er erfið en áætlað er að fara í viðhaldsdýpkun á árinu ásamt því að fé er sett í rannsóknir á grynnslunum og á næsta ári er áætlað fé til byggingar varnargarðs.

Ferðaþjónustan hefur vaxið hratt en nú eru blikur á lofti og því spáð að það hægi mjög á fjölgun ferðamanna. Það er þó ljóst að aðdráttarafl svæðisins verður áfram sterkt vegna nálægðar við Vatnajökulsþjóðgarð. Þjóðgarðurinn hefur gríðarlega sterkt aðdráttarafl og trekkir að fjölda ferðamanna, uppbygging við Jökulsárlón verður vonandi að raunveruleika á næstu misserum en unnið er að skipulagsvinnu á svæðinu. Þjóðgarðurinn í Skaftafelli varð 50 ára á árinu sem er nú liðið, þangað kemur mikill fjöldi ferðamanna og þar sem annars staðar er mikil þörf á uppbyggingu. Nú er jólahátíðin orðin mikill annatími í ferðamennsku og er það ánægjulegt, fyrir ófáum árum lokuðu allir veitingastaðir og margir gististaðir yfir jól og áramót. Nú er það breytt og ferðamenn geta sótt þjónustu yfir hátíðarnar.

Íbúaþróun og búsetuúrræði

Íbúaþróun hefur verið jákvæð undanfarin ár en fjöldi íbúa í sveitarfélaginu þann 5. desember 2018 var 2.381 samanborið við 2.296 fyrir ári síðan og er það fjölgun um 3,6%. Íbúar með erlent ríkisfang eru 456 eða 19% af heildaríbúafjölda. Fjölgun íbúa er því aðeins umfram því sem spáð er í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Mikil þörf hefur skapast fyrir fjölgun íbúðahúsnæðis samhliða fjölgun íbúa. Nú í desember voru tekin í notkun tvö fjölbýli sem en við það fjölgaði um 11 íbúðir og er sveitarfélagið með þrjár íbúðir í byggingu í Öræfum. Nokkur einbýlishús eru nú í byggingu og á hönnunarstigi og má búast við að um 15 einbýlishús verði risin á næstu tveimur árum. Í skoðun er uppbygging íbúða fyrir eldri íbúa á Hornafirði á Ekru svæðinu m.a. í samstarfi við Búmenn. Það horfir því til bjartari tíma í húsnæðismálum.

Velferðarmál

Í maí á síðasta ári voru loksins undirritaðir samningar við Velferðarráðuneytið um byggingu á nýju hjúkrunarheimili við Skjólgarð. Undirbúningur er nú í fullum gangi og stefnt er að því að hönnunarsamkeppni um bygginguna verði auglýst í byrjun febrúar. Ráðgert er að nýtt heimili verði tekið í notkun árið 2021. Fjöldi hjúkrunarrýma verður þá 30  en ekki verða dvalarrými á heimilinu. Ný bygging mun bæta aðbúnað íbúa til muna. Það eru því spennandi tímar framundan.

Heimaþjónustudeild mun fá nýtt húsnæði á þessu ári en undirbúningur að flutningi úr Sjálfstæðishúsinu að Víkurbraut 24 mun hefjast fljótlega. Samhliða verður farið í eflingu samþættingar á þjónustu við aldraða en þar liggja tækifæri. Það er ljóst að með fjölgun aldraðra og fjölbreyttari búsetu eykst þjónustuþörf í heimahúsum. Skoða þarf mönnun í heimaþjónustu utan dagvinnutíma til að gera íbúum kleift að búa lengur heima. Eins er nauðsynlegt að skoða vel alla tækninýjungar sem í boði eru og marka stefnu í velferðartækni fyrir sveitarfélagið.

Sjónarhóll, nýi leikskólinn var tekinn í notkun í haust og er það lokahnykkur á sameiningu leikskólanna Lönguhóla og Krakkakots. Bygging leikskólans er mjög vel heppnuð og garðurinn alveg einstakur. Aðstaða fyrir börn og starfsfólk er nú til fyrirmyndar. Vel hefur gengið að manna leikskólann. Nú er tækifæri til þróa starfsemi leikskólans enn frekar og styðja starfsfólk í sameiningarferlinu.

Samgöngumál

Samgönguáætlun var ekki hliðholl Hornafirðingum að þessu sinni. Framkvæmdum við Hornafjarðarfljótin var frestað og að óbreyttu ekki ráðgert að hefja framkvæmdir fyrr en árið 2021. Afgreiðslu samgönguáætlunar var frestað fram á nýtt ár en í skoðun er að flýta framkvæmdum samhliða því að tekin verði upp veggjöld á völdum leiðum. Vonast er til að Hornafjarðafljótin verði þar á lista. Við vorum minnt á hversu hættulegt vegakerfið er nú milli hátíðanna þegar þrír létust í bílslysi á brúnni yfir Núpsvötn en aðeins ár er liðið frá alvarlegu rútuslysi vestan við Kirkjubæjarklaustur. Björgunarlið fór á staðinn frá Hornafirði og stóð vaktina ásamt fleirum, ég vil nota tækifærið og þakka björgunaraðilum fyrir vel unnin störf á krefjandi vettvangi. Mikill fjöldi einbreiðra brúa er í sveitarfélaginu og er mikilvægt að þrýsta á fækkun þeirra.

Umhverfismál

Sveitarfélagið hefur mikla sérstöðu hvað varðar nálægð við þjóðgarð og mikla náttúrufegurð sem laðar að ferðamenn. Huga þarf að umhverfismálum svo sem sorpmálum, loftslagsmálum o.s.frv. Á næsta ári verður haldið áfram uppbyggingu fráveitu á Höfn en þriðji áfangi á leirusvæði er á áætlun og lokið verður við byggingu hreinsivirkis í Óslandi. Sorpmálin eru í stöðugri endurskoðun og skoða þarf allar leiðir til að auka flokkun og draga úr urðun sorps. Góður árangur hefur náðst en samhliða hefur neysla almennings aukist. Besta leiðin til að ná árangri í sorpmálum er að draga úr neyslu!

Nú hef ég tæpt á nokkrum atriðum í rekstri sveitarfélagsins og því sem er framundan. Ég vil minna íbúa á að alltaf er hægt að koma ábendingum til skila í gegnum heimasíðuna, íbúagátt, tölvupóst, með því að koma á bæjarskrifstofurnar, hringja eða skrifa á samfélagsmiðla.

Að lokum langar mig að þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf á árinu sem er nú liðið og hlakka til að starfa með starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins á næsta ári.

Matthildur Ásmundardóttir,