Íslenska Gámafélagið tók við sorpmálum í dag

1.8.2017

Sveitarfélagið samdi, eftir útboðsferli, við Íslenska Gámafélagið um rekstur sorpmála sveitarfélagsins og tók við málaflokknum í dag. Áhersla verður lögð á enn betri flokkun og endurvinnslu í samræmi við stefnu bæjarstjórnar og umhverfisstefnu sveitarfélagsins. 

Flokkunarleiðbeiningar  

Íslenska Gámafélagið var stofnað 1999. Tilgangurinn með stofnun fyrirtækisins var að auka samkeppni á því sviði atvinnulífsins sem snýr að sorphirðu. Hjá Íslenska Gámafélaginu starfa um 250 manns víða um land.

Íslenska Gámafélagið samdi við flesta starfsmenn sveitarfélagsins sem unnu að málaflokknum. Engar breytingar verða til að byrja með, nema að það verður ekki  hægt að koma á öðrum tíma í gámaportið en opnunartíma.

Framundan eru nokkrar breytingar á sorpmálum sveitarfélagsins. Þjónusta við íbúa verður aukin með frekari flokkun en þann 1. október verður hólf fyrir lífrænan heimilisúrgang  sett í almennu tunnuna við öll heimili auk þess sem tunnan fyrir almenna sorpið verður stækkuð og losunardögum fækkað. Í tunnuna fyrir lífræna úrganginn fara allir matarafgangar sem verða að moltu sem verður aðgengileg fyrir íbúa sveitarfélgsins.  

Þann 1. október nk. fá íbúar síðan klippikort sem gildir að gámasvæði sveitarfélagsins til að losa sig við það efni sem ekki fer eða kemst í heimilistunnur. Klippt verður fyrir gjaldskyldan úrgang á meðan tekið verður á móti ógjaldskildum úrgangi án greiðslu. Ef klippikortið dugar ekki út árið verður hægt að kaupa auka kort.

Fyrirtæki eru undanskilin útboðinu og greiða því samkvæmt gjaldskrá eins og áður.

Íslenska Gámafélagið og Sveitarfélagið munu standa fyrir kynningu þegar helstu breytingar eiga sér stað.

Sveitarfélagið þakkar fráfarandi verktökum Funa ehf. og Rósaberg fyrir samstarfið á liðnum árum.