Fjölskylduvænn
fjarvinnustaður

Sveitarfélagið Hornafjörður er öflugt og vaxandi samfélag umvafið stórkostlegri náttúru við rætur Vatnajökuls. Við bjóðum frumkvöðlum, fjölskyldufólki og öllum þeim sem eiga kost á því að vera í fjarvinnu að kynna sér kosti þess að búa hér.

Skóli

Sveitarfélagið Hornafjörður leggur áherslu á að sinna menntamálum af mikilli alúð. Í leik- og grunnskólum er unnið öflugt starf auk þess sem Tónskóli Austur-Skaftafellssýslu er starfræktur á Höfn. Þá er Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellsýslu staðsettur á Höfn, en þar er lögð áhersla á að þjóna þörfum nemenda á persónulegan hátt með sveigjanlegu námsframboði. Fjarnám og tölvutengt nám er mikilvægur hluti náms við skólann og fer sífellt vaxandi.

Íþróttir

Ungmennafélagið Sindri heldur úti öflugu íþróttastarfi á Höfn, auk þess sem önnur ungmennafélög í sveitarfélaginu bjóða upp á fjölbreytta starfsemi. Aðstaðan til íþrótta er mjög góð en á íþróttasvæðinu er glæsilegur grasvöllur og flott aðstaða til iðkunar frjálsra íþrótta (Sindravellir). Einnig er þar íþróttahúsið Báran sem er yfirbyggt knatthús og íþróttahús með 600 m2 sal sem þjónar inni íþróttum. Sundlaug Hafnar, sem er 25m. útilaug með heitum og köldum pottum, vaðlaug og gufu, er rómuð á landsvísu. Einnig er 9 holu golfvöllur á Höfn, Silfurnesvöllur, sem býður upp einstakt útsýni til jökla.

Samfélagið

Höfn í Hornafirði er eini þéttbýliskjarninn í ríki Vatnajökuls, en svæðið nær frá Lómagnúpi í vestri að Hvalnesskriðum í austri. Sveitarfélagið Hornafjörður er öflugt og vaxandi samfélag þar sem búa um 2500 manns. Þar er alla helstu þjónustu að finna hótel, veitingastaði, söfn, tjaldsvæði, verslanir, bensínstöðvar, pósthús, apótek o.fl. Svæðið er umvafið stórkostlegri náttúru við rætur Vatnajökuls. Vel er hlúð að skólastarfi, íþróttum og mikil áhersla hefur verið lögð á nýsköpun, rannsóknir og þekkingu á svæðinu undanfarin ár. Einnig hefur ferðamannastraumurinn legið í Sveitarfélagið Hornafjörð undanfarin ár sem hefur jafnt auðgað mannlífið og skapað ótal tækifæri fyrir byggðarlagið.

Senda fyrirspurn

Viltu vita meira um Sveitarfélagið Hornafjörð?
Sendu okkur fyrirspurn hér að neðan og við munum svara þér eins fljótt og auðið er.

    Sveitarfélagið Hornafjörður
    Hafnarbraut 27
    780 Höfn