Viðburðasafn

Frá mótun til muna

  • 26.5.2019 - 30.6.2019, Nýheimar

Síðastliðið haust var samsýningin "Frá mótun til muna" sett upp í Listasafni Árnesinga í Hveragerði, að henni standa níu leirlistarmenn víðsvegar að af landinu. Hópurinn ákvað í kjölfarið að miðla þessari áhugaverðu þekkingu um fjölbreytileika þessarar listgreinar til almennings og gera sýninguna að farandsýningu. Fyrsti áfangastaðurinn í þeirri ferð er hér á Höfn og næsti viðkomustaður er í Safnahúsinu á Húsavík í september.
Auk verka eftir listamennina, sem öll voru unnin sérstaklega fyrir sýninguna, má segja að kjarni hennar sé heimildarmyndin – Raku frá mótun til muna, en hún var tekin upp og unnin haustið 2017 Þegar Handverk og hugvit undir Hamri í Hveragerði fékk kennarann og listamanninn Anders Fredholm frá Svíþjóð til að halda vinnustofu um byggingu á viðarbrennslu-rakuofni og aðrar frumstæðar leirbrennslur við opinn eld.
Út frá námskeiðinu hjá Anders Fredholm myndaðist sterkur hópur af kjarnakonum sem kalla sig Brennuvarga. Þær njóta þess að koma saman út í náttúrunni og brennuvargast.
Sýningin mun standa í Nýheimum frá 26. maí til 30. júní. Sýnendur eru Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Hólmfríður Arngrímsdóttir, Hrönn Waltersdóttir, Ingibjörg Klemenzdóttir, Katrín V. Karlsdóttir, Ólöf Sæmundsdóttir, Steinunn Aldís Helgadóttir og Þórdís Sigfúsdóttir.