Viðburðasafn

Listasýningin Tálgað undir hömrum

  • 25.1.2019 - 24.5.2019, 17:00 - 19:00, Listasafn Svavars Guðnasonar

Verið hjartanlega velkomin að vera við opnun sýningarinnar: Tálgað undir hömrum á verkum Guðjóns R. Siguðrson í Svavarssafni föstudaginn 25. janúar kl. 17:00. Léttar veitingar verða í boði.

Guðjón [Runólfsson] Sigurðsson fæddist á Hömrum í Mýrarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu. Tvítugur að aldri flutti hann til Kanada og bjó þar í um 40 ár. Þar átti hann langtímum saman heima í bjálkakofum fjarri byggð með veiðifélögum, eða einn með hundum sínum. Guðjón lærði ýmis tungumál og mynda skrif hans og ljósmyndir frá þessum tíma yfirgripsmikla og fjölbreytta ferðasögu þar sem hann reisir m.a. turn fyrir lyftubúnað í gullnámu, innréttar kirkju, veiðir úlfa, gaupur og bísamrottur, siglir um höf og vingast við frumbyggja Norður-Ameríku. 
Fegurð heimahaganna dró hann þó aftur til Íslands og í kringum 1960 flutti hann til frændfólks síns á Höfn í Hornafirði og fór að vinna við trésmíðar. Árið 1973 fluttist hann búferlum frá Höfn að Fagurhólsmýri í Öræfum, en þar undir hömrunum kom hann fyrir litlu húsi sem hann átti heima í allt til æviloka. 
Í Öræfunum undi hann sér löngum við að tálga og smíða hina ýmsu muni, en viðarstyttur sem hann skar út og gaf kunningjum sínum, eða seldi ferðamönnum í Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga í Öræfum urðu vinsælar meðal listunnenda - og í dag prýða styttur hans heimili og söfn víðsvegar um landið og tilheyra tvímælalaust sögu næfrar myndlistar á Íslandi.

24 verk eru í safneign Byggðasafns Austur-Skaftafellssýslu.
Sýningin Tálgað undir hömrum stendur í aðalsal Svavarssafns frá 25.01.2019 – 10.05.2019