Viðburðasafn

Magdalena Margrét opnar sýningu

  • 7.9.2019 - 28.11.2019, 14:00 - 16:00, Ottó

Laugardaginn 7. september, klukkan 14:00 til 16:00 verður opnuð sýning með verkum grafíklistakonunnar Magdalenu Margrétar Kjartansdóttur hjá Ottó, Hafnarbraut 2 Höfn Hornafirði. Allir velkomnir.

Megin viðfangsefni Magdalenu síðustu áratugina hefur verið konan og lífshlaup hennar. Hún vinnur útfrá eigin reynsluheimi, þar sem æskan, sakleysi, þroski og öldrun fléttast saman. Listsköpun sinni líkir hún við ljóðagerð eða frásögn. Verkunum er ætlað að vekja upp tilfinningar áhorfandans fyrir áreiti umhverfisins í samfélagi nútímans.

Magdalena Margrét lauk námi í listrænni grafík frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún fæst aðallega við grafíska miðla, tré- og dúkristur handprentaðar á japanskan pappír og hefur hlotið styrki og viðurkenningar fyrir list sína, m.a frá Reykjavíkurborg og ríkinu. Magalena hefur haldið fjölda einkasýninga t.d. í Gerðarsafni, Hafnarborg og Listasafni ASÍ. Auk þess hefur hún verið valin til þátttöku á fjölmörgum samsýningum og listahátíðum hér heima og erlendis m.a. á Norðurlöndunum - þar með talið í Grænlandi, í Bandaríkjunum, Brasilíu, Frakklandi, Þýskalandi, Japan og Kína. Verk eftir hana eru í eigu Alþingis Íslendinga og helstu safna hér á landi auk safna í Svíþjóð, Finnlandi og Asíu.

Sýning Magdalenu Margrétar er hluti sýningaraðarinnar Argintætur í myndlist sem G.Erla - Guðrún Erla Geirsdóttir skipuleggur. Sýningin stendur til 29. nóvember og er opin daglega frá klukkan 12:00 til 22:00. Allir velkomnir.