Fundargerðir

Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðslu- og frístundanefnd - 93

Haldinn í ráðhúsi,
21.09.2022 og hófst hann kl. 16:15
Fundinn sátu: Róslín Alma Valdemarsdóttir formaður,
Þóra Björg Gísladóttir varaformaður,
Andri Már Ágústsson aðalmaður,
Kristján Örn Ebenezarson aðalmaður,
Gunnhildur Imsland aðalmaður,
Birta Ósk Sigbjörnsdóttir Fulltrúi ungmennaráðs,
Þórgunnur Torfadóttir .
Fundargerð ritaði: Þórgunnur Torfadóttir, sviðstjóri fræðslu- og tómstundasviðs


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 202209010 - Skóladagatal leikskólans Sjónarhóls - ósk um breytingu
Stjórnendur leikskólans Sjónarhóls óska eftir að færa starfsdag sem vera átti 5. júní 2022 til 18. apríl. Ástæðan er fyrirhuguð námsferð starfsmanna til Ítalíu 18. - 21. apríl 2022.

Fræðslu - og frístundanefnd samþykkir þessa beiðni en óskar eftir því að foreldrar verði látnir vita sem fyrst.
 
Gestir
Elínborg Hallbjörnsdóttir aðstoðarleikskólastjóri, Svava Kristín Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna og Guðrún Einarsdóttir fulltrúi foreldra.
2. 202202037 - Lokun leikskólans kl. 15.00 á föstudögum
Frá því í byrjun maí hefur verið gerð tilraun með að loka leikskólanum kl. 15.00 á föstudögum að undanskildu því að opið hefur verið fyrir börn sem nauðsynlega hafa þurft á því að halda. Nú er verið að kanna hug foreldra til þess að festa þessa lokun í sessi.

Könnun var lögð fyrir foreldra í byrjun vikunnar og af þeim sem þegar hafa svarað eru 37.8% ekki sátt við að loka kl. 15:00 á föstudögum og 37% þurfa að nýta opnun milli 15.00 og 16:00 á föstudögum. Starfsmenn á leikskólanum vildu helst að leikskólinn lokaði alfarið kl. 15.00 á föstudögum.
Mikil umræða var um málið en fræðslu- og frístundanefnd var sammála að ekki væri tímabært að loka leikskólanum alfarið kl. 15:00 á föstudögum. Nefndin óskað eftir því að sama fyrirkomulag yrði áfram næsta mánuðinn þ.e. að loka kl. 15:00 á föstudögum en að þeir sem þurfi geti verið með börnin til 16:00. Nefndin óskaði eftir því að starfsfólk leikskólans og stjórnendur hans skoði betur hvernig hægt er að koma til móts við þá með styttingu vinnuvikunnar og á næsta fundi nefndarinnar 26. okt. verði málið aftur tekið fyrir.
 
Gestir
Elínborg Hallbjörnsdóttir aðstoðarleikskólastjóri, Svava Kristín Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna og Guðrún Einarsdóttir fulltrúi foreldra.
3. 202208081 - Ósk um heilsustyrk til leikskólastarfsmanna
Bréf frá nefnd um heilsueflingu starfsmanna á leikskólanum lagt fram til umræðu og kynningar.

Umræða átti sér stað um bréf frá leikskólanum vegna auka heilsueflingarstyrks sem starfsfólk óskaði eftir. Óskin frá starfsfólki kom m.a. vegna þess að grunnskólinn var með svokallaða hreyfitíma sem ekki var hægt að hafa á leikskólanaum. Óskin felst einnig í því að hægt sé að framvísa kvittun fyrir kaupum á íþróttafatnaði og búnaði.
Nefndin telur eðlilegt að hækka heilsueflingarstyrk jafnt á alla starfsmenn sveitarfélagsins svo jafnræðis sé gætt því hreyfitímar hafa lagst af með styttingu vinnuvikunnar í grunnskólanum.
Nefndin óskar eftir því að fá upplýsingar frá fjármálasviðinu um það hversu hátt hlutfall starfsmanna sveitarfélagsins er að nýta heilsueflingarstyrkinn nú þegar. Einnig óskar nefndin eftir því hvort hægt sé að fá endurgreiðslu vegna fatnaðar eða búnaðar. Málinu vísað til starfsmanna.
 
Gestir
Elínborg Hallbjörnsdóttir og Svava Kristín Þorsteinsdóttir fulltrúi starfsmanna.
4. 202209001 - Íslenska æskulýðsrannsóknin
Íslenska æskulýðsrannsóknin (ÍÆ) er rannsókn sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmir fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið á grundvelli 12 gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Markmið verkefnisins er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna og ungs fólks og gera niðurstöður aðgengilegar til að styðja við stefnumótun.
Undir ÍÆ falla nú tvær alþjóðlega rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið á Íslandi um árabil. Önnur er Health Behaviour in School-aged Children (HBSC) könnun alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem lögð hefur verið fyrir í 6., 8. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi á fjögurra ára fresti frá 2006. Hin rannsóknin er evrópska vímuefnakönnunin The European School Survey Project on Alcohol and Other Drugs (ESPAD) sem lögð er fyrir í 10. bekk á fjögurra ára fresti og hóf göngu sína 1995. Spurningar úr þeim könnunum mynda kjarnann í spurningalistum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem gerir niðurstöður samanburðarhæfar bæði yfir tíma og á milli landa.
Könnun Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar verður frá og með skólaárinu 2021-2022 lögð fyrir á hverju ári í grunnskólum. Hún er lögð fyrir í 6., 8. og 10. bekk líkt og HBSC-könnunin auk fjórða bekkjar. Þá verður könnun lögð fyrir annað hvert ár í framhaldsskólum (hefst 2022-2023) og fjórða hvert ár verður framkvæmd símakönnun
meðal ungs fólks utan skóla. Niðurstöður á landsvísu úr öllum umferðum HBSC og ESPAD er hægt að skoða í mælaborði á heimasíðu rannsóknarinnar og niðurstöður ÍÆ verða aðgengilegar þar.


Farið var lauslega yfir niðurstöður rannsóknarinnar. Fræðslu- og frístundanefnd sammála um það verði forvitnilegt að fylgjast með framvindu þessara rannsókna og bera þær saman milli ára þegar fram í sækir. Það verður ákveðið á næsta ári hvort Sveitarfélagið heldur áfram að fá líka kannanir frá Rannsóknum og greiningu.
hornafjordur_seinni.pdf
Íslenska æskulýðsrannsóknin lykiltölur 2022.pdf
 
Gestir
Emil Morávek verkefnastjóri og fræðslu- og frístundasviði
5. 202209018 - Lýðheilsuráð 2022-2023 - endurskoðun erindisbréfs
Nýr verkefnastjóri á fræðslu- og frístundasviði vinnur að breytingum á erindisbréfi lýðheilsuráðs í samráði við ráðið með áherslu á meiri skilvirkni í ráðinu og að það endurspegli betur þá vinnu sem þar fer fram.
Drögin lögð fram til kynningar í fræðslu- og frístundanefnd.


Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir breytingar á erindisbréfi Lýðheilsuráðs og vísar því til samþykktar í bæjarstjórn.
 
Gestir
Emil Morávek verkefnastjóri á fræðslu- og frístundasviði
6. 202209044 - Íþróttavika Evrópu 2022
Sveitarfélagið Hornafjörður skipuleggur ásamt USÚ, Umf. Sindra og fleiri aðilum Íþróttaviku Evrópu 2022.

Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. ÍSÍ er tengiliður við verkefnið og styrkir sveitarfélagið með því að bjóða upp á þrjá fyrirlestra í vikunni, sjá dagskrá.
beactive_A4_v3.pdf
 
Gestir
Emil Morávek verkefnastjóri á fræðslu- og frístundasviði
7. 202208063 - Svalbarð sem vistgata
Mál lagt fram til kynningar.
Starfsfólk umhverfis og skipulagssviðs í samráði við starfsfólk fræðslu- og frístundasviðs og Grunnskóla Hornafjarðar hefur fengið aðila til að vinna að því að Svalbarð verði vistgata. Það er gert til að auka öryggi nemenda sem fara oft yfir götuna á hverjum degi. Í því felst m.a. að;
-Þrengja götuna
-Útbúa gangbrautir eða þveranir
-Breikka gangstéttar meðfram götunni
-Útbúa tröppur eða þrep að gatinu við malarvöllinn hjá Hafnarskóla
-Skoða umferðarflæði við bílastæðið hjá Vöruhúsinu. Mögulega loka annarri innkeyrslunni.
-Skoða heppilega staðsetningu fyrir hjólastæði / hjólastæðahús við Vöruhúsið
-Lengja hluta götunnar sem er einstefna á (færa framar)
-Skoða umferðarflæði við sleppistæðin fyrir utan aðalinnganginn hjá Hafnarskóla
-Skoða malarbílaplanið austan við Hafnarskóla.


Fræðslu- og frístundanefnd lýsti ánægju sinni með að verið sé að breyta Svalbarði í vistgötu.
8. 202208097 - Fjárhagsáætlanir f.2023 - Fræðslu- og frístundasvið
Nú stendur yfir fjárhagsáætlanagerði hjá sveitarfélaginu. Forstöðumenn skila inn römmum í síðasta lagi 29. september þar sem fram koma óskir þeirra um stofnbúnað og greinargerð ef þeir telja að um aukin útgjöld verði að ræða. Vinna við launaáætlun er unnin á sama tíma. 6. október fara sviðsstjórar fyrir bæjarráð með fjárhagsáætlanir sviðsins.
Rammar fyrir fjárhagsáætlanir sviðsins kynntir.


9. 202209046 - Starf forstöðumanns Vöruhúss
Vilhjálmur Magnússon hefur óskað eftir námsleyfi frá 1. janúar 2023 til 1. júlí 2024.

Fræðslu- og frístundanefnd er sammála um að veita Vilhjálmi námsleyfi til 1. júlí 2024 og óskar honum góðs gengis. Á næstu vikum verður auglýst eftir umsóknum í starf forstöðumanns Vöruhúss.
10. 202206057 - Íþróttahús
Búið er að safna gögnum sem til eru varðandi þarfir fyrir nýtt íþróttahús. Þarfagreining er til frá árinu 2019, en nauðsynlegt er að fara yfir hana og uppfæra í samráði við grasrót íþróttafélaganna og hlutaðeigendur (sbr. grunnskóla og framhaldsskóla og fleiri).


Nefndin er jákvæð fyrir áframhaldandi vinnu og felur starfsmönnum því að skipa í vinnuhóp og sendir málið áfram til bæjarráðs.
11. 202209020 - Vörhúsið og FAS
Nýr samstarfs/húsaleigusamningur hefur verið undirritaður milli sveitarfélagsins og FAS.

Fræðslu- og frístundanefnd lýsti ánægju sinni með nýjan samning við FAS.
12. 201810066 - Golfklúbbur Hornafjarðar: Samstarfssamningur 2018
Samningur við Golfklúbb Hornafjarðar (GHH) rennur út um næstu áramót og óskar GHH eftir að gengið verði til endurnýjunar samnings.

Gestur Halldórsson formaður golfklúbbsins afhenti bréf á fundinum þar sem farið var yfir óskir golfklúbbsins um hækkun á styrk Sveitarfélagsins til GHH. Í bréfinu er einnig óskað eftir sérstökum styrk til endurbóta á golfskálanum. Golfvöllurinn er í góðu standi og miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í vallarhúsinu og allur peningur félagsins hefur farið í þær breytingar og töluvert er eftir af þeim. Þess má geta að Silfunesvöllur er núna í 24. sæti yfir alla golfvelli á landinu og félagið er orðið fyrirmyndarfélag ÍSÍ.
Fræðslu- og frístundanefnd óskar GHH til hamingju með góðan völl og að félagið sé orðið fyrirmyndarfélag og er sammála um að endurnýja samning við GHH. Starfsmanni nefndarinnar falið að vinna áfram að málinu með bæjarráði og ljúka því fyrir áramót.
 
Gestir
Gestur Halldórsson formaður GHH
13. 202209051 - Hreystigarður á Höfn
Mál lagt fram til kynningar. Fyrirhugað er að setja upp hreystigarð á Höfn. Í garðinum verða tæki til þol-, styrkt­ar- og teygjuæf­inga. Ókeyp­is verður í tæk­in, sem ætluð eru full­orðnum. Umhverfis- og skipulagsnefnd hefur verið falið að huga að staðsetningu garðsins eða svæða undir slík tæki.

Umhverfis- og skipulagsnefnd fundaði á mánudag og leggur til að sett verði upp tæki á tveimur stöðum, liðleikatæki í nágrenni við Ekruna og styrktartæki við Ægissíðustíg. Umhverfis- og skipulagsnefnd vísað þessum hugmyndum til fræðslu- og frístundanefndar til umsagnar. Fræðslu- og frístundanefnd lýsir ánægju sinni með að setja upp hreystitæki en telur sig ekki hafa upplýsingar til að taka ákvörðun um það hvar tækin verða þar sem ekki liggur fyrir hvaða tæki þetta eru. Rétt sé þó að benda á að gott sé að hafa lýsingu nálægt tækjunum. Nefndin leggur til að haft verði samráð við Lýðheilsuráð um staðsetningu og tæki.

Auk þessa var tilkynnt að bæjarráð hefði veitt fjármagni til ýmissa verkefna sem tengjast fræðslu- og frístundasviði og málaflokkunum barnvænt sveitarfélag og heilsueflandi samfélag. Má þar nefna hönnun á göngu- og hjólastíg inn í Nesjahverfi, hönnun á Hóteltúninu sem virkara útivistarsvæði ekki síst fyrir börnin á leikskólanum, hreystibraut við Grunnskólann og að endurhanna og laga skólalóð Grunnskóla Hornafjarðar svo eitthvað sé nefnt. Þess má að lokum geta að kastalinn við GH er ónýtur og það er búið að taka hann niður. Óskað verður eftir fjármagni til að setja upp nýjan kastala fyrir börnin.

Fræðslu- og frístundanefnd lýsir ánægju sinni með fyrirhugaðar framkvæmdir.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:15 

Til baka Prenta