Þrykkjan

Félagsmiðstöð  Hafnarbraut 30

Íþrótta- og tómstundafulltrúi

Sími 470 8475 

Þrykkjan, félagsmiðstöð ungmenna á Hornafirði er mikilvægur liður í forvarna- og tómstundastarfi sveitarfélagsins. Starfsemi Þrykkjunnar skiptist í tvennt; starf fyrir 5.-6. bekk og unglingastig 7.-10. bekk. Opið er einu sinni í viku fyrir yngri hópinn og er oftar en ekki reynt að bregða á leik með einhverju skemmtilegu eins og poolmóti, þythokkímóti, bíódegi eða spilaopnun. Á unglingastigi er opið mánudags-, miðvikudags- og föstudagskvöld frá 20:00-22:00. Miðvikudagskvöld eru svokölluð viðburðakvöld en Þrykkjuráð skipuleggur dagskrá og kemur að undirbúningi og framkvæmd viðburða.

Unglingastig Þrykkjunnar á í góðu samstarfi við félagsmiðstöðvar annarsstaðar á landinu og sækir stærri viðburði bæði með austfjörðum sem og aðra viðburði á vegum Samfés. Fastir liðir í starfi félagsmiðstöðvarinnar eru Fjarðaball, Kuldaboli, SamAust, Samfestingurinn og Stíll í Hörpu.

Síðastliðið starfsár voru starfræktir þrír klúbbar: Stíll hönnunarklúbbur, kvikmyndaklúbbur og bókaklúbbur. Framboð í klúbbastarfi er þó mismunandi ár hvert og fer eftir áhuga og eljusemi unglinganna. Ásamt fyrrnefndum klúbbum hafa meðal annars verið í boði hjólabrettasmíði, skreytingaklúbbur Þrykkjunnar, stelpu- og strákaklúbbur, söngklúbbur og stop-motion klúbbur.

Nýr liður í starfsemi félagsmiðstöðvarinnar hóf göngu sína árið 2015-2016 en þá var stofnað sértækt hópastarf þar sem fjallað var um sterka sjálfsmynd og sjálfsöryggi. Skipt var niður í stráka- og stelpuhóp og stóð starfið yfir í 8 vikur. Fimmtán ungmenni tóku þátt og gekk starfið vonum framar.