Innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

25.6.2020

Sveitarfélagið Hornafjörður skuldbindur sig til að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína með  mannréttindi barna að leiðarljósi.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, undirrituðu í síðustu viku samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. 

Með undirskriftinni bætist Sveitarfélagið Hornafjörður í ört stækkandi hóp sveitarfélaga sem hefja nú vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi.

Þátttaka Sveitarfélagsins Hornafjarðar í Barnvænum sveitarfélögum er liður í að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga.

Öll sveitarfélög verði Barnvæn sveitarfélög

Akureyrarbær hóf vinnu við að verða Barnvænt sveitarfélag árið 2016, og varð í lok maí fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta þá viðurkenningu. Áhugi á þátttöku í verkefninu hefur verið mikill og biðlistar myndast þar sem UNICEF hefur hingað til ekki getað annað eftirspurn áhugasamra sveitarfélaga. Þann 18. nóvember 2019, í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna gengu félags- og barnamálaráðherra og UNICEF á Íslandi til samstarfs við framkvæmd verkefnisins undir formerkjum Barnvæns Íslands. Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstu tíu árum. Á næstu tveimur árum er stefnt að því að vel á annan tug sveitarfélaga bætist í hópinn. Félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi sendu öllum sveitarfélögum landsins nýverið formlegt erindi með boði um þátttöku og hafa viðtökur verið vonum framar.

Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna

Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið styðja sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Sveitarfélagið Hornafjörður er framsækið sveitarfélag sem býður börnum og ungmennum upp á einstakt umhverfi til að alast upp í. Hér er gróska og reynsla af því að taka þátt í þróunarverkefnum og ég er sannfærður um að þátttaka Hornafjarðar í innleiðingu Barnasáttmálans falli vel að því góða starfi sem hér er unnið fyrir öll börn í sveitarfélaginu.“

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornarfjarðar: „Sveitarfélagið Hornafjörður fékk kynningu á verkefninu Barnvænt sveitarfélag í febrúar síðastliðinn og í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn að sækja um aðild að verkefninu. Sveitarfélagið hefur langa sögu um þátttöku í ýmsum tilraunaverkefnum eins og að gerast reynslusveitarfélag um rekstur heilbrigðisþjónustu og þjónustu við fatlað fólk og því verið framsækið. Með samþykktinni hefur bæjarstjórn ákveðið að vinna markvisst að því að innleiða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og nota hann sem viðmið í starfi sínu. Aðilar samkomulagsins lýsa með undirritun sinni yfir vilja sínum og ætlun um að viðhafa gott og náið samstarf með réttindi og velferð barna í Sveitarfélaginu Hornafirði að leiðarljósi. Fyrirhugað er að innleiðingarferlið taki tvö ár og mun markviss vinna við það hefjast í haust með ráðgjöf og handleiðslu UNICEF á Íslandi. Við hlökkum til samstarfsins.“

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi: „Höfn í Hornafirði er núna staðfestur útvörður barnvænna sveitarfélaga á Suðausturlandi. Það er mikil ánægja, eins og alltaf, að koma hingað á Höfn og sérstaklega ánægjulegt að ýta úr vör verkefninu barnvænn Hornafjörður. Áhuginn á verkefninu er áþreifanlegur meðal heimamanna og ljóst að þetta verður skemmtilegt samstarf. Við hjá UNICEF á Íslandi hlökkum til framhaldsins.“

Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög eru aðgengilegar á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans.

Viðtöl og nánari upplýsingar veitir:

Hjördís Eva Þórðardóttir, verkefnastjóri, s. 695-3392/ hjordis.thordardottir@frn.is

Meðfylgjandi mynd er fjölmiðlum frjálst að nota gegn því að merkja hana UNICEF/Steindór