Íbúakönnun vegna Leiðarhöfðans

27.5.2021

Könnun meðal íbúa vegna hugmyndaleitar um uppbyggingu á Leiðarhöfðanum á Höfn.

Könnun meðal íbúa vegna hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á Leiðarhöfðanum á Höfn.

Sveitarfélagið Hornafjörður hlaut nú í vetur styrk úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða til þess að halda hugmyndaleit og vinna nýtt skipulag fyrir Leiðarhöfðann á Höfn. Fyrirhugað er að auglýsa eftir áhugasömum fagaðilum til að taka þátt í forvali fyrir hugmyndasamkeppni um Leiðarhöfðann síðla sumars. Áður en sú vinna fer af stað óskum við eftir þinni þátttöku í þessari könnun, kæri íbúi, þar sem sá rammi sem mótast um hugmyndaleitina byggist á niðurstöðum íbúakönnunarinnar.

Leiðarhöfðinn er okkur flestum kær og er því mjög mikilvægt fyrir undirbúning samkeppninnar að fá að heyra væntingar og óskir íbúa um þróun og uppbyggingu á svæðinu svo að svæðið nýtist sem best fyrir íbúa og gesti.

Skilaboð frá Matthildi Ásmundardóttur bæjarstjóra
frá Matthildi

Svæðið sem um ræðir er tæplega 1 ha. að stærð og afmarkast af Sandbakkavegi til austurs, Sandbakka 1 og 3 til norðurs og Hornafirðinum til vesturs og suðurs (sjá mynd).

Í dag er svæðið vannýtt sem útivistarsvæði en þar eru malarstígar og bekkur. Skábraut liggur að sjó fyrir neðan höfðann vestanverðan svo hægt er með góðu móti að fara út á kajak. Tilkomumikið útsýni er frá Leiðarhöfða yfir Hornafjörð, fjallahringinn og til jökla.

Markmið með samkeppninni er að fá fram hugmyndir um framtíðarskipulag svæðisins, auka útsýnis- og náttúruupplifin svæðisins ásamt því að móta umgjörð um uppbyggingu. Samkeppnin verður haldin í samstarfi við viðeigandi fagfélög hönnuði/arkitekta.
Hlekkur á spurningakönnun kemur hér: Spurningakönnun um Leiðarhöfðann

Niðurstöður könnunarinnar verða ekki settar fram, né nýttar á þann hátt, að svör séu persónugreinanleg. Niðurstaða könnunarinnar mun vera fylgigagn við auglýsingu um samkeppnina.

Könnunin er opin til og með 10. júní nk. og eru allir, bæði ungir sem aldnir hvattir til að taka þátt í henni. Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar, veitir frekari upplýsingar um framkvæmd hennar. Hægt er að senda póst á netfangið ardis@hornafjordur.is og einnig að hringja í síma 470-8000.