Nýtt hjúkrunarheimili við Skjólgarð

22.12.2021

Bæjarráð fjallaði um niðurstöðu viðræðna Framkvæmdasýslu ríkisins við verkbjóðendur og hönnuði nýs hjúkrunarheimilis á fundi sínum í gær þriðjudag 21. desember.

Málefni hjúkrunarheimilisins hafa verið til umræðu á flestum fundum bæjarstjórnar síðasta árið að minnsta kosti. Ferlið hefur dregist og eru tafir á framkvæmdum til komnar vegna ýmissa þátta. Hönnunin tók lengri tíma en áætlað var, sömuleiðis lokavinna við útboðsgögn og kostnaðaráætlun. Framkvæmdir voru boðnar út síðastliðið vor og bárust tvö tilboð sem voru bæði vel yfir kostnaðaráætlun. Báðum tilboðum var hafnað en samkvæmt lögum um opinber innkaup er heimilt að leita samninga við bjóðendur. Undanfarinn mánuð hafa samningaviðræður staðið yfir og er nú komin niðurstaða. Sveitarfélagið og heilbrigðisráðuneytið fengu sent minnisblað þar um frá Framkvæmdasýslu ríksins sem bæjarráð fjallaði um á fundi sínum í gær. 

Þar kemur fram að tekist hefur að lækka kostnað við bygginguna töluvert sem kemur þó ekki niður á gæðum hennar. Heilbrigðisráðuneytið og bæjarráð samþykktu að óska eftir nýju tilboði hjá lægst bjóðanda, byggt á þeim breytingum sem lagðar voru til í minnisblaðinu. Þegar tilboðið berst þarf það að fá umfjöllun hjá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og vonandi samþykki svo hægt verði að hefja framkvæmdir fljótlega á nýju ári.

Mótmæli hafa nú farið fram á Skjólgarði þrjá föstudaga í röð vegna tafa á framkvæmdum. Fyrstu mótmælin voru haldin af íbúum sjálfum, næst voru það starfsmenn og nú aðstandendur íbúa heimilisins. Bæjarstjóri tók þátt í mótmælunum síðastliðinn föstudag og þakkaði við það tilefni íbúum og aðstandendum fyrir hvatninguna.

Bæjarstjóri sendi í síðustu viku umsögn vegna fjárlaga til allra þingmanna Suðurkjördæmis þar sem m.a. er komið inn á byggingu hjúkrunarheimilis. Viðbrögð hafa komið frá mörgum þeirra um þetta erindi sérstaklega þar sem tekið er undir afstöðu Hornafirðinga. Öllum þingmönnum sem komið hafa til Hornafjarðar hefur verið sagt frá aðstöðunni og mikilvægi þess að hafist verði handa við framkvæmdir ítrekað. Mótmæli íbúa, aðstandenda og almennings styður við málstaðinn og er góð hvatning! Vonandi fáum við frekari fregnir fyrr en síðar varðandi framgang þessa máls.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.