Opnun listasýningar í Svavarssafni 15. maí

14.5.2021

SAMTÍMIS - einkasýning á vegum Listasafns ASÍ í samvinnu við Svavarssafn á Höfn í Hornafirði

Onun sýningarinnar verður laugardaginn 15. maí n.k. kl. 17:00 allir eru hvattir til að koma og vera viðstaddir opnunina. 

Sýningin er opin virka daga kl. 9:00-12:00 og 13:00-15:00.
Frá 1. júní verður opið um helgar kl. 13:00 -17:00.

Sýning Bjarka Bragasonar – SAMTÍMIS - fjallar um skörun á jarðsögulegum og mennskum tíma. Rannsóknarferlið hefur hverfst um speglun á tveimur trjám frá ólíkum tímum og stöðum. Í verkum hans á sýningunni birtast annarsvegar trjáleifar sem fundust við rætur Breiðamerkurjökuls og hafa verið grafnar í jarðvegi þar í um þrjú þúsund ár og hinsvegar leifar af fornu tré í Sagehen skóginum í Sierra Nevada fjöllum Kaliforníu.

Bjarki Bragason er þriðji listamaðurinn sem velst til þátttöku í nýlegri sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu. Kallað er reglulega eftir tillögum frá myndlistarmönnum sem vilja vinna með safninu og eitt verkefni valið hverju sinni. Sýningarstaðirnir eru ákveðnir í samvinnu við listamennina sem taka þátt og eru til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum.

Staðirnir sem urðu fyrir valinu fyrir sýningar Bjarka Bragasonar eru Höfn í Hornafirði og Kópavogur. Viðfangsefni sýninganna tengjast báðum þessum stöðum nánum böndum, annars vegar rannsóknum hans á Breiðamerkurjökli og hins vegar garði ömmu hans og afa við Kópavogsbraut í Kópavogi. Fyrri sýningin er haldin í samstarfi við Svavarssafn á Höfn í Hornafirði og vonir standa til að sýningin í Kópavogi geti orðið seinna á árinu. Einnig er unnið að því að gefa út bók á næstu misserum sem tengist efni sýninganna.

Bjarki Bragason er fæddur í Reykjavík 1983. Hann lærði myndlist við Red Cross Nordic United World College í Noregi, Listaháskóla Íslands, Universität der Künste í Berlín og lauk framhaldsnámi við CalArts í Los Angeles. Árið 2008 hlaut Bjarki styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur sem Listasafn Íslands veitir og síðar Lovelace Scholarship frá CalArts til framhaldsnáms auk þess sem hann fékk fyrstu verðlaun Listasjóðs Dungals. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar alþjóðlega. Verk hans eru í eigu stofnana og einkasafna bæði á Íslandi og erlendis.

Svavarssafn er lifandi og framsækið listasafn á Höfn í Hornafirði. Í safninu fer fram fjölbreytt sýningarstarfsemi, en sérstök áhersla er lögð á tengsl við heimahagana. Sveitarfélagið Hornafjörður er víðfeðmt svæði sem einkennist af stórbrotnu landslagi, náttúru og birtu sem eiga vart sinn líka. Margir íslenskir listamenn hafa sótt innblástur og freistað þess að fanga sjónarspil birtunnar undir jökli. Á Svavarssafni gefst tækifæri til að upplifa umhverfið í listrænu samhengi. Safnið var stofnað til heiðurs Svavari Guðnasyni listmálara (1909-1988). Safnkosturinn byggir á rausnarlegri gjöf frá Ástu Eiríksdóttur, ekkju málarans, og í dag á safnið rúmlega 500 verk eftir Svavar og fleiri hornfirska listamenn. Að jafnaði eru settar upp þrjár sýningar á ári sem tengja gjarnan vinnu samtímalistamanna við arfleifð Svavars en einnig er verkum gesta teflt fram með verkum úr safneign. Safnvörður í Svavarssafni er Auður Mikaelsdóttir. 

Listasafn ASÍ var stofnað árið 1961 og fagnar sextíu ára afmæli 17. Júní n.k.. Iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára lagði grundvöllinn að listasafninu með því að gefa Alþýðusambandi Íslands málverkasafn sitt – um 147 myndir – eftir marga af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listasafn ASÍ hefur alla tíð starfað með þessi fræðslusjónarmið frumkvöðulsins að leiðarljósi og hefur m.a. sérhæft sig í myndlistarsýningum sem settar eru upp á vinnustöðum og stofnunum víða um land. Verkefni safnsins hafa verið fjölbreytt í gegnum tíðina og safneignin hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess fyrir tæpum sextíu árum og geymir nú um 4200 verk. www.listasafnasi.is