Rannsókn um líðan ungs fólks

5.9.2019

Fyrirtækið Rannsóknir og Greining stendur fyrir árlegum rannsóknum um hag, líðan og vímuefnaneyslu ungs fólks á landinu öllu. Sveitarfélagið Hornafjörður er þátttakandi í þessum rannsóknum og kaupir þær skýrslur sem gerðar eru í skólum sveitarfélagsins. 

Annað hvert ár eru stórar rannsóknir hjá ungmennum í 8.-10. bekk sem heita Hagir og líðan ungs fólks og fjalla um lýðheilsu ungs fólks á Höfn og annað hvert ár er einungis könnuð vímuefnaneysla. Í yngri bekkjunum þ.e. 5.-7. bekk er stór skýrsla á tveggja ára fresti sem heitir Hagir og líðan barna.

Ungt fólk rannsóknarröðin nær yfir öll börn og ungmenni á Íslandi í 5.-10. bekkjum grunnskóla og eru um 4000 þátttakendur á ári hverju.

Rannsóknirnar eru framkvæmdar með spurningalistum er hafa að geyma spurningar um fjölskylduaðstæður, stuðning foreldra og jafningja, skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, neyslu vímuefna, árangur í námi, félagslegar aðstæður og fleira.

Niðurstöður rannsóknanna eru nýttar í tvennum tilgangi: annars vegar fyrir skrif og birtingar vísindagreina í erlendum ritrýndum tímaritum og hins vegar sem verkfæri fyrir fagaðila sem starfa á vettvangi með börnum og unglingum í sveitarfélögum landsins til stefnumótunar í forvarnavinnu.

Sú vinna sem fram hefur farið á á vettvangi á Íslandi frá árinu 1997 hefur skilað sér í umtalsverðri minnkun á neyslu áfengis og vímuefna meðal ungs fólks. Þetta sýna rannsóknirnar glögglega.

Mynd 1. sýnir rafsígarettu notkun.

Í ár 2019 fengum við tvær skýrslur – vímuefnaneyslu ungmenna og Hagir og líðan barna. Úr báðum skýrslum eru niðurstöðurnar okkur í hag ef þær eru bornar saman við landið í heild. Jafnframt hefur neysla áfengis og annarra vímuefna minnkað til muna ef skýrslan í ár er borin saman við fyrri skýrslur frá Höfn. Má það meðal annars þakka aukinni samveru foreldra og barna, foreldrar þekkja betur til vina barna sinna og foreldra þeirra en áður, foreldrar vita oftast hvar börn þeirra eru og útivistartíminn er betur virtur. Fylgni þessara þátta hefur hækkað á milli ára sem sýnir okkur það að samvera foreldra og barna hefur sterkt forvarnargildi.

IthrottaidkunMynd 2. sýnir aukna íþróttaiðkun barna á Höfn

Íþróttaiðkun barna fjórum sinnum í viku eða oftar er mun hærri hér en á landsvísu, einnig er hlutfall nemenda sem stunda tónlistarnám hærra hér en á landinu í heild. Önnur þátttaka í félags- eða tómstundastörfum er mun lægri í 5. og 6. bekk en í 7. bekk er þátttakan hér mun hærri en á landsvísu. Skjátími barna á dag við að horfa á sjónvarp eru að meðaltali um 1 klst. en tölvuleikirnir eru að meðaltali um 3 klst. hjá drengjum en stelpurnar spila minna tölvuleiki en netnotkun þeirra á samfélagsmiðlum eru frá 1 klst. upp í 3 klst. á dag. Þess ber að geta að gefinn hefur verið út viðmiðunartími um skjánotkun og þar er miðað við 120 mínútur á dag fyrir börn í 5.-7. bekk. Lestur bóka annarra en skólabóka er að meðaltali hálf til 1 klst. á dag og sami tími fer í að lesa texta á netinu. Líðan barnanna í skólanum er upp til hópa góð og samkvæmt svörun þeirra eiga þau flest góða vini, annað heyrir til undantekningar.

Við getum alltaf á okkur blómum bætt eða gert gott betra.
Foreldrar eru mikilvægasta fólkið í lífi barna sinna. Jákvæð samvera barna og foreldra ýtir undir sterkari tengsl, góð samskipti og ánægjulegar minningar og það er ekki síður mikilvægt þegar komið er á unglingsaldur. Þá skiptir máli að foreldrar styðji enn við og taki virkan þátt í skólastarfi, íþróttaiðkun og tómstundastarfi barna sinna og þekki vini þeirra.