Þjónustusamningur um rekstur heilbrigðisþjónustu á Hornafirði undirritaður

1.11.2016

Síðastliðinn föstudag var undirritaður nýr samningur um rekstur heilbrigðisþjónustu á Hornafirði en samningurinn sem starfað er eftir í dag rennur út um áramót.

 Það hefur verið óvíst um framhald samnings eftir að sameining heilbrigðisstofnana varð raunin haustið 2014. Hornfirðingar hafa borið ábyrgð á rekstrinum síðastliðin 20 ár með mjög góðum árangri, það hefur orðið mikil samþætting í heimaþjónustu ásamt því að mikið og gott samstarf hefur átt sér stað í félag-, heilbrigðis- og fræðslumálum sem meðal annars má merkja með undirritun samnings við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag á föstudaginn.

Nýr samningur er mjög sambærilegur þeim sem hefur verið starfað eftir frá árinu 2012. Það náðist í gegn að fjölga um eitt sjúkrarými og hefur stofnunin þá endurheimt það sjúkrarými sem var tekið af í kjölfar hruns. Síðustu ár hefur nýting sjúkrarýma verið frá 130% upp í 200% sem sýnir hversu mikil þörfin er. Samningurinn er tvískiptur að þessu sinni, sveitarfélagið gerist aðili að samningum sem nýlega voru undirritaðir við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila. Sá samningur gildir frá 1. janúar 2016 og felur í sér hækkun á daggjöldum vegna hjúkrunarrýma, hækkun á húsnæðisgjaldi og samið var um yfirtöku ríkis á lífeyrisskuldbindingum starfsmanna. Samhliða gerir sveitarfélagið sér samning við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur heilsugæslu og sjúkrarýma.

Rekstur heilbrigðisstofnunarinnar hefur verið í járnum þetta árið en fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 var samþykkt með 13 milljón króna halla í upphafi árs sem hefur kallað á gríðarlegt aðhald á meðan eftirspurn eftir þjónustu er að aukast sér í lagi vegna aukningar ferðamannastraums á svæðinu. Þessir samningar styrkja því rekstur stofnunarinnar töluvert ásamt því að viðurkenna það góða starf sem hefur unnist í heilbrigðismálum í sveitarfélaginu.

Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri HSU Hornafirði