Fundargerðir

Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Hornafjarðar - 237

Haldinn í ráðhúsi,
18.04.2017 og hófst hann kl. 13:00
Fundinn sátu: Páll Róbert Matthíasson Forseti,
Björn Ingi Jónsson aðalmaður,
Sæmundur Helgason 1. varaforseti,
Ásgerður Kristín Gylfadóttir 2. varaforseti,
Kristján Sigurður Guðnason aðalmaður,
Ragnheiður Hrafnkelsdóttir aðalmaður,
Arna Ósk Harðardóttir 2. varamaður,
Bryndís Bjarnarson upplýsinga og gæðastjóri, Ólöf Ingunn Björnsdóttir fjármálastjóri.
Fundargerð ritaði: Ólöf I. Björnsdóttir, fjármálastjóri


Dagskrá: 
Fundargerð
1. 1704001F - Bæjarráð Hornafjarðar - 808
Fundargerð samþykkt með sjö atkvæðum.
Almenn mál
2. 201702032 - Útboð leikskóla Kirkjubraut 47
Björn Ingi fór yfir málið og greindi frá að kostnaðaráætlun er 531.611.745 kr. vegna leiðréttingar á magntölum í utanhússklæðningu.
Niðurstaða í viðræðum við tilboðsgjafa á grunni frávikstilboðs er 576.570.639 kr. sem er 8% yfir kostnaðaráætlun.
Tekist hefur með viðræðum við tilboðsgjafa og skoðun á einstaka verkþáttum að lækka kostnað við verkefnið frá því sem tilboðið hljóðaði upphaflega.
Björn Ingi sagði að verkefnið væri mjög þarft en því miður hafi ekki tekist að ná þverpólitískri sátt um málið. Frá því að samþykkt var að ráðast í endurbætur og viðbyggingu við Leikskólann var starfshópur skipaður með fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkum í bæjarstjórn, fulltrúum starfsfólks, leikskólastjórum og fulltrúum foreldra barna. Verkefni starfshópsins var að þarfagreina og yfirfara teikningar með hönnuði.
Sagði að verkefnið hafi breyst við endurskoðun starfshópsins. Skólinn verður stærri og framkvæmdir við lóð umfangsmeiri en gert var ráð fyrir í upphafi, því nauðsynlegt er að bæta starfsumhverfi starfsfólks og barna.
Einnig benti hann á að málefni fatlaðra sem nú er í leiguhúsnæði, geti nýtt húsnæði Krakkakots sem mun spara sveitarfélaginu umtalsverða fjármuni því ekki þarf að kosta miklu til, til að gera það húsnæði fullnægjandi fyrir þá starfsemi.
Sagði að þessi leið væri hagstæðust fyrir sveitarfélagið, því það kostar allt að 300 milljónir að fara í endurbætur á Lönguhólum og rekstur leikskóla í einu húsnæði er hagstæðari.
Einnig myndi nýtt húsnæði fyrir málaflokk fatlaðra kosta allt að 130 milljónir og þá væri sveitarfélagið með tvær leikskólalóðir sem þarfnast endurbóta sem gæti kostað um 100 milljónir.
Lagði til að bæjarstjórn samþykki að ganga til samninga við Karlsbrekku ehf.
Ásgerður tók til máls. Sagði margt í máli bæjarstjóra rétt þó áherslur séu ólíkar. Lagði fram eftirfarandi bókun:
"Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins leggjast gegn því að farið verði í viðbyggingu við leikskólann Lönguhóla að Kirkjubraut 47 eins og lagt er upp með í því útboði sem liggur fyrir hér í dag. Upphaflegt kostnaðarmat á þessum framkvæmdum var í mars 2016 290 milljónir en kostnaðaráætlun í verkið er 531.611.745 kr. Tilboðsupphæð sem lagt er til að gengið sé að er 576.571 þúsund eða 108% af kostnaðaráætlun, mismunurinn tæpar 45 milljónir en voru 69 milljónir í frávikstilboði (113% af kostnaðaráætlun) sem starfsmenn og tilbjóðandi hafa unnið með. Hér hefur tilboðsgjafi lækkað sig um 20 milljónir og hefur malbikun bílastæða verið tekin úr tilboði og flutt þ.a.l. til sveitarfélagsins en þar um ræðir rúmar 4 milljónir. Við framsóknarmenn teljum farsælla að sveitarfélagið einbeiti sér að sameiningu leikskólanna en kanni frekar möguleika á byggingu nýs leikskóla á nýjum stað þegar aðstæður á byggingarmarkaði í sveitarfélaginu eru hagstæðari."
Ásgerður óskaði jafnframt eftir nánari skýringum á áætluðum kostnaðartölum í ljósi þess að miklar breytingar hafi orðið á áætlunum frá upphafi. Sagði hún það vilja framsóknarmanna að bæta húsnæði og lóð leikskólanna en að þeirra mati er það ekki skynsamlegt á þessum tíma þar sem miklar framkæmdir eigi sér stað í sveitarfélaginu. Sagðist hún telja farsælla að gefa nýjum leiskólastjóra og starfsfólki hans tækifæri til að móta stefnu nýs leikskóla og vinna að sameiningunni áður en framkvæmdir hefjast. Ásgerður óskaði skýringa vegna orða bæjarfulltrúans Ragnheiðar Hrafnkelsdóttur á síðasta bæjarstjórnarfundi 7. apríl sl. þar sem vísað er í vilja meirihluta íbúa. Óskaði hún eftir upplýsingum um með hvaða hætti skoðun íbúa hafi verið könnuð í leikskólamálunum og að þau gögn verði lögð fyrir bæjarstjórn.
Ragnheiður tók til máls og greindi frá könnun Félagsvísindastofnunar Íslands sem gerð var meðal foreldra leikskólabarna og endurskipulagning leikskólamála byggði á.
Björn Ingi tók til máls og harmaði að ekki væri pólitísk sátt um málið. Sagði að 4 milljónir vegna malbikunar væri endurlagning á núverandi bílastæði sem þarfnanðist ekki yfirlagningar að svo stöddu.
Ásgerður tók til máls. Þakkaði upplýsingar frá Ragnheiði og greindi frá að hún hefði talið fleiri kannanir liggja að baki ákvörðuninni sem ekki hafi verið gerðar opinberar.
Forseti bar tillöguna upp til atkvæða.
Samþykkt með fjórum atkvæðum. Þrír greiddu atkvæði gegn tillögunni, Arna Ósk Harðardóttir, Ásgerður K. Gylfadóttir og Kristján S. Guðnason.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:35 

Til baka Prenta