Ábyrgð húseigenda

Ábyrgð eigenda mannvirkis

Eigandi ber ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið eftir kröfum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Eigandi skal hafa virkt innra eftirlit með því að þeir aðilar sem hann ræður til að hanna, byggja og reka mannvirkið fari eftir ákvæðum laga og reglugerða. Eigandi ber einnig ábyrgð á að fram fari lögboðið eftirlit með byggingu mannvirkisins.

Frágangur lóða

Lóðarhafa er skylt að ganga snyrtilega frá lóð sinni með gróðri eða á annan hátt í samræmi við samþykkta uppdrætti. Á lóðum bygginga skal hafa opið svæði sem hvetur til útiveru, göngu, dvalar og leikja. Ekki má planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4,0 m. Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa.

Lýsing á lóðum skal vera þannig að hún valdi hvorki óþarfa ljósmengun, nágrönnum óþægindum né trufli umferð utan lóðar.

Hæð girðinga á lóðum skal vera í samræmi við skipulagsskilmála. Afla skal byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar séu undanþegnar byggingarleyfi skv. f-lið 1. mgr. 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar 112/2012 m.s.b. Girðing eða skjólveggur á mörkum lóða er alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggs og skal samþykkis leitað áður en hafist er handa við smíði girðingar eða skjólveggs.

Ábendingar

Ábendingar vegna óleyfisframkvæmda er hægt að senda í gegnum Íbúagátt Sveitarfélagsins Hornafjarðar, eða á netfang byggingarfulltrúa . Vilji viðkomandi senda nafnlausa ábendingu er hægt að gera það bréflega á heimilisfang ráðhússins: Bæjarskrifstofur Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Hafnarbraut 27, 780 Höfn.