Hljóðfæranám

Hljóðfæranám byggist að miklu leyti á reglubundinni þjálfun og er því að mestu heimanám. Án markvissra æfinga verður árangur rýr.

Hlóðfæri sem kennt er á eru:

Píanó, hljómborð, harmónika, klarínett, þverflauta, saxófónn, trompet, horn, baritone, básúna, gítar, bassi og trommur.

Tónskólinn á töluvert af hljóðfærum sem eru lánuð út til nemenda í 3 ár þeim að kostnaðarlausu, eftir það er innheimt leiga.

Forskólanám

Forskóli tónskólans er skyldunám 7  ára barna í Grunnskóla Hornafjarðar. Nemendur í 2. bekk fá tónlistarnám og kemur það til viðbótar tónmenntakennslu grunnskólans. Kennslan fer fram á skólatíma í húsnæði grunnskólans. Ekki þarf að greiða fyrir tónlistarnámið og er það tónskólinn sem hefur umsjón með kennslunni. Markmið forskólanámsins er að búa nemendur sem best undir hljóðfæranám.

Nemendur koma fram á tónleikum og öðrum uppákomum hjá skólanum.
Áhersla er lögð á gott samstarf milli skólans og heimilanna. Ætlast er til að nemendur æfi sig samviskusamlega heima því það er undirstaða farsæls tónlistarnáms. Foreldrar þurfa ekki að kunna á blokkflautu, en mikilvægt er að hvetja börnin  áfram og sýna námi þeirra áhuga.  

Tónfræðanám

Þegar nemendur hafa lokið einu til þremur árum í námi á sitt hljóðfæri, eða í 6. bekk, fá þau einn tíma á viku í tónfræði. Kennsla fer fram í  5 – 12 manna hópum og er kennt í 1 klst. í senn. Í tímum fá nemendur m.a. þjálfun í nótnaritun, tónheyrn, taktþjálfun, tónlistarsögu, hlustun og greiningu. Nemendur taka próf í lok námstímans. Ætlast er til að allir nemendur skólans stundi nám í tónfræði sem er mikilvægur þáttur samhliða hljóðfæranáminu og styrkir nemandann almennt. Nemandi hefur ekki að fullu lokið áfangaprófi á hljóðfærið sitt nema að hafa einnig lokið samsvarandi prófi í tónfræðagreinum.

Samspil

Samspil er hluti þess þjálfunar að læra á hljóðfæri. Í gangi eru margir samspilshópar sem ýmist eru með fastann tíma allt skólaárið, t.d. lúðrasveit, eða í stuttum áföngum, ýmsar popp hljómsveitir og samleikur í smærri hópum.

Einnig fá nemendur æfingu með undirleik eða eru sjálfir að æfa undirleik með öðrum.