Saga Sveitarfélagsins Hornafjarðar

Höfn tilheyrði Nesjahreppi þar til kauptúnið varð sérstakt hreppsfélag 1946 með liðlega 300 íbúa. Það fékk kaupstaðarréttindi 31. desember 1988. Árið 1994 sameinaðist Hafnarkauptún, Nesjahreppi og Mýrahreppi úr varð Hornafjarðarbær. Árið 1998 sameinaðist Hornafjarðarbær Hofshreppi, Bæjarhreppi og Borgarhafnarhreppi, þá voru öll sveitarfélögin í sýslunni sameinuð í eitt, Sveitarfélagið Hornafjörð.

Árið 1880 tóku verslunarskip að hafa viðkomu á Hornafirði en saga búsetu á Höfn hófst sumarið 1897 þegar Otto Tulinius kaupmaður og Valgerður Friðriksdóttir eiginkona hans fluttust þangað búferlum frá Papósi í Lóni. Þar með lagðist búseta á Papóskaupstað af en Höfn varð verslunarstaður og jafnframt eini þéttbýlisstaður Austur-Skaftafellinga.

Leidarhofdi

Fyrst í stað óx íbúafjöldinn hægt enda buðust fá önnur atvinnutækifæri en stopul vinna við upp- og útskipun og slátrun. Á vetrarvertíðinni 1908 hélt vélvæðingin innreið sína á Höfn þegar þangað komu til úthalds þrír vélbátar frá Eskifirði. Um 1920 hljóp mikill vöxtur í útgerðina og Hornafjörður varð einn helsti útgerðarstaður austfirskra vélbáta. Utan vetrarvertíða gekk lífið sinn vanagang. Aðkomufólkið hvarf á braut og Hafnarbúar sinntu búsmala sínum og ræktunarlöndum og reru út á fjörð að veiða sér silung og lúru til matar.

Veturinn 1919-1920 var stofnað kaupfélag í sýslunni, Kaupfélag Austur-Skaftfellinga (KASK). Það varð með tímanum langöflugasti atvinnurekandinn á Höfn í verslun, fiskvinnslu og á fleiri sviðum. Upp úr 1990 hnignaði veldi félagsins og hafa aðrir aðilar að mestu tekið við hlutverki þess.

Vigfus

Eftir seinni heimsstyrjöld tóku Austfirðingar að róa á önnur mið en smám saman lifnaði yfir útgerð heimamanna. Kom þar margt til, ekki síst rekstur frystihúss á vegum kaupfélagsins, hafnarbætur og tilkoma netaveiða. Á sjöunda áratugnum efldist sjávarútvegurinn enn frekar þegar humarveiðar hófust af miklum krafti og síðan þá hefur Höfn verið meðal helstu útgerðarstaða landsins. Bolfiskur hefur löngum verið uppistaða aflans en hlutur humars, síldar og loðnu hefur einnig verið stór undanfarna áratugi.

Innsiglingin um Hornafjarðarós hefur ávallt verið viðsjárverð og þar hafa orðið mannskaðaslys en á undanförnum árum hefur innsiglingin verið bætt með byggingu brimvarnargarða.

Sterk staða sjávarútvegsins eftir miðja öldina varð öðru fremur til að treysta grundvöll atvinnulífsins á Höfn. Yfirleitt var næga launavinnu að hafa og fólk þurfti ekki lengur að treysta á smábúskap og veiði. Þegar best lét vann fjöldi aðkomufólks við útveginn og í byggingarstörfum. Uppgangurinn var hvað mestur á áttunda áratugnum en þá fjölgaði um tæplega 500 manns í kauptúninu. Síðan hægði á vextinum og nú búa á Höfn um 1800 manns.

Undanfarna áratugi hefur verið vöxtur í ferðaþjónustu í sýslunni og árlega koma tugþúsundir manna í Skaftafell og að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Aðrar náttúruperlur, svo sem Lónsöræfi, Skálafellsjökull og nágrenni hans, Ingólfshöfði og Öræfajökull, draga til sín fjölda fólks.

Byggt á heimildum Arnþórs Gunnarssonar frá desember 2002