Pokastöðin Höfn

Fyrsta Pokastöðin á Íslandi var stofnuð á Höfn í Hornafirði á vordögum 2016. Hugmyndin kemur frá verkefnisstjóra verkefnisins á Höfn Guðrúnu Ásdísi Sturlaugsdóttur. Guðrún hafði gengið með hugmyndina í kollinum eftir að hafa “rannsakað” mjög óformlega afhverju fólk var að nota plastpoka.

Pokastodin

Eftir að hafa skoðað hvaða ástæður liggja að baki því að fólk kaupi plastpoka sagði hún; "bæði ég sjálf og mín fjölskylda ásamt þeim sem svöruðu mér þegar ég spurði höfðu nánast alltaf sama svar á reiðum höndum “ég gleymdi pokanum heima” og jafnvel “ég gleymdi pokanum úti í bíl”. Svo það eitt að hafa gleymt honum úti í bíl var nóg til þess að fólk keypti fremur poka á kassanum. Margir töluðu líka um að þeir þyrftu hvort sem er poka í ruslið. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fólk telji sig þurfa plastpoka við kassann en oftast var það þó bara svo einfalt að það hafði gleymt honum heima og margir ekki komnir með það í rútínuna að taka taupokann alltaf með sér. “Við eigum öll fullt af taupokum heima” sagði ég sjálfri mér, afhverju söfnum við þeim ekki bara saman í búðinni og skilum þeim þar, þá ættu alltaf að vera til pokar. Búa til hringrás taupoka í samfélaginu. Við myndum hittast reglulega og sauma til að fylla á körfuna, ásamt því að kalla eftir pokum og minna fólk á að skila pokum sem það fær lánaða. Allir pokar er unnir úr gömlum bolum eða efnum sem fólk í samfélaginu gefur í verkefnið."  

Pokastodin-2

Guðrún lét þessa hugsun sína verða að veruleika og kalla saman fólk til að koma með efni og mæta í Vöruhúsið til þess að sníða og sauma taupoka úr bæði bolum og öðrum efnisafgöngum sem féllu til á heimilum. 

Nú er stór hópur sem mætir reglulega í Vöruhúsið saumar og sníðir taupoka og virðist aldrei vera nóg af pokum í umferð. Skólabörn hafa einnig tekið sig til og saumað og litað á poka. 

Sveitarfélagið Hornafjörður og Samband Sunnlennskra sveitarfélaga SASS og umhverfisráðherra hafa stutt verkefnið með einum eða öðrum hætti. 

Pokarnir liggja frammi við inngang inn í Nettó. Fólk er hvatt til að nýta sér pokana og skila þeim að notkun lokinni. 
Pokastodin-1