Byggingarleyfi

Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir

Sækja þarf um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa áður en byrjað er að framkvæma eftirfarandi:

  • að grafa grunn fyrir mannvirki
  • reisa, rifa eða flytja mannvirki
  • breyta mannvirki, burðarkerfi þess eða lagnakerfum
  • breyta notkun mannvirkis

Minniháttar framkvæmdir geta þó verið undanþegnar byggingarleyfi, eða verið einungis tilkynningarskyldar sbr. 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 m.s.b.

Með breytingum á byggingarreglugerð árið 2018 hefur grein 2.4.5. fallið brott og því er ekki lengur heimild til að veita leyfi til einstakra þátta framkvæmdar (þ.m.t. graftrarleyfi).

Gildandi byggingarreglugerð með breytingum er hægt að skoða hér.  Komi í ljós ósamræmi milli upplýsinga á þessari síðu og í byggingarreglugerð, eru upplýsingar í byggingarreglugerð réttar.

Umsóknarkerfi

Húseigendur, lóðarhafar eða hönnunarstjóri í umboði þeirra geta sótt um byggingarleyfi í gegnum Íbúagátt Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Umsókninni skulu fylgja samþykki meðeiganda, aðaluppdrættir, tilkynning um hönnunarstjóra og skráningartafla á EXCEL formi. Kynningarmyndband fyrir umsóknarkerfi er hægt að skoða hér að neðan:

https://www.youtube.com/watch?v=r_pKdTrs0ng

Einfölduð mynd af ferli byggingarleyfisumsókna er hægt að skoða hér.

Skilyrði fyrir útgáfu

Umsókn um byggingarleyfi er hvoru tveggja umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi. Þegar fyrri hluti umsóknarinnar um byggingaráform er samþykktur er tekin fyrir síðari hluti hennar að afgreiða sjálft byggingarleyfið. Ef aðaluppdrættir ásamt byggingarlýsingu, hönnunarstjóri og skipulag uppfylla ákvæði 11. gr. mannvirkjalaga 160/2010, meðeigendur hafa gefið samþykki sitt, og önnur viðeigandi gögn hafa verið lögð fram eru byggingaráform samþykkt og umsækjanda sent tilkynningarbréf um samþykki á byggingaráformum. Því næst er byggingarleyfishluti umsóknarinnar yfirfarin og ef atriði sbr. 13. gr. mannvirkjalaga 160/2010 eru uppfyllt er byggingarleyfi samþykkt og umsækjanda tilkynnt niðurstaðan. 

Gátlisti byggingarleyfis

Eftir útgáfu byggingarleyfis er umsækjanda heimilt að hefja framkvæmdir til samræmis við samþykkta uppdrætti. 

Gjaldskrá byggingarfulltrúa

Við útgáfu byggingarleyfis lagð eru gjöld vegna byggingagjalda, gatnagerðagjalda, tengigjalda lagnakerfis og annarra gjalda eftir atvikum. Hafa viðeigandi gjöld ekki verið greið innan 30 daga, fellur byggingarleyfi sjálfkrafa úr gildi. Gjaldskrár er hægt að skoða á vefsíðu Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Samningur eiganda og byggingarstjóra

Samningur milli byggingarstjóra og eiganda skal m.a. fjalla um hlutverk og starfssvið byggingarstjóra með tilvísun til laga um mannvirki og  byggingareglugerðar nr. 112/2012.

Leiðbeiningar Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar fyrir samninga er hægt að skoða hér.

Áður en farið er í framkvæmdir

Hefur fengist leyfi til framkvæmdar hafa skal samband við verkefnisstjóra Umhverfis- og Skipulagssviðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar vegna mælingar og útsetningar fyrir húsið. Viðeigandi séruppdrættir og tilheyrandi greinargerðir skulu vera yfirfarin og árituð af byggingarfulltrúa áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst.

Byggingar- og niðurrifsúrgangur

Áður en byggingarleyfisskyldar framkvæmdir hefjast skal eigandi skila til byggingarfulltrúa áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs þar sem fram koma upplýsingar um skipulagningu, skráningu, flokkun, endurnýtingu og förgun. Til þess er æskilegt að nota eyðublað gefið út af Húsnæðis og Mannvirkjastofnun og Umhverfisstofnun.

Slíka áætlun skal gera vegna eftirfarandi framkvæmda:

  •  Nýbygginga, viðbygginga eða breytinga á mannvirki þar sem að brúttó flatarmál gólfflatar þess hluta sem verkið tekur til er 300 m² eða meira.
  •  Umfangsmikilla viðgerða útveggja, svala, þaks o.þ.h. þegar flötur verks er 100 m² eða stærri.
  •  Niðurrifs á byggingum eða hluta bygginga þar sem brúttó gólfflötur verks er 100 m² að flatarmáli eða meir.
  •  Framkvæmda þar sem búast má við að úrgangur verði 10 tonn eða meira.

Leiðbeiningar Húsnæðis og Mannvirkjastofnunar um meðhöndlun úrgangs er hægt að skoða á hér . Frekari upplýsingar um flokkun og áætlun um meðhöndlun úrgangs er hægt að skoða hér .

Heimildir byggingarfulltrúa

Ef byggingarleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, ekki sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brýtur í bága við skipulag, mannvirki er tekið í notkun án þess að öryggisúttekt hafi farið fram eða ef mannvirki er tekið til annarra nota en heimilt er samkvæmt útgefnu byggingarleyfi getur byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir eða notkun tafarlaust og fyrirskipað lokun mannvirkisins. Sama gildir ef ekki er að öðru leyti fylgt ákvæðum laga um mannvirki eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina.

Ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brýtur í bága við skipulag getur byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Reynist öryggi mannvirkis ábótavant við öryggis- eða lokaúttekt þess eða það telst skaðlegt heilsu skal byggingarfulltrúi fyrirskipa lokun þess og koma í veg fyrir að mannvirkið verði tekið í notkun fyrr en úr hefur verið bætt. Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða byggingarfulltrúa.

Byggingarfulltrúa er heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja menn til þeirra verka sem þau skulu hlutast til um samkvæmt lögum um mannvirki eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim, eða láta af ólögmætu atferli.

Kæruheimild

Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga um mannvirki 160/2010 sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 130/2011.

Þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta geta kært stjórnvaldsákvarðanir eða ætlað brot á þátttökurétti almennings til úrskurðarnefndarinnar.

Kæra til nefndarinnar skal vera skrifleg og undirrituð. Þar skal koma fram hver er kærandi, hvaða ákvörðun eða ætlað brot á þátttökurétti almennings er kært kröfur kæranda og rök fyrir kæru.

Kærufrestur er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Það á þó ekki við ef mælt er fyrir um annan kærufrest í þeim lögum sem kæranleg ákvörðun eða ætlað brot á þátttökurétti almennings byggist á. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Kæra til úrskurðarnefndarinnar frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi.