Úttektir

„Eigandi ber ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga um mannvirki og þessarar reglugerðar.“ (1. mgr. 2.7.1. gr. byggingarreglugerðar 112/2012.

Áfangaúttektir

Áfangaúttektir skulu gerðar á einstökum verkþáttum mannvirkjagerðar þar sem eftirlitsaðili kannar hvort viðkomandi þáttur sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög um mannvirki og ákvæði byggingarreglugerðar. Byggingarstjóri mannvirkis skal fyrir hönd eiganda sjá til þess að áfangaúttektir fari fram og óskar úttektar eftirlitsaðila með minnst sólarhrings fyrirvara. Eftirtaldir verkþættir mannvirkjagerðar skulu teknir út með áfangaúttektum:

 1. Jarðvegsgrunnur, áður en byrjað er á mótauppslætti eða fyllingu í slíkan grunn, þ.m.t. plötupróf.

 2. Uppsláttur og bending undirstöðuveggja.

 3. Lagnir í grunni, þ.m.t. rör fyrir heimtaugar rafmagns- og fjarskiptakerfa áður en þær eru huldar.

 4. Frágangur raka- og vindvarnarlaga.

 5. Grunnur, áður en botnplata er steypt.

 6. Uppsláttur og bending allra steyptra byggingarhluta.

 7. Uppbygging veggjagrinda burðarveggja, afstífing þeirra og festingar áður en klætt er.

 8. Uppbygging léttra gólfa og festingar þeirra áður en klætt er.

 9. Uppbygging þaka, loftun, afstífing þeirra og festingar áður en klætt er.

 10. Frágangur klæðningar þaka, bæði úr timbri og öðrum efnum, þ.m.t. festingar, negling þakjárns og annar tilsvarandi frágangur.

 11. Frágangur ystu klæðningar veggja, þ.m.t. festingar og loftun.

 12. Uppbygging og frágangur eldvarnarveggja.

 13. Uppbygging og frágangur niðurhengdra lofta og frágangur vegna eldvarna.

 14. Frágangur, gerð og þykkt varmaeinangrunar.

 15. Frágangur vegna hljóðeinangrunar.

 16. Neysluvatns-, hitavatns-, hita-, gas-, gufu-, þrýsti- og kælikerfi ásamt einangrun þeirra, þrýstiprófun og frágangur vegna eldvarna.

 17. Frárennslislagnir innanhúss ásamt eldvörnum og hljóðeinangrun þeirra.

 18. Frárennslis-, regnvatns- og þerrikerfi utanhúss.

 19. Stokkalagnir og íhlutar þeirra fyrir loftræsi- og lofthitunarkerfi ásamt varma- og eldvarnareinangrun og allur tilheyrandi frágangur vegna eldvarna og hljóðeinangrunar.

 20. Tæki og búnaður loftræsi- og lofthitunarkerfa.

 21. Þættir er varða eldvarnir sem verða huldir þannig að úttekt þeirra sé ekki framkvæmanleg við öryggis- eða lokaúttekt.

Öryggisúttekt

Þegar mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum. Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur laga um mannvirki og byggingarreglugerða og leyfisveitandi hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt. Heimilt er að gera samtímis öryggis- og lokaúttekt. Byggingarstjóri eða eigandi sem óskar eftir öryggisúttekt skal tilgreina ástand mannvirkis, þ.e. hve langt verk er komið. Sé óskað öryggisúttektar vegna hluta mannvirkis skal tilgreint við hvaða hluta er átt og skal þá ástandi þess hluta lýst og jafnframt gerð almennt grein fyrir ástandi annarra hluta mannvirkisins. Þar sem við á að mati leyfisveitanda ber byggingarstjóra að afhenda eftirfarandi gögn við öryggisúttekt:

 1. Staðfestingu Mannvirkjastofnunar á því að rafvirkjameistari hafi tilkynnt um að raforkuvirki sé tilbúið til úttektar.

 2. Yfirlýsingu rafvirkjameistara um að brunaviðvörunarkerfi sé fullbúið og þjónustusamningur vegna rekstrar þess hafi verið gerður. Einnig að útljós, neyðarlýsing, reykræsing o.þ.h. séu frágengin og skrifleg staðfesting iðnmeistara liggi fyrir um að virkni búnaðarins hafi verið prófuð.

 3. Yfirlýsingu pípulagningameistara um að vatnsúðakerfi eða sambærilegt kerfi sé fullbúið og þjónustusamningur vegna rekstrar þess hafi verið gerður. Jafnframt skal fylgja staðfesting brunahönnuðar á því að gerðar hafi verið ráðstafanir sem tryggja fullnægjandi öryggi.

 4. Yfirlýsingu Vinnueftirlits ríkisins um að lyfta og búnaður hennar hafi verið prófaður með fullnægjandi hætti og þjónustusamningur vegna reksturs hennar liggi fyrir. Sé lyftan ekki uppsett við öryggisúttekt skal afhent yfirlýsing eiganda um að hann ábyrgist að leyfisveitanda sé tilkynnt um uppsetningu lyftu áður hún er sett upp og hann muni afhenda leyfisveitanda framangreinda yfirlýsingu þegar lyftan hefur verið sett upp.

 5. Yfirlýsingu pípulagningameistara um að hitakerfi sé frágengið þannig að fyrirsjáanlegt sé að fullnægjandi upphitun verði í þeim hluta mannvirkisins sem tekinn er í notkun.

 6. Yfirlýsingu blikksmíða-, pípulagninga- og rafvirkjameistara um að loftræsikerfi sé frágengið þannig að afköst þess og loftgæði séu fullnægjandi fyrir þá starfsemi sem fyrirhuguð er í mannvirkinu.

 7. Vottorð um að aðalskoðun leiksvæðis og leikvallatækja hafi farið fram, þ.e. í þeim tilvikum sem byggingarleyfi nær til leiksvæðis og það er skoðunarskylt á grundvelli reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Lokaúttekt

Þegar mannvirkjagerð er lokið og innan þriggja ára frá því að mannvirki var tekið í notkun og öryggisúttekt fór fram skal gera lokaúttekt á því. Byggingarstjóri skal fyrir hönd eiganda mannvirkis óska eftir lokaúttekt. Einnig getur eigandi mannvirkis óskað eftir að lokaúttekt sé gerð. Byggingarstjóri skal tilkynna iðnmeisturum og hönnuðum mannvirkis um lokaúttekt og gefa þeim kost á að vera viðstaddir. Við lokaúttekt skal gerð úttekt á því hvort mannvirki uppfylli ákvæði laga um mannvirki, reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og hvort byggt hefur verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn.

Við lokaúttekt ber byggingarstjóra að tryggja að samþykktir uppdrættir séu á byggingarstað. Að auki skal byggingarstjóri við lokaúttekt leggja fram eftirtalin gögn:

 1. Staðfestingu Mannvirkjastofnunar um að rafvirkjameistari hafi tilkynnt til hennar að raforkuvirki mannvirkisins sé tilbúið til úttektar.

 2. Yfirlýsingu rafvirkjameistara um að brunaviðvörunarkerfi sé fullbúið og þjónustusamningur vegna rekstrar kerfisins hafi verið gerður.

 3. Yfirlýsingu pípulagningameistara um að vatnsúðakerfi eða sambærilegt kerfi sé fullbúið og þjónustusamningur vegna rekstrar kerfisins hafi verið gerður.

 4. Yfirlýsingu Vinnueftirlits ríkisins um að lyfta og búnaður hennar hafi verið prófaður með fullnægjandi hætti og þjónustusamningur vegna reksturs hennar liggi fyrir.

 5. Yfirlýsingu pípulagningameistara um að hitakerfi hafi verið stillt samkvæmt hönnunarlýsingu og stýritæki séu virk.

 6. Yfirlýsingu blikksmíða-, pípulagninga- og rafvirkjameistara um að loftræsikerfi hafi verið stillt, samvirkni tækja prófuð og að afköst þeirra séu í samræmi við hönnunargögn. Einnig skulu afhentar niðurstöður loftmagnsmælinga ásamt samanburði við kröfur um loftmagn í hönnunargögnum.

 7. Yfirlýsingu Vinnueftirlits ríkisins um að gaslagnir uppfylli reglur og staðla sem til þeirra eru gerðar, ásamt staðfestingu pípulagnameistara og/eða stálvirkjameistara á að þéttleiki þeirra, virkni og þrýstiþol hafi verið prófað og sé í samræmi við hönnunargögn.

 8. Yfirlýsingu Vinnueftirlits ríkisins um að olíu-, gufu-, loft- og aðrar þrýstilagnir uppfylli reglur sem til þeirra eru gerðar ásamt staðfestingu pípulagnameistara og/eða stálvirkjameistara á að þéttleiki þeirra, virkni og þrýstiþol hafi verið prófað og sé í samræmi við hönnunargögn.

 9. Handbók hússins sem leyfisveitandi varðveitir, sbr. 16. hluta byggingarreglugerðar 112/2010.

 10. Uppfært yfirlit um innra eftirlit byggingarstjóra.

Hægt er að sækja um úttekt í gegnum Íbúagátt. Nánari upplýsingar veitir byggingarfulltrúi í síma 470 8000 bartek@hornafjordur.is.