Fundargerðir

Fundargerðir

Til baka Prenta
Atvinnu- og menningarmálanefnd - 67

Haldinn í ráðhúsi,
25.09.2024 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Sigrún Sigurgeirsdóttir formaður,
Hjördís Edda Olgeirsdóttir aðalmaður,
Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir aðalmaður,
Steindór Sigurjónsson aðalmaður,
Gunnar Ásgeirsson aðalmaður,
Selma Ýr Ívarsdóttir Fulltrúi ungmennaráðs,
Árdís Erna Halldórsdóttir atvinnu og ferðamál, Sigurjón Andrésson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði: Sigurjón Andrésson, Bæjarstjóri


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 202003090 - Vatnajökulsþjóðgarður - fundargerðir stjórnar og svæðisráðs
Lagt fram til kynningar.

Vatnajökulsþjóðgarður,ársreikningur2023.pdf
StjórnVatnajökulsþjóðgarðs-200.pdf
Svæðisráðsuðursvæðis-131.pdf
Svæðisráðsuðursvæðis-132.pdf
2. 202302057 - Staða á atvinnumarkaði í Sveitarfélaginu Hornafirði 2023
Í ágúst voru 36 einstaklingar í Sveitarfélaginu Hornafirði skráðir í atvinnuleit. Þar af töldust fimm aðilar til langtímaatvinnulausra. Ellefu skráðra voru með íslenskt ríkisfang og 25 þeirra með erlent ríkisfang. Í september er fjöldi atvinnulausra sem skráðir eru í sveitarfélaginu kominn niður i 29 manns. Skipting atvinnulausra eftir póstnúmerum er eftirfarandi, 780: 14, 781: 12 785: 3.


Lagt fram til kynningar.
3. 202409069 - Fjöldi gistirýma í sveitarfélaginu
Í sveitarfélaginu gista á hverri einustu nóttu mun fleiri gestir en allir íbúar eru samtals en íbúar eru að nálgast 2700. Þá eru ótaldir þeir fjölmörgu gestir sem aka til og frá sveitarfélaginu eða gista á eigin vegum á tjaldsvæðum og í ferðavögnum.

Það er mikið ánægjuefni hversu margt ferðafólk sækir sveitarfélagið heim en það er líka morgunljóst að slíkur fjöldi eykur álag á innviði sveitarfélagsins og allt öryggisviðbragð. Atvinnu- og menningarmálanefnd tekur undir með Bæjarstjórn Hornafjarðar og öðrum sem hafa rætt mikið um öryggisviðbragðið í sveitarfélaginu á síðustu misserum, að stjórnvöld beiti sér og tryggi að innviðir í sveitarfélaginu haldist í hendur við þann fjölda fólks sem er á svæðinu hverju sinni.
4. 202409068 - Myndlistarnámskeið Steinunnar Einarsdóttur í Sveitarfélaginu Hornafirði
Steinunn Einarsdóttir hélt 10 námskeið á Höfn og 1 í Öræfum. Frá 1997-2002 var hún árlega með námskeið, en svo varð lengra á milli. Árið 2008 hélt hún tvö námskeið, fyrir byrjendur og lengra komna, og endurtók það árið 2014.
Það voru 47 einstaklingar sem tóku þátt í námskeiðunum á Höfn og 6 sem tóku þátt á námskeiðinu í Öræfum, samtals voru því 53 á þessum námskeiðum.
Það voru samtals 84 þátttakendur á námskeiðunum því sumir af þessum 53 sem mættu sóttu fleiri en eitt námskeið. Þar má nefna að Steinunn Óladóttir og Elísabet Þorsteinsdóttir tóku alltaf þátt þegar námskeið voru í boði, Ólafía Gísladóttir og Elínborg Pálsdóttir voru líka á flestum námskeiðanna, en einnig má sjá nöfn sem síðar hafa orðið þekkt í listalífinu.


Nefndin þakkar formanni nefndarinnar fyrir að vekja máls á málinu. Það skiptir máli að íbúar sveitarfélagsins hafi aðgengi að námskeiðum til að efla samfélagsanda og sköpunargáfu.
5. 202409070 - Fjárhagsáætlun 2025
Lagt fram til kynningar.
6. 202409071 - Menningarmiðstöð
Undir þessum lið var fjallað um ýmis mál sem tengjast MMH. Ráðningaferli nýs forstöðumanns er í gangi og fljótlega verður auglýst eftir nýjum safnstjóra Svavarssafns. Málefni Gömlubúðar voru einnig rædd en þar mun sveitarfélagið að öllum líkindum halda upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk opinni áfram ásamt því að gera ýmsum safnmunum skil á efri hæðinni.

Atvinnu- og menningarmálanefnd fagnar þeim áformum sem nú eru uppi með Gömlubúð og hlakkar til að kynnast nýjum samstarfsaðilum í MMH og Svavarssafni þegar frá ráðningum hefur gengið.

Um leið vill nefndin þakka þeim Eyrúnu Helgu Ævarsdóttur og Snæbirni Brynjarssyni fyrir einkar ánægjulegt samstarf síðustu ár og þeirra góða framlag til sveitarfélagsins. Við óskum þeim góðs gengis á nýjum vettvangi.
7. 202409003 - Helsingjar í Austur Skaftafellssýslu
Umhverfisstofnun boðaði hagsmunaaðila til fundar vegna veiðistjórnunar á helsingja þann 16. ágúst sl. Austur-Grænlands-stofn helsingja, sem íslenski stofninn tilheyrir, hefur rýrnað mjög á allra síðustu árum. Bæði varð stofninn fyrir verulegum afföllum vegna bráðrar fuglaflensu en einnig hefur viðkomubrestur verið viðvarandi síðustu tvö sumur. Stofninn var metinn um 57.000 fuglar í mars 2024 og er því kominn nærri neðri viðmiðunarmörkum AEWA samningsins sem miðast við 54.000 fugla að vori. Taldar eru 24% líkur á að stofninn hafi nú þegar farið undir fyrrgreind mörk. Í júní á þessu ári sendi vinnuhópur EGMP (e. European Goose Management Platform), undir AEWA, skilaboð um að þær aðildaþjóðir sem bera ábyrgð á helsingjastofninum á varptíma, farleiðum og vetrarstöðvum (Ísland og Bretland) komist að samkomulagi um hvernig megi takmarka veiðar. Umhverfisstofnun sendi tillögur til ráðherra um aðgerðir sem felast í styttu veiðitímabili helsingja ásamt sölubanni.

Brynja Dögg Ingólfsdóttir mætir á fundinn og kynnir samtöl sem átt hafa sér stað vegna helsingja í Austur-Skaftafellssýslu og áætlaðs tjóns vegna þeirra fyrir bændur.


Nefndin þakkar Brynju Dögg fyrir sitt innlegg.

Atvinnu- og menningarmálanefnd telur mikilvægt að lagt sé mat á áhrif helsingjastofnsins í Hornafirði á beitilönd í sveitarfélaginu. Nefndin hvetur Búnaðarsambands Austur Skaftafellssýslu að beita sér fyrir að slíkt mat sé unnið. Slíkt mat ætti að liggja til grundvallar hjá Umhverfisstofnun þegar ákvarðanir um veiðistjórnun stofnsins verða teknar.

Samþykkt samhljóða.
Tillögur að veiðistjórnun helsingja 2024.pdf
8. 202409078 - Atvinnu- og rannsóknasjóður.Staða sjóðsins og styrkverkefna.
Atvinnu- og rannsóknasjóður Sveitarfélagsins Hornafjarðar hefur verið starfræktur frá árinu 2009, en þá var hann stofnaður með sölu sveitarfélagsins á Nesjaskóla. Úthlutað er úr sjóðnum árlega, og frá stofnun hefur hann fjármagnað mörg verkefni í heimabyggð, bæði stór og smá.

Atvinnu- og menningarmálanefnd leggur áherslu á mikilvægi sjóðsins og að fjármögnun hans verði metin.

Samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:00 

Til baka Prenta