Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Litlabrú 2, Nýheimar

Stofnunin heitir Menningarmiðstöð Hornafjarðar og starfsvæðið hennar er Sveitarfélagið Hornafjörður. Stofnunin varð til árið 1990 með sameiningu nokkurra safna. Heiti hennar var upphaflega Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu en breyttist árið 2001 í Menningarmiðstöð Hornafjarðar.

Innan Menningarmiðstöðvarinnar eru sex safnaeiningar ásamt rannsóknarsviði sem starfar þvert á einingarnar.

Safneiningarnar eru byggða-, sjóminja-, náttúrugripa-, lista-, bóka og héraðsskjalasafn. Byggðasafnsvörður fer með umsjón yfir náttúrugripa- og sjóminjasafninu.

Menningarmiðstöðin leggur mesta áherslu á miðlun og fræðslu menningararfs Hornafjarðar, skrásetningu hans og varðveislu til framtíðar. Einnig verður æ ríkari áhersla lögð á rannsóknarstarf og ekki síst miðlun þess starfs til almennings sem og þátttöku barna og unglinga á þeim vettvangi.

Sýningar á vegum safnanna eru mikilvægur þáttur í safnastarfinu, og hér leggjum við áherslu á sérstöðu Hornafjarðar og því samfélagi sem er og var. Í dag er opin sýning í Skreiðarskemmunni og verbúð í Miklagarði, og stefnt er á opnum heildstæðara safns þar sem menning undir jöklinum verður í brennidepli.

Innan Menningarmiðstöðvarinnar eru sjö stöðugildi, fjögur þeirra eru 100% stöður og þrjú 50%.

Menningarmiðstöð Hornafjarðar starfar eftir gildandi lögum um starfsemi safna, safnalögum, lögum um skil á menningarverðmætum og þjóðminjalögum. Einnig starfar stofnunin eftir siðareglum og viðmiðum sem höfuðsöfn setja um starfsemi safna, varðveislu og meðferð muna.

Hlutverk Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar er að halda uppi öflugu menningarlífi í sveitarfélaginu fyrir alla aldurshópa. Einnig að styðja við frjáls félagasamtök sem vinna að menningarmálum.

Önnur meginmarkmið Menningarmiðstöðvar Hornafjarðarsafna er að hlúa að því öfluga og fjölbreytta menningarstarfi sem til staðar er í sveitarfélaginu og viðurkenna menningarmál sem eitt af meginverkefnum sveitarfélagsins. Efla vitund fólks um sérkenni og menningararf héraðsins og halda þeim sérkennum við með fræðslu, kynningu og beinum að gerðum.

Menningarmiðstöð Hornafjarðar stendur einnig fyrir barnastarfi á sumrin, þar sem boðið er upp á styttri ferðir um svæðið þar sem krakkar fá tækifæri til þess að kynnast nærumhverfi sínu á nýjan hátt. Einnig hefur verið lestrarátak á bókasafninu sem kallast sumarlestur þar sem krakkar eru hvattir til þess að lesa yfir sumarmánuðina, svo eru veitt hvatningarverðlaun að hausti. Einnig er á bókasafninu barnahorn fyrir yngstu kynslóðina, og hvetjum við foreldra eindregið til þess að koma með börnunum á bókasafnið.

 

Starfandi einingar innan Menningarmiðstöðvarinnar eru: