Skipulag fyrir námur

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar samþykkti þann 11. maí 2017 að auglýsa lýsingu að deiliskipulagi fyrir námu ofan Einholtsvatna, Skógey, Djúpá og í Hornafjarðarfljótum skv. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Náma ofan Einholtsvatna

Efnistökusvæðið er staðsett fyrir neðan Lambleiksstaði á grónum áreyrum Hólmsár. Áin hefur ekki runnið um þennan farveg um langt skeið og svæðið er grasi gróið en jarðvegþykkt ekki mikil. Gerð deiliskipulagsins er þáttur í því að hrinda í framkvæmd vegabótum á Hringvegi um Hornafjörð. Deiliskipulagslýsing .

Náma í Skógey

Efnistökusvæðið er í Melsendahrauni á Skógeyjarsvæðinu. Um er að ræða þétta jökulsorfna þóleita klöpp eða hvalbak sem rís í 14 metra hæð upp úr söndunum í Skógey og vísar brattur hamraveggur til suðurs en aflíðandi halli er til norðurs.

Gert er ráð fyrir að efnistökusvæðið verði framtíðar efnisnáma. Endanlegt útlit námunnar verður hannað í samráði við Umhverfisstofnun og er frágangur hluti af útboðsverki. Deiliskipulagslýsing.

Náma í Djúpá

Efnistökusvæðið er staðsett á árbökkum og áreyrum Djúpár. Stefnt er að að efnisflutningar fari um áreyrar Djúpár. Deiliskipulagslýsing

Náma í Hornafjarðarfljótum

Náman er í farvegi Hornarfjarðarfljóta fyrir neðan brú. Þar er fljótið lygnt og breiðir það úr sér á milli Skógeyjar og Mýra. Varnargarðar ganga niður frá Hringveginum sem verja Skógey og Mýrar fyrir ágangi fljótsins. Í farveginum er mikið magn sands sem fljótið hefur borið fram. Deiliskipulagslýsing.  

Gögn vegna ofangreindra lýsinga verða til sýnis í ráðhúsi sveitarfélagsins Hafnarbraut 27 á opnunartíma frá og með 18. Maí 2017 til og með 6. júní 2017.

Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefin kostur á að gera athugasemdir við lýsinguna. Frestur til að skila athugasemd er til 6. júní 2017 og skal skilað skriflega á bæjarskrifstofur Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Hafnarbraut 27, 780 Höfn eða á netfangið skipulag@hornafjordur.is

Gunnlaugur Róbertsson, skipulagsstjóri