Ferli barnaverndarmáls

Starfsmenn barnaverndar vinna samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Unnið er að því að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem sýna áhættuhegðun fái nauðsynlega aðstoð.

Ferli barnaverndarmáls er á þann veg að þegar tilkynning berst til barnaverndar um vanrækslu, ofbeldi eða áhættuhegðun barns taka starfsmenn ákvörðun um hvort hefja skuli könnun málsins. Forráðarmenn eru upplýstir um að tilkynning hafi borist. Tilkynnendur eru einnig upplýstir um móttöku tilkynningar auk þess sem veittar eru almennar upplýsingar um málsmeðferð.

Við vinnslu barnaverndarmála er megin áhersla lögð á aðstæður og líðan barna, að talað sé við börnin og að þau fái að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri. Áhersla er jafnframt lögð á samvinnu við forráðarmenn og samstarf er haft við aðrar fagstéttir sem koma að málefnum barna þegar það á við. Fyllsta trúnaðar er gætt við vinnslu barnaverndarmála.