Loftlagsverkefni

Landvernd leitaði til Sambands íslenskra sveitarfélaga um val á sveitarfélagi til að þróa verkefnið. Nokkur sveitarfélög komu til greina, en samtökunum leist best á að leita til Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Þar koma til nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi eru ófá sveitarfélög á landinu þar sem íbúar finna jafnvel fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, samanber hörfun jökla og áhrif þess á heimahaga fólks og mögulega á sjávarútveg, landbúnað og ferðaþjónustu á svæðinu.

Í öðru lagi leitast Landvernd við að vinna að verkefnum sínum jafnt á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni, eins og önnur verkefni samtakanna sýna (http://www.landvernd.is/).

Í þriðja lagi hafa ýmsar jákvæðar breytingar í umhverfismálum sveitarfélagsins átt sér stað eða eru í farvatninu.

Verkefnið snýr að því að setja fram markmið og aðgerðaáætlun um samdrátt í útlosun. Einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki geta haft áhrif á útlosun gróðurhúsaloftegunda.

Aðgerðaráætlun verkefnisins.

Sveitarfélagið  samþykkti umhverfisstefnu, er að taka upp markvissari úrgangsflokkun og jafnvel hitaveitu, auk þess sem almenn uppbygging í tengslum við ferðaþjónustu hlýtur að líta mjög til umhverfisvænni samgangna.

Sveitarfélagið gæti því orðið fyrirmyndarsamfélag í loftslagsmálum á Íslandi sem hið fyrsta sem þátt tekur í verkefninu.

Samband íslenskra sveitarfélaga er einnig samstarfsaðili að verkefninu og leggur til sérfræðiþekkingu. Verkefnið er styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Mynd frá íbúafundi með Landvernd.