-
Tölvuteiknuð mynd af nýju og glæsilegu Hagahverfi
Hagahverfi
Nýtt og Spennandi Íbúðahverfi á Höfn
Hagahverfi er næsta stóra skref í uppbyggingu á Höfn – glænýtt og fjölbreytt íbúðahverfi rétt norðan við tjaldsvæðið og sunnan við þá lóð þar sem verslunarmiðstöð rís. Hér mætast vandað skipulag, fallegt umhverfi og góð tenging við gönguleiðir og þjónustu. Á svæðinu verður byggt heildstætt og lifandi hverfi fyrir fólk á öllum aldri.
Neðst á myndinni má sjá framkvæmdir við nýja verslunarmiðstöð – á svæðinu fyrir miðri mynd þar sem græn engi eru í dag mun nýtt hverfi byggjast upp
Svæðið er um 13 ha, bjart og skjólgott, og í göngufæri frá lykilþjónustu eins og verslun, heilsugæslu, grunn- og leikskóla og kirkju – auk íbúða fyrir eldri borgara. Í Hagahverfi er gert ráð fyrir einbýlishúsum, par- og raðhúsum, sem og fjölbýlishúsum á 2–3 hæðum með kjallara. Alls munu rísa um 200 nýjar íbúðir – fjölbreytt framboð sem hentar ólíkum hópum og fjölskyldugerðum.
Deiliskipulagið setur skýran ramma um byggingarreiti og húsagerðir og tryggir vandaðan frágang frá fyrsta degi. Markmiðið er að styrkja íbúðabyggð á Höfn, styðja við sjálfbæra þróun og byggja upp nýtt hverfi sem þjónar framtíðinni. Hagahverfi er spennandi kostur fyrir fjölskyldur, ungt fólk, eldri íbúa – alla sem vilja byggja sér heimili í fallegu og vel skipulögðu umhverfi á Höfn.
Úthlutunarferli hafið
Þann 18. nóvember 2025 samþykkti bæjarráð að hefja ferli við úthlutun lóða í Hagahverfi. Starfsmönnum umhverfis- og skipulagssviðs hefur verið falið að auglýsa lausar lóðir og gera skilmála og upplýsingar um þær aðgengilegar.
Samþykkt hefur verið að tímamörk framkvæmda í 7. grein reglna um úthlutun lóða skulu miðast við dagsetningu byggingarhæfis lóða en ekki dagsetningu lóðarúthlutunar. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdum við uppbyggingu innviða á svæðinu ljúki á næstu 12 til 18 mánuðum. Lóðir verða þá byggingarhæfar, sem þýðir að komnar eru akfærar götur að lóðum og að fyrir liggi tenging við neysluvatns- og fráveitukerfi að lóðarmörkum.
Í fyrsta áfanga úthlutunar verða úthlutaðar eftirfarandi lóðir:
- Kletthagi 1-5 er fjölbýlishúsalóð með 3 byggingarreitum fyrir 30 íbúðir staðsett næst Hafnarbraut fyrir tveggja til þriggja hæða hús með heimild fyrir kjallara
- Kletthagi 14-20 og Kletthagi 22-28 eru lóðir skilgreindar fyrir 4-íbúða raðhús á tveimur hæðum með heimild fyrir kjallara.
- Lambhagi 9-11, Lambhagi 13-15 og Lambhagi 17-19 eru parhúsalóðir fyrir byggingar á tveimur hæðum með heimild fyrir kjallara.
- Lambhagi 8, Lambhagi 10, Lambhagi 12 og Lambhagi 14 eru einbýlishúsalóðir fyrir 1 hæðar með heimild fyrir kjallara. Bílskúr er valkvæður, sé hann byggður skal hann vera hluti af íbúðarhúsi/sambyggður íbúðarhúsi og standa innan sama byggingarreits og íbúðarhús.
Umsóknarform
Sækja má um lausar lóðir á þar til gerðu eyðublaði á Íbúagátt sveitarfélagsins - Sækja um lóð hér
Í umsókn skal koma fram hvort umsækjandi sækir um lóð til eigin búsetu eða í öðrum tilgangi. Í umsókn skal einnig koma fram fyrirhuguð tímaáætlun umsækjanda m.a. um upphaf framkvæmda, fokheldi, töku húss í notkun og lóðarfrágang. Ennfremur skulu umsækjendur leggja fram í umsókn upplýsingar um fjármögnun byggingarframkvæmda og þar sem við á, staðfestingu fjármálastofnunar um greiðsluhæfi og möguleika á lánafyrirgreiðslu vegna fyrirhugaðrar húsbyggingar. Vegna umfangsmikilla framkvæmda er sveitarfélaginu heimilt að óska eftir ítarlegri upplýsingum frá umsækjanda. Umsækjandi skal vera í skilum með opinber gjöld til Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Staðfestingargjald
Við úthlutun lóðar skal lóðarleigjandi greiða óafturkræft staðfestingargjald. Gjaldið gengur annars upp í byggingargjöld. Upphæð staðfestingargjalds: 500.000 kr. fyrir hverja íbúðareiningu. Greitt staðfestingargjald telst vera viðurkenning lóðarhafa á því að hann hafi kynnt sér ítarlega alla skilmála er varða lóðina og samþykkt að hlíta þeim.
Hagnýtar upplýsingar og skilmálar
Eftirfarandi gögn og skilmálar eru aðgengileg:
- Hagahverfi deiliskipulag
- Lóðarblöð
- Hæðarblöð
- Jarðrannsóknarskýrsla
- Reglur um úthlutun lóða
- Skilmálar fyrir grundun húsa og lóða
- Plan og langsnið
Fyrirspurnir
Fyrirspurnir varðandi umsóknarferlið má senda til verkefnastjóra umhverfis- og skipulagsmála, Guðrúnar Ögðu, á netfangið: gudruna@hornafjordur.is
Dæmi um útfærslur húsa:




