Stóri plokkdagurinn er á sunnudaginn!

26.4.2023

Stóri plokkdagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt sunnudaginn 30. apríl og mun Sveitarfélagið Hornafjörður að sjálfsögðu taka þátt. 

Á stóra plokkdeginum sameinast fólk í að ganga um umhverfi sitt og tína upp plast, pappa og annað rusl sem fallið hefur til og liggur á víðavangi eftir vindasaman vetur. Dagurinn markar upphaf plokk tímabilsins og er hugsaður sem vitundavakning og hvatning til okkar allra um að huga að umhverfi okkar og neyslu.

Nokkuð ber á rusli í þéttbýli sveitarfélagsins og áríðandi að koma því sem fyrst úr umhverfinu áður en það hverfur á haf út eða grefst í náttúruna. Í þeim tilgangi verður sorpílátum komið upp á nokkrum stöðum á Höfn og í Nesjahverfi undir plokkaðan úrgang. Staðsetningu ílátanna má finna á kortum neðst í þessari frétt en ílátin verða aðgengileg frá miðvikudeginum 26. apríl fram að 2. maí.

Þeir sem vilja láta gott af sér leiða með því að plokka geta fengið lánaðar plokktangir og glæra ruslapoka á bókasafni sveitarfélagsins í Nýheimum á meðan birgðir endast. Plokkarar þurfa því aðeins að útvega sér hanska!

Almennt er litið á plokkaðan úrgang sem blandaðan úrgang sem fer í urðun. Sé úrgangur hins vegar tiltölulega hreinn er hægt að skila honum á flokkunarbarinn við söfnunarstöðina til endurvinnslu.

Plokkarar eru hvattir til að nota kortasjánna plokkari.is en þar er hægt að merkja inn svæði sem búið er að plokka. Svæðin eyðast svo sjálfkrafa að viku liðinni. Það verður áhugavert að sjá hve mörg svæði verður búið að plokka þann 2. maí.

Þá má einnig vekja athygli á heimasíðu Stóra plokkdagsins, plokk.is, en þar má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um plokk. Þá má jafnframt nefna Facebook síðu Plokk á Íslandi sem er hópur áhugafólks um útivist og að halda umhverfinu ruslfríu. Hópurinn telur tæplega átta þúsund manns sem er kominn á fullt við að plokka í sínu nærumhverfi.

Plokkarar geta fengið frítt í sund á Höfn með því að taka mynd af sér með þeim úrgangi sem þeir hafa tínt og tagga Hornafjörður Náttúrulega á Instagram eða Facebook (@HornafjordurNatturulega). Sýna þarf myndina ásamt taggi í sundlaug Hafnar til að fá frítt í sund og verður í boði til og með 2. maí 2023.

Margar hendur vinna létt verk og því skiptir framtak hvers og eins heilmiklu máli fyrir umhverfi og samfélag. 

Staðsetningar sorpíláta undir plokkaðan úrgang eru hér að neðan:

Plokk-ilat-a-Hofn_1682516488593Plokkilat-i-Nesjahverfi_1682516523100