Áramótapistill HSU Hornafirði 2017

19.1.2017

Gleðilegt ár kæru Hornfirðingar, og kærar þakkir fyrir árið sem liðið er.

Góðir samningar

Árið 2016 hefur verið viðburðarríkt að vanda á heilbrigðisstofnuninni. Má einnig segja að þetta hafi verið mikið óvissuár. Nú um áramótin rann út þjónustusamningur sem gerður var árið 2012 um rekstur heilbrigðisþjónustu sem hefur verið á ábyrgð sveitarfélagsins frá árinu 1996. Það var lögð mikil áhersla á að endurnýja samninginn og hófst vinna við það strax í upphafi árs 2016. Lítið þokaðist framan af en rétt fyrir kosningar rofaði til og samningagerð hófst og kláraðist á mjög skömmum tíma. Nýr samningur tekur því gildi nú um áramótin. Mikill sigur náðist með fjölgun sjúkrarýma um eitt en nýting sjúkrarýma hefur verið vel yfir 100% síðustu tvö ár. Á sama tíma voru undirritaðir rammasamningar um öldrunarþjónustu milli Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Sjúkratrygginga Íslands sem var tímamótasamningur en fram til þessa hafa ekki verið í gildi samningar um öldrunarþjónustu við langflest hjúkrunarheimili landsins. Heilbrigðisstofnunin hefur verið aðili að samtökunum og þar með aðili að þessum samningnum. Það er því breytt fyrirkomulag er varðar samninga um heilbrigðisþjónustu á Hornafirði þar sem starfað er eftir tveimur samningum, rammasamning um rekstur öldrunarþjónustu annars vegar og samning um rekstur heilsugæslu og sjúkrarýma hins vegar. Undirritun samnings um öldrunarþjónustu gerði það að verkum að rekstur ársins 2016 var tryggður fjárhagslega en fjárhagsáætlun ársins hafði gert ráð fyrir 13 milljóna króna hallarekstri.

Sjúkraflutningar aukast

Starfsemi stofnunarinnar er í föstum skorðum. Fjölgun ferðamanna hefur töluverð áhrif á starfsemina þá helst er varðar álag bæði á heilsugæslu og sjúkraflutninga. Fjöldi sjúkraflutninga hefur aukist stöðugt síðustu ár en á árinu 2016 voru 231 sjúkraflutningar miðað við 181 á árinu 2015 sem er 28% aukning milli ára. Það voru gerðar breytingar á árinu í starfsmannamálum sjúkraflutninga með fjölgun sjúkraflutningamanna um fjóra sem eflir getu stofnunarinnar til að bregðast við fjölgun verkefna. Mikill erill var einnig á heilsugæslunni í sumar þá sérstaklega frá júlí og út september, þessu fylgir mikið álag á starfsfólk en fram til þessa hefur verið dregið úr mönnun yfir sumartímann. Fjölgun ferðamanna hefur einnig þau áhrif að erfiðara er að fá starfsfólk í afleysingar yfir sumartímann þar sem eftirspurn eftir starfsfólki er gríðarleg á svæðinu. Það eru margar áskoranir sem þarf að takast á við en einhvern veginn hefur tekist að þjónusta íbúa heimilisins og sveitarfélagsins vel miðað við þær þjónustukannanir sem hafa verið gerðar.

Öldrunarþjónustan

Öldrunarþjónustan er stór þáttur í starfsemi stofnunarinnar. Þar hafa verið töluverðar sveiflur en ekki hefur verið fullnýting á hjúkrunarrýmum á árinu sem skýrist af því að óvenju margir íbúar hafa fallið frá eða 13 í heildina miðað við 8 á árinu 2015. Þetta eru miklar sveiflur fyrir heimilið enda búa að jafnaði eingöngu 24 einstaklingar á heimilinu. Starfsemi hjúkrunar- og dvalarheimilisins gengur almennt mjög vel. Þar er haldið uppi öflugu félagsstarfi, mönnun hefur verið góð og hlutfall fagmenntaðra starfsmanna gott. Þjónustukannanir hafa sýnt að íbúar eru ánægðir með starfsemina og umönnun.

Stækkun Skjólgarðs

Annað er þó að segja um aðbúnað en eins og er vel þekkt er ávallt barist fyrir nýrri byggingu svo hægt verði að bjóða öllum íbúum upp á einbýli. Nú undir lok árs tók bæjarráð ákvörðun um að láta  vinna frumteikningar af viðbygginu við Skjólgarð þannig að umsókn í Framkvæmdasjóðs aldraðra verði unnin á sem bestan hátt en umsóknafrestur hefur verið í byrjun febrúar ár hvert. Fyrstu drög voru send til arkitektanna til endurskoðunar í desember og er vonast eftir nýjum teikningum á næstu dögum. Mun þá verða send inn umsókn þó svo að fjármagn sé ekki tryggt af hendi ríkisins. Fjármögnun hjúkrunarheimila hefur skipts þannig að 45% hluti hefur verið fjármagnaður af ríkinu, 40% af Framkvæmdasjóði aldraðar og 15% af sveitarfélaginu.

Hjólað óháð aldri

Á árinu fékk Skjólgarður gefins frábært þríhjól sem 4x4 klúbbur Hornfjarðar safnaði fyrir. Á sama tíma voru gefin hjól á fleiri hjúkrunarheimili á landinu og er þetta hluti af stærra verkefni „Hjólað óháð aldri“. Hjólið kom til okkar á vordögum og var kílómetramælirinn kominn yfir 200 km í haust enda mikið hjólað í sumar. Mig langar að vekja athygli á því að öllum er frjálst að gerast „hjólari“ gegn því að fá smá kynningu og prufu á hjólið. Hjólið er með rafmagnsmótor sem gerir það að verkum að létt er að hjóla á því þó tveir farþegar sitji framan á. Ef þið hafið áhuga á að gerast „hjólarar“ þá má hafa samband við starfsfólk Skjólgarðs. Hjólið má nota fyrir íbúa Skjólgarðs og einnig aðra íbúa sveitarfélagsins sem hafa áhuga á að komast í hjólatúr.

Gott starfsfólk

Starfsmenn stofnunarinnar er það dýrmætasta sem við búum yfir. Hér hefur ríkt stöðugleiki í starfsmannamálum þó ávallt sé einhver hreyfing. Það var gerð starfsmannakönnun á árinu sem sýndi aukna starfsánægju frá því sem verið hefur sem er mjög ánægjulegt. Mig langar að nota tækifærið og þakka starfsfólki fyrir frábært samstarf á árinu sem er að líða með von um að árið 2017 verði ánægjulegt og árangursríkt.

Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri HSU Hornafirði