Breytingar í úrgangsmálum í vændum

31.3.2022

Þann 1. janúar 2023 taka gildi lagabreytingar til innleiðingar hringrásarhagkerfisins og munu þær hafa töluverð áhrif á úrgangsmál um land allt.

Innleiðing slíkra breytinga krefst samstarfs og samtals, ekki aðeins meðal sveitarfélaga eða stofnana, heldur einnig meðal íbúa og atvinnulífsins. Þó ekki sé einsýnt með hvaða hætti þær verði útfærðar er engu að síður mikilvægt að íbúar í Sveitarfélaginu Hornafirði séu vel upplýstir.

Það er skammur tími til stefnu en í dag, fimmtudaginn 24. mars, eru aðeins 283 dagar þar til lagabreytingarnar taka gildi.

Hringrásarhagkerfið verður að veruleika 

Sú hugafarsbreyting hefur orðið á undanförnum árum að líta á rusl sem hráefni í stað úrgangs sem ber að endurnýta og koma í hringrás. Markmið hringrásarhagkerfisins er að mynda lokað efnahagslegt kerfi þar sem hráefni fer í endurvinnslu og sem minnst skili sér til endanlegrar förgunar með urðun eða brennslu.

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki þegar kemur að úrgangsmálum og þurfa þau nú þegar að hefja undirbúning þar sem lagabreytingarnar munu meðal annars hafa áhrif á:

  • Hirðu úrgangs.
  • Skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang.
  • Staðsetningu og merkingu íláta.
  • Innheimtu gjalda af einstaklingum og lögaðilum fyrir meðhöndlun úrgangs.

Að auki mun framleiðendaábyrgð ná yfir fleiri úrgangsflokka og standa undir auknum hluta kostnaðar sem sveitarfélög standa undir í dag en Úrvinnslusjóður vinnur að þeirri úrfærslu.

Samkvæmt nýju lögunum skal nota samræmdar merkingar fyrir a.m.k. úrgangstegundir á mynd.

Sveitarfélagið er að kanna hvaða áhrif þessar lagabreytingar munu hafa á núverandi sorpkerfi og tekur þátt í verkefninu “Samtaka um hringrásarhagkerfi” sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett á fót með aðstoð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Verkefninu er ætlað að renna styrkari stoðum undir innleiðingu hringrásarhagkerfisins hérlendis og eru vonir bundnar við að það gagnist sveitarfélögum við að uppfylla þær kröfur sem lögin gera til þeirra. 

Við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli Sérsöfnun í grenndargáma Sérsöfnun í nærumhverfi íbúa
Pappír og pappi Málmar Spilliefni
Plast Gler  
Lífúrgangur (garðaúrgangur undanskilinn) Textíll  
Blandaður úrgangur    

Þó er lagt upp með að hægt sé að veita undanþágu frá meginreglunni um sérstaka söfnun að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Innheimta skal eftir magni og úrgangstegund frá hverri fasteignaeiningu

Á nýju ári verða einnig miklar breytingar á innheimtu fyrir söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs með innleiðingu Borgað Þegar Hent Er kerfisins eða BÞHE. Inntak þess er að sá borgi sem mengar og skulu sveitarfélög því innheimta gjald sem m.a. tekur mið af magni og tegund þess úrgangs sem til fellur. Núverandi fyrirkomulag um fast gjald á hverja fasteign mun því aðeins eiga við að hluta.

Þar sem förgun úrgangs með urðun eða brennslu er oft á tíðum ódýrari farvegur en endurvinnsla hefur löggjafinn heimilað sveitarfélögum að færa innheimtu gjalda á milli úrgangsflokka. Þannig mætti hækka gjald fyrir blandaðan úrgang til þess að lækka gjald fyrir endurvinnanlegan úrgang. Með þessum hætti yrði til fjárhagslegur hvati fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að takmarka úrgangsmyndun eftir fremsta megni og flokka vel.

Þessi grein byggir á grein Bryndísar Gunnlaugsdóttur, lögfræðings, og Eygerðar Margrétardóttur, sérfræðings hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem ber heitið „Hringrásarhagkerfið verður að veruleika“ og er aðgengileg á heimasíðu Sambandsins, samband.is.

Stefán Aspar Stefánsson
Verkefnastjóri umhverfismála