Búsetuminjar í Sveitarfélaginu Hornafirði

18.6.2021

Ný heimasíða, busetuminjar.is, var opnuð í dag við hátíðlega athöfn í Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Jafnframt eru þar til sýnis myndaspjöld sem segja frá búsetuminjum í Suðursveit.

Í Sveitarfélaginu Hornafirði eru mikil og merk ummerki um horfna byggð frá liðnum öldum. Ummerkin eru ýmsar tegundir jarðlægra minja, m.a. tóftir bæjarhúsa og annarra mannvirkja tengdum þeim. Þau eru vitnisburður um búsetu og mannlíf á tilteknu svæði frá mismunandi tímum. Minjar margra þessara fornu býla eru langt utan alfararleiðar og vitneskjan um tilurð og umfang þeirra ekki mörgum ljós.

Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Þórbergssetur á Hala í Suðursveit hófu samstarf í apríl 2020 um skráningu þessara fornu býla með ítarlegum hætti. Megin tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að landfræði- og söguleg þekking á búsetuminjum frá liðinni tíð verði varðveitt og gerð kunn almenningi. Að gera sýnilegan merkilegan þátt í sögu forvera Austur-Skaftfellinga, sem margir hverjir bjuggu við sérstakar aðstæður þar sem fjölskyldur flæmdust á milli staða vegna ágangs jökla, jökuláa, jökulhlaupa og annarra náttúruhamfara. Erfiðar aðstæður sem fylgdu í kjölfarið urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði. Þannig gerum við söguna sýnilegri næstu kynslóðum, um leið og staðbundin þekking er skráð og varðveitt. Heimasíðan busetuminjar.is geymir þessar upplýsingar og áformað er að halda áfram skráningu í sveitarfélaginu, næst eru það Mýrarnar en að baki liggur mikil vinna.

Það eru Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason f.h. Þorbergsseturs ásamt Sigríði G. Björgvinsdóttir f.h. Menningarmiðstöðvarinnar sem hafa leitt verkefnið. Einnig hafa komið verkefninu Tim Junge starfsmaður menningarmiðstöðvarinnar, Anna Soffía Ingólfsdóttir, nemi í fornleifafræði starfaði við verkefnið síðasta sumar, Kristinn Heiðar Fjölnisson ljósmyndari og Heiðar Sigurðsson sá uppsetningu á vefsíðunni. Þeir sem hafa frekari upplýsingar varðandi búsetuminjar í sveitarfélaginu geta sent inn upplýsingar á ofangreinda aðila eða á fésbókarsíðuna Fornar tóftir og búsetuminjar í Austur Skaftafellssýslu.