Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrir árið 2022 og 2023-2025 samþykkt í bæjarstjórn.

9.12.2021

Fjárhagsáætlun var lögð fyrir bæjarstjórn í fyrri umræðu þann 11. nóvember og samþykkt í síðari umræðu þann 9. desember

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 eru eftirfarandi:

  •  Rekstrarniðurstaðan jákvæð um 71,2 m.kr. fyrir A og B hluta,
  •  Skuldir og skuldbindingar 2.357 m.kr.,
  •  Veltufé frá rekstri 393,8 m.kr.,
  •  Ný lántaka 250 m.kr.,
  •  Afborganir langtímalána 117,3 m.kr.,
  •  Skuldir og skuldbindingar í hlutfalli af tekjum 73,4%.

Nokkrar breytingar urðu bæði á tekjum og gjöldum í A og B hluta á milli fyrri umræðu og þeirri seinni. Gjaldskrár voru teknar upp á umhverfis- og skipulagssviði þar sem markmiðið var að einfalda þær og uppfæra miðað við raunkostnað. Einnig var tekin ákvörðun um að hækka sorpgjöld um 10% með það að markmiði að málaflokkurinn reki sig í samræmi við lagakröfur. Miklar breytingar eru fyrirhugaðar í sorpmálum í tengslum við innleiðingu laga 1. janúar 2023 í átt að hringrásarhagkerfi þar sem meðal annars er fyrirhugað að íbúar og fyrirtæki greiði fyrir það sem þeir henda sem er í raun réttlátara kerfi.

Fjárfesta á fyrir 500 m.kr. á næsta ári sem er nokkur lækkun frá fyrri árum en inn í þeirri fjárhæð er ekki bygging hjúkrunarheimilis þar sem sveitarfélagið hefur nú þegar greitt tæplega 200 m.kr. inn á þá framkvæmd. Verkefnastaða verktaka hefur verið góð í sveitarfélaginu og því mikilvægt að sveitarfélagið valdi ekki þenslu á þeim markaði. Helstu framkvæmdaverkefni eru hjúkrunarheimilið, fráveituframkvæmdir, líkamsræktarstöð við Sundlaug, endurbætur í Hofgarði, framkvæmdir við Miklagarð og dýpkun á Grynnslum. Á þriggja ára áætlun bætast við endurbætur í Sindrabæ og malbikun. Reksturinn skilar ekki nægu fé til framkvæmda og því er nauðsynlegt að ráðast í lántökur. Sveitarfélagið er í vexti og nokkuð ljóst að við eigum í innviðaskuld, víða er þörf á framkvæmdum en reynt var að forgangsraða í framkvæmdir þar sem styrkir fást á móti s.s. í fráveituframkvæmdum og eða mögleiki er á hagræðingu í rekstri. Hér má skoða gögn sem fylgja fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið hefur nú lokið við gerð stefnumótunar þar sem áhersla hefur verið lögð á innleiðingu Heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna. Nú hefst vinna við að innleiða þau verkefni sem lögð er áhersla á og er hún hafin. Helstu verkefni sem eru í vinnslu og verða unnin á næstu árum:

  • Innleiðing barnvæns samfélags.
  • Halda áfram með frístundaakstur í dreifbýli og bjóða upp á tómstundastyrk fyrir 5 ára börn.
  • Ungbarnadeild leikskólans í Selinu starfar áfram þannig að hægt sé að taka inn börn í kringum 12 mánaða aldur.
  • Halda áfram með heilsueflingu eldri Hornfirðinga í samstarfi við Sporthöllina.
  • Vinna deiliskipulag á nýjum íbúðasvæðum og koma lóðum í úthlutun.
  • Halda áfram göngustígagerð í þéttbýli.
  • Vinna að gönguleiðaverkefnum í dreifbýli tengslum við styrki úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.
  • Bæta upplýsingagjöf til íbúa og starfsmanna.
  • Hringrásarhagkerfið – grasrótarverkefni og í tengslum við sorpútboð.
  • Styrkja nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi með Fablab og Nýheimum Þekkingasetri.
  • Vinna að innleiðingu nýrrar umhverfis- og loftslagsstefnu með atvinnulífinu.
  • Efla mannauð sveitarfélagsins, unnin ný mannauðsstefna og fræðsla efld.

Sveitarfélagið stendur vel þrátt fyrir þrengingar. Fjárhagsstjórn er og hefur verið ábyrg. Skuldastaðan er góð miðað við flest önnur sveitarfélög í landinu. Það er ýmsar áskoranir í rekstrinum nú og og er aukið aðhald.

Við erum bjartsýn á að nýtt ár færi okkur betri tíð með aukinni loðnuveiði og fjölgun ferðamanna. Það er von bæjarstjórnar að atvinnulífið í heild sinni fylgi því eftir með auknum umsvifum og tekjum sem efla þá jafnframt rekstur sveitarfélagsins og leiðir til fjölgunar íbúa.

Ég vil þakka bæjarfulltrúum, stjórnendum og starfsmönnum fyrir gott samstarfi við gerð fjárhagsáætlunar. 

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri