Fréttir af störfum bæjarstjóra

21.8.2020

Á fundum bæjarstjórnar er fjallað um störf bæjarstjóra. Hér má lesa það helsta af bæjarmálunum frá því í byrjun júní.

Barnvænt samfélag – innleiðing barnasáttmála sameinuðu þjóðanna

Sveitarfélagið skrifaði undir samning við félagsmálaráðuneytið og UNICEF um verkefnið „barnvænt sveitarfélag“ og þar með skuldbindur sveitarfélagið sig til að innleiða barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Barnvæn sveitarfélög er verkfærakista og líkan sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, sem hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga út um allan heim frá 1996. Íslenska líkanið byggir jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi. Innleiðingarferlið tekur tvö ár og skiptist í 8 skref, sem sveitarfélagið stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að tveimur árum liðnum, getur sveitarfélag sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi. Viðurkenningin er háð því að starfsfólk UNICEF meti sem svo að innleiðingarferlið hafi verið réttindum barna í sveitarfélaginu til framdráttar og að aðgerðaáætlun verkefnisins hafi verið fylgt eftir. Til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélagið að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að tveimur árum liðnum.

Við erum nú að hefja innleiðingaferlið og samþykkti bæjarráð erindisbréf stýrihóps sem verður myndaður í kringum verkefnið og er næsta skref að skipa stýrihópinn. Í september er fyrirhugað að halda fyrsta námskeiðið sem er upphafsreitur þeirrar vinnu sem hefst í kjölfarið. Verkefninu fylgir góður stuðningur frá starfsfólki UNICEF og félagsmálaráðuneytisins. Hægt er að kynna sér verkefnið á heimasíðu þess: http://barnvaensveitarfelog.is/

Samráðsteymi stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa Covid-19

Í kjölfar þess að út kom skýrsla sem Byggðastofnun vann um efnahagsleg áhrif Covid-19 fór af stað vinna á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með þeim sveitarfélögum sem talið var að kæmu hvað verst út, þar á meðal Sveitarfélagið Hornafjörður. Í þessari vinnu fólst greiningarvinna á fjárhag umræddra sveitarfélaga, greining á viðbrögðum og áhrifum Covid faraldursins ásamt því að sveitarfélögin voru beðin um að senda inn tillögur að verkefnum sem hægt er að vinna í heimabyggð m.a. í tengslum við byggðaáætlun stjórnvalda 2018-2024. Á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var á Hellu í gær með sveitarfélögum á Suðurlandi var tilkynnt að Sveitarfélagið Hornafjörður fær 18 m.kr. framlag úr ríkissjóði til að styðja við atvinnulíf og samfélag vegna þessara tímabundnu aðstæðna. Jafnframt var birt skýrsla um „einkennandi þætti lýðfræðilegrar þróunar og atvinnulífs“ . Unnið verður áfram með samráðshópnum sem í sitja bæjarstjóri, fulltrúi frá SASS, Byggðastofnun og frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Þetta voru ánægjulegar fréttir og vonandi leiðir þessi vinna til þess að störfum muni fjölga hér á næstu misserum m.a. á vegum hins opinbera. Samhliða mun sveitarfélagið óska eftir samvinnu við stofnanir og fyrirtæki um frekari nýsköpun og fjölgun atvinnutækifæra.

 

Hjúkrunarheimili – rekstur og samningar

Á síðasta fundi bæjarstjórnar var tekin ákvörðun um að segja upp samningi um rekstur hjúkrunarheimilisins Skjólgarðs við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Í kjölfarið var sent bréf til SÍ og heilbrigðisráðuneytis þar sem ákvörðunin var tilkynnt ásamt því að óskað var eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða stöðuna. Ekki hefur orðið af fundi en svar barst frá skrifstofu ráðuneytis þess efnis að það hyggst ráðast í greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila og er áformað að þeirri greiningu ljúki 1. nóvember upplýsingar um greininguna má finna hér.

Jafnframt var tilkynnt í fjölmiðlum í gær að Öldrunarheimili Akureyrar verða færð til HSN um næstu áramót en þar hefur reksturinn verið á höndum sveitarfélagsins um árabil. Sveitarfélagið Hornafjörður er samningsbundið SÍ til 1. febrúar.

Stjórnendur og starfsfólk Skjólgarðs hefur unnið hörðum höndum að því að hagræða í rekstrinum m.a. með breytingum á opnunartíma mötuneytis, breyttu skipulagi hvað varðar mönnun á deildum, endurskoða innkaup o.fl. Reksturinn er enn mjög þungur en vonandi skila hagræðingaraðgerðir árangri þegar líða fer á árið.

Íbúar eru orðnir óþreyjufullir að sjá nýtt hjúkrunarheimili rísa. Einhver bið er á að útboð verði auglýst. Hönnun er þó að fullu lokið og er unnið að gerð kostnaðaráætlunar og útboðsgagna. Vonandi skýrast þau mál á næstu dögum og vikum og það styttist í að fyrsta skóflustunga verði tekin. Það er Framkvæmdasýsla ríkisins sem stýrir verkinu.

Vatnajökulsþjóðgarður

Svæðisráð suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið í fríi frá því í júní en stjórn hefur hist í tvígang. Fyrra skiptið var fundað í Hrauneyjum og í seinna skiptið í Ásbyrgi. Þetta var í fyrsta sinn sem stjórn hittist í persónu. Í fundarskipulagi þjóðgarðsins eru 4 fundir á ári þar sem fundað er með svæðisráði hvers svæðis fyrir sig en það eru mikilvægir fundir til að stjórn kynnist betur starfsemi þjóðgarðsins. Mikið hefur verið að gera í sumar, heimsóknir í Skaftafell hafa verið framar væntingum og á Jökulsárlón eftir ansi skrítna tíma í vor. Nú er unnið að því að innleiða atvinnustefnu í starfsemi þjóðgarðsins en auglýst hefur verið eftir umsóknum fyrirtækja sem starfrækja ferðir innan þjóðgarðs á Suðursvæði. Íshellaferðir og jöklagöngur hafa verið vinsælar hjá erlendum ferðamönnum undanfarin ár sem hafa m.a. leitt til þess að minni sveiflur hafa verið í fjölda ferðamanna eftir árstíðum inn á svæðið. Eftirlit eða stýring hefur hins vegar ekki verið til staðar og aðgengi að íshellum verið misgott. Svæðisráð á Suðursvæði hefur unnið að því að móta tillögur, í tengslum við gerð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand, að fyrirkomulagi í kringum íshella- og jöklaferðir. Næsti vetur verður notaður til að meta hvernig þetta fyrirkomulag reynist og það þróað áfram. Þjóðgarðurinn fékk aukið fjármagn til framkvæmda sem hluta af aðgerðum tengt Covid og eru nú í vinnslu framkvæmdir við fráveitu og vatnsveitu í Skaftafelli. Einnig verður malbikað neðra bílastæði austan brúar á Jökulsárlóni. Í vinnslu er forathugun á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins á frekari framkvæmdum á Jökulsárlóni í samræmi við nýsamþykkt deiliskipulag á svæðinu.

Ferðamál – Markaðs og kynningarmál

Það má með sanni segja að ferðamannastraumur til Hornafjarðar hafi braggast töluvert nú í sumar. Um miðjan júní fór ferðamönnum að fjölga sem náði algjöru hámarki í júlí mánuði. Þetta kom töluvert aftan að rekstraraðilum í sveitarfélaginu og var jákvæð innspýting á óvissutímum. Einnig hefur komið töluvert af erlendum ferðamönnum og bókanir litu þokkalega út hjá mörgum rekstraraðilum fyrir haustið. Breytingar á fyrirkomulagi á landamærunum síðastliðinn miðvikudag setja hins vegar strik í reikninginn og ekki síst viðtal við sóttvarnalækni í Kastljósi á miðvikudagskvöld. Veiran ætlar að halda áfram að trufla atvinnulíf og daglegt líf landsmanna og þurfum við að búa okkur undir erfiðan vetur í ferðaþjónustunni. Bæjarráð tók ákvörðun í vor að bæta verulega í það fjármagn sem sett er í markaðssetningu. Jafnframt fengum við inn sumarstarfsmann, Þorkel Óskar Vignisson, sem skilaði mikilvægu framtaki inn í þennan málaflokk. Samið var við auglýsingastofu til að aðstoða við birtingu markaðsefnis ásamt því að aðstoðuðu við gerð auglýsingaefnis. Ákveðið var að notast við vörumerki Ríki Vatnajökuls og þeirra heimasíðu í markaðssetningunni sem kallaði á töluvert mikla vinnu starfamanna sveitarfélagsins við heimasíðuna og samfélagsmiðla. Það má segja að átakið hafi heppnast mjög vel og skilað fjölda ferðamanna til okkar. Stefnt var að því að einblína á erlendan markað frá haustinu en við munum bíða og sjá hvernig málin þróast áður en það verður keyrt af stað. Jafnframt er í undirbúningi að halda málþing um ferða- og atvinnumál á Hornafirði seinna í haust.

Nú þurfa rekstraraðilar í greininni að standa þétt saman og hjálpast að við að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á þessum erfiðu tímum. Getum við sótt á innanlandsmarkað í vetur, getum við búið til spennandi pakkaferðir, getum við gert eitthvað alveg nýtt?

Sumarstarfsmenn og sumarfrí

Sumarið var óvenju líflegt hjá sveitarfélaginu. Ráðnir voru 14 sumarstarfsmenn með hjálp Vinnumálastofnunar ásamt því að það fjölgaði verulega í vinnuskólanum og bæjarvinnunni. Hægt var að vinna upp ýmis verkefni sem erfiðlega gengur að vinna samhliða daglegum störfum starfsmanna s.s. skönnun skjala og teikninga, kortlagning leiksvæða, hugmyndavinna í kringum opin svæði, uppsetning á nýju mannauðskerfi, vinna úr ýmsum tölfræðigögnum, skráning á byggðasafni svo dæmi sé tekið. Við vorum einnig með vinnuhóp í Öræfunum sem vann ýmis verkefni m.a. í samstarfi við Landgræðsluna og Vatnajökulsþjóðgarð. Það má sjá að vel hefur verið hugað að umhverfinu í þéttbýlinu en það má heyra á þeim gestum sem hafa heimsótt sveitarfélagið. Það er gaman og hvetjandi að fá svo öflugan hóp af ungu fólki til starfa og vil ég nota tækifærið hér til að þakka þeim fyrir vel unnin störf í sumar.

 

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri