Fréttir af störfum bæjarstjóra

12.11.2021

Fréttir af störfum bæjarstjóra síðastliðinn mánuð.

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga – málstofur

Í kjölfar hinnar hefðbundnu fjármálaráðstefnu sem haldin var í byrjun október voru skipulagðar 5 málstofur næstu föstudagsmorgna á eftir. Þar voru hin ýmsu erindi flutt sem snúa að sveitastjórnarmálum. Ég var með erindi þann 15. október þar sem ég fór yfir stefnumörkun Sveitarfélagsins Hornafjarðar í fjármálum og helstu áskoranir við fjárhagsáætlunargerð þetta haustið. Þar var einnig rætt um hvernig formfesta megi markmið í fjármálum í sveitastjórnum þannig að allir séu með sömu sýn. Fjármál sveitarfélagsins er stýrt af mikilli ábyrgð, skuldsetning er í jafnvægi, reksturinn skilar jákvæðri niðurstöðu og B hluta fyrirtækin eru sjálfbær. Slíkt er ekki sjálfgefið enda hefur fjármálstjórn verið með ábyrgum hætti þrátt fyrir miklar áskoranir síðustu misseri. Það voru einnig kynnt greiningartól sem hjálpa sveitarfélögum að spá fyrir um rekstur næstu ára að gefnum ákveðnum forsendum, hægt er að leika sér með forsendurnar og nota þær til að gefa hugmynd um hvernig reksturinn geti litið út eftir nokkur ár. Heilt yfir er rekstur sveitarfélaga að þyngjast töluvert á næstu árum og verður jafnvel ekki sjálfbær í fjölmörgum sveitarfélögum innan fárra ára. Það þarf að skoða vel í samstarfi m.a. við ríkið. Samband íslenskra sveitarfélaga er í reglubundnum samskiptum við ríkið um fjármögnun þeirra verkefna sem sveitarfélögum eru falin ásamt því að huga að frekari tekjustofnum.

Heimsókn frá FOSS

Stjórnarmenn og starfsfólk í FOSS stéttarfélagi í almannaþjónustu óskaði eftir fundi með stjórnendum sveitarfélagsins. Það var upplýsandi og gagnlegur fundur. Rætt var um kjaramál á breiðum grundvelli, styttingu vinnuviku og fleira. Stytting vinnuviku er sveitarfélögum mikil áskorun víða og ræddar voru ýmsar leiðir til að vinna að bættu skipulagi til að auðvelda aðlögun að styttri vinnuviku.

Árshátíð Grunnskóla Hornafjarðar

Loksins var hægt að halda árshátíð hjá grunnskólanum en í ár var sett upp leikritið „Konungur ljónanna“. Sýningin var alveg frábær, krakkarnir stóðu sig eins og hetjur og við eigum fullt af hæfileikaríkum krökkum hér í sveitarfélaginu. Hljómsveit á vegum tónskólans og kennara grunnskólans spilaði undir ásamt því að nemendur í tónskólanum spiluðu einnig undir á sviði í einstaka atriðum. Það var greinilega mikill áhugi hjá íbúum sveitarfélagsins en fullt var út úr dyrum. Árshátíðin er alveg frábært tilefni til að færa kennslu í nýjan og fjölbreyttari búning og börnin finna sér ýmis hlutverk á undirbúningstímanum. Ég vil óska grunnskólanum og tónskólanum til hamingju með þessa frábæru sýningu!

Vígsla hitaveitu

Hitaveitan var formlega tekin í notkun þann 18. október. Stjórn RARIK og framkvæmdastjórn kom til Hornafjarðar og var bæjarstjórn boðið í skoðunarferð inn í Hoffell til að skoða mannvirkin. Einnig var boðið í hátíðarmálsverð þar sem verklokum var fagnað. Í máli forstjóra RARIK kom fram að hitaveitan væri stórt og farsælt verkefni sem hefði alla burði til að verða stórt framfaraskref fyrir byggðina á Hornafirði. Eins kom fram að árangur af borun vinnsluhola við Hoffell hafi verið betri en búist var við en nú eru tiltækar fjórar vinnsluholur fyrir hitaveituna. Að jafnaði dugar ein hola fyrir hitaveituna en tvær við mesta álag. Kerfið getur því staðið undir umtalsverðri stækkun byggðar eða fjölgun notenda frá því sem nú er. Í máli ráðuneytisstjóra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Benedikts Árnasonar, kom fram að vegna skorts á iðnaðarmönnum á Hornafirði myndi ráðuneytið veita viðbótartíma til að geta nýtt sér hitaveituna og þurfi íbúar því ekki að vera farnir af niðurgreiðslum 9 mánuðum eftir að þeir tengjast hitaveitunni. RARIK hefur jafnframt framlengt til áramóta það tilboð sem íbúum var boðið til að tengjast hitaveitunni og nú er verðið það sama í þéttbýli og dreifbýli.

Byggðaráðstefna – menntun án staðsetningar

Ég var beðin um að vera fundarstjóri á byggðaráðstefnu á vegum Byggðastofnunar sem fjallaði um menntun en ráðstefnan var haldin í Vík í Mýrdal. Við fórum nokkur héðan frá Höfn enda voru nokkur erindi flutt héðan. Fjallað var um menntun og byggðamál í landfræðilega einangruðu sveitarfélagi á Hornafirði og þar fékk fjallanámið í FAS góða umfjöllun, flutt var erindi um stöðu og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun en þar var Nýheimar Þekkingasetur eitt af rannsóknarsetrunum, sagt var frá samstarfi Menntavísindasviðs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar varðandi starfsþróun fyrir kennara og starfsfólk sem fram fór síðasta vetur. Jafnframt fengu Fab Lab smiðjur góða umfjöllun sem Villi tók þátt í héðan frá Vöruhúsinu. Ráðstefnan var mjög áhugaverð og mörg erindi spennandi. Mikið var rætt um stoðþjónustu í skólum og þjónustu við skóla á landsbyggðinni, fjallað um fjarnám í háskólamenntun þar sem kom enn og einu sinni fram hversu aftarlega Háskóli Ísland stendur hvað varðar fjarnám í öðru námi en kennaranámi. Þarna eru tækifæri til að gera mun betur á mörgum sviðum.

SASS þing á Hellu

Í kjölfar byggðaráðstefnu var haldið á ársfund Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi sem haldið var á Hellu. Fundurinn fyrir ári síðan var haldinn á netinu svo það var mikil ánægja með að hitta sveitastjórnarmenn á Suðurlandi á ný. Dagskrá fundarins var að mestu hefðbundin aðalfundarstörf þar sem við fengum inn á milli kynningu á spennandi verkefnum sem unnið er að á suðurlandi s.s. Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, Sigurhæðir og fleira.

Ýmis mál og verkefni

  • Ég sat fund með dómnefnd vegna framkvæmda við Leiðarhöfða í tengslum við styrk sem sveitarfélagið fékk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Þar er farin af stað vinna en von er á niðurstöðu í mars á næsta ári. Næsta skref dómnefndar er að auglýsa eftir hönnuðum sem munu taka þátt í samkeppninni, þegar þátttakendur hafa verið valdir fá þeir tíma til að vinna hugmyndavinnu. Dómnefnd mun í kjölfarið fara yfir þær hugmyndir og velja þá þá hönnun sem þeim þykir áhugaverðust. Í dómnefndinni sitja arkitekt og landslagsarkitekt frá Arkitektafélagi Íslands, verkefnastjóri ásamt þremur bæjarfulltrúum sveitarfélagsins.
  • Aðalfundur Heilbrigðiseftirlits Austurlands var haldinn á Höfn að þessu sinni. Á fundinn mættu þrír fulltrúar stjórnar en tveir stjórnarmenn sátu fundinn í fjarfundi. Ég fór með atkvæði sveitarfélagsins þar sem Gunnhildur Imsland sem situr í stjórn HAUST fyrir hönd bæjarstjórnar komst ekki. Einnig voru starfsmenn HAUST á fundinum.
  • Barnaþing var haldið í tveimur hlutum í síðustu viku. Barnaþing er eitt af þeim verkefnum sem fellur undir verkefnið „Barnvæn sveitarfélög“. Fyrra þingið var haldið í Hafnarskóla þar sem yngri nemendum grunnskólans var boðin þátttaka og seinna þingið var haldið í Nýheimum þar sem eldri nemendum grunnskólans tóku þátt ásamt fyrstu tveimur árgöngum í FAS. Vel tókst til en þarna hafa börn tækifæri til að láta sína rödd heyrast í samfélaginu. Nú er unnið að því að taka saman gögnin og niðurstöður verða kynntar þegar þær liggja fyrir.


Framkvæmdir við Hafnarbrautina eru nú á lokametrunum. Hellulögninni er lokið, enn á þó eftir að tyrfa við göngustíginn þar sem er nú bil. Malbikarar eru að klára í þessari viku það sem eftir stóð þegar þeir þurftu frá að hverfa í haust. Hafnarbrautin er mjög vel heppnuð framkvæmd og breytir útliti götunnar til muna. Gangstéttir eru einnig breiðari á kostnað akvegar sem gerir það að verkum að það hægist á umferð bifreiða sem er af hinu góða. Ég læt hér fylgja mynd af sólarupprás sem lýsir upp nýja Hafnarbraut sem ég lét flakka á fésbókinni til að minna okkur á það jákvæða sem við getum sent út í samfélagið af hvatningu Ragnheiðar Rafnsdóttur! Ég ætla að halda áfram að taka þeirri áskorun og senda út jákvæðar fréttir og lýk pistlinum í dag með þeim jákvæðu frengnum sem bárust í gærkvöld í þætti á RÚV þar sem tilkynnt hverjir hlutu íslensku menntaverðlaunin.

 

Vöruhúsið og starfið í Fab Lab smiðju Hornafjarðar hlaut í gær Hvatningarverðlaun íslensku menntaverðlaunanna árið 2021. Vöruhúsið er nýsköpunar, list- og verkgreinahús okkar Hornfirðinga og á sér sérstöðu á landsvísu. Eftir því hefur verið tekið sem færir Vöruhúsinu þessi hvatningarverðlaun. Ég vil óska Vöruhúsinu og Fab Lab smiðjunni til hamingju með þessa frábæru viðurkenningu og sveitarfélaginu öllu.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri