Fréttir af störfum bæjarstjóra

14.2.2022

Í kjölfar síðasta bæjarstjórnarfundar tóku í gildi nýjar sóttvarnarreglur vegna aukinnar útbreiðslu Covid sýkinga. 

Strax hófst undirbúningur að því að skipuleggja starfsemi sveitarfélagsins. Gekk það vel og hafa síðan verið gerðar einhverjar breytingar þar á í takt við reynslu og þróun mála. Enn og aftur hefur sveitarfélagið sloppið ansi vel frá sýkingum, ekki myndast hópsýkingar á vinnustöðum eða í skólum sveitarfélagsins. Því má þakka góðum sóttvörnum og fólk verið minna á ferðinni á milli landshluta. Nú stefnir allt í frekari afléttinar sóttvarnaraðgerða á morgun föstudag. Það stefnir því í að samfélagið nálgist nú nokkuð hefðbundið ástand með vorinu. Vikulega sit ég covid fundi á vegum almannavarna á Suðurlandi þar sem bæjar- og sveitastjórar eru boðaðir ásamt lögreglu og sóttvarnarlækni á Suðurlandi. Fundirnir hafa verið gagnlegir.

Síðastliðinn sunnudag var einnig boðað til slíks fundar en að þessu sinni vegna slæmrar veðurspár á landinu öllu. Víða var gripið til þess ráðs að loka skólum a.m.k. fram að hádegi. Hér var tekin ákvörðun um að loka Grunnskólanum í Hofgarði og aflýsa skólaakstri. Foreldrar á Höfn voru beðnir um að fylgjast með veðri og miðlum ef þyrfti að aflýsa skólahaldi. Ekki þurfti að grípa til þess enda veður ekki eins slæmt hér og víða annars staðar.

Þorrablót Hafnarbúa

Það var frábært að fá að horfa á Þorrablót Hafnarbúa í streymi þótt það hefði að sjálfsögðu verið skemmtilegra að geta mætt í íþróttahúsið eins og fyrir covid! Það var löngu tímabært að gera grín að málefnum sveitarfélagsins. Mikil vinna og ekki síst tæknivinna hefur falist í þorrablótinu og vil ég hrósa nefndinni fyrir frábæra skemmtun og vel unnið blót. Það lítur allt út fyrir að hægt verði að halda þorrablót með hefðbundnum hætti á næsta ári. Ég læt hér eina mynd af okkur Gumma Kíró fylgja með. 

Upplýsingamiðlun sveitarfélagsins

Nú erum við að vinna að öflugari upplýsingagjöf til íbúa um starfsemi sveitarfélagsins. Búið er að móta áætlun sem gerir ráð fyrir að efni berist frá öllum stofnunum sveitarfélagsins með reglubundnum hætti. Nú hafa verið að birtast fréttir af leikskólamálum, stefnumótun og fleira. Helsti miðill sveitarfélagsins er heimasíðan og jafnframt eru reglulega sendar út greinar í Eystrahorn. Einnig eru nokkrar undirstofnanir með sér heimasíðu s.s. grunn- og leikskólarnir, Vöruhús – FabLab og Menningarmiðstöðin. Þessi skýrsla sem ég flyt mánaðarlega er einnig sett inn á heimasíðu sveitarfélagsins og jafnframt mun ég senda hana starfsfólki sveitarfélagsins hér eftir. Þetta er gert til að miðla betur til íbúa og starfsmanna frá starfseminni. Ábendingar eru ávallt vel þegnar og má benda okkur starfsfólki á leiðir sem ná mögulega betur til íbúa en þær sem nú eru nýttar.

Mannauðsmál

Sveitarfélagið gerði í desember samning við Attentus mannauðsskriftofu um „mannauðsstjóra að láni“. Skrifstofan er því bakhjarl sveitarfélagsins í mannauðsmálum. Fyrstu verkefni fólust í að yfirfara stefnur og verklagsreglur. Við fengum fyrstu uppfærðu stefnurnar í hendurnar í vikunni og voru þær lagðar fram til kynningar í bæjarráði. Stjórnendur eiga eftir að rýna gögnin og heimfæra yfir á sveitarfélagið þar sem þörf krefur en í þessari atrennu voru það fræðslustefna, launastefna, stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi og einnig viðverustefna. Í febrúar/mars er stefnt að því að ráðgjafinn komi til Hafnar og hitti sviðsstjóra og forstöðumenn til að fá betri tilfinningu fyrir starfseminni. Jafnframt hefst fljótlega vinna við mótun nýrrar starfsmannastefnu.

Reglulega funda ég með stjórnendum sveitarfélagsins en annan hvern mánuð eru haldnir forstöðumannafundir þar sem er farið yfir það helsta er tengist stofnunum sveitarfélagsins og rekstri þeirra. Fundirnir hafa verið haldnir meira og minna á teams allt síðasta ár og hefur það reynst ágætlega. Einnig funda ég mánaðarlega með sviðsstjórum og jafnframt vikulega með fjármálastjóra, þetta eru nauðsynlegir og gagnlegir fundir til halda öllum vel upplýstum og taka ákvarðanir um ýmis mál er tengjast starfseminni.

Í undirbúningi er að halda starfsmannafund fyrir alla starfsmenn sveitarfélagsins þar sem kynna á starfsmannastefnuna, fjalla um niðurstöðu launagreiningar í tengslum við úttekt jafnlaunavottunar og kynna þær mannauðsstefnur sem verða þá fullunnar. Nú stendur yfir vinna við jafnlaunaúttekt á ný en tvö ár eru frá því sveitarfélagið fékk vottun. Þetta er heilmikið ferli sem tekur drúgan tíma.

Ýmis mál:

Starfsmenntun starfsmanna sveitarfélaga, ég sit í samstarfshópi nokkurra bæjar- og sveitastjóra sem hafa áhuga á að vinna saman í því að efla starfsþróun og menntun starfsmanna sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið að skipuleggja fræðslu fyrir kjörna fulltrúa sem verður sett fram á stafrænan hátt eftir næstu kosningar. Nú er komið á formlegt samtal við sambandið um þessi mál. Markmiðið er að finna leiðir til að vera í meiri samvinnu við mótun fræðsluefnis eða með kaupum á fræðslu fyrir starfsmenn sveitarfélaga um allt land.

Ég sit í stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og stendu nú yfir undirbúningur að sjávarútvegsfundi. Fundurinn verður haldinn 22. febrúar og er búið að birta dagskrá á vef samtakanna. Fundurinn verður haldinn á teams og er almennur kynningar- og fræðslufundur fyrir starfsmenn, stjórnendur og bæjarfulltrúa aðildarsveitarfélaga um tiltekin málefni sem stjórnin ákveður hverju sinni.

Janúarráðstefna Festu samfélagsábyrgð var haldin á dögunum. Þar voru m.a. tveir erlendir aðilar með erindi. Ráðstefnan var haldin í beinu streymi og má nálgast hana á vef Festu. Ég hvet alla áhugasama um umhverfismál að kynna sér efni ráðstefnunnar. Sérsaklega áhugaverð voru erindi flutt af Kate Raworth þar sem hún fjallar um kleinuhringjahagkerfi og Johan Rockström sem fjallaði um jafnvægi jarðarinnar en þau eru í hópi fremstu fræðimanna og leiðtoga á alþjóðasviðinu þegar kemur að sjálfbærni og loftslagsmálefnum.

Ég fór á fund með stjórn Búnaðarsambandsins þar sem við ræddum m.a. mál er snúa að fjallskilum sveitarfélagsins og fleira sem bar á góma.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri