Helgarpistill bæjarstjóra 10. maí 2020

10.5.2020

Fyrsta vikan eftir afléttingu 4. maí

Lífið er nú að líkjast því sem við erum vön hvað varðar skóla- og íþróttastarf hjá börnunum. Það er gott fyrir yngstu kynslóðina að komast í rútínu og stunda eðlilegt skólastarf og íþróttir. Líf er að færast yfir íþróttasvæðin samhliða því að veðrið hefur leikið við okkur síðustu viku.

Afleiðingar Covid 19 eiga eftir að skýrast þegar frá líður. Við erum að sjá gríðarlega háar atvinnuleysistölur hér í sveitarfélaginu. Í apríl var atvinnuleysið þegar með er talin hlutabótaleiðin tæplega 27% og er atvinnuleysið hér með því mesta sem gerist á öllu landinu. Áætlað er að atvinnuleysi í maí verði 22%. Hér hefur ferðaþjónustan vaxið hratt og er einn mikilvægasti atvinnuvegurinn og það sést nú á atvinnuleysistölunum. Nú telst það til fregna að sjá ferðamann á svæðinu á meðan Hornfirðingar voru orðnir þreyttir á fjölda ferðamanna fyrir ári síðan. Nú getum við ekki annað en verið þakklát fyrir þann fjölda ferðamanna sem hingað hefur komið á undanförnum árum. Það ríkir mikil óvissa um ástandið, enn liggur ekki fyrir hvenær landamæri opnast um heim allan og þá hvort erlendir ferðamenn fara á stjá. Ég er sannfærð um það að ferðamenn munu heimsækja Ísland á ný og í sveitarfélaginu eru ótal náttúruperlur, gististaðir og þjónusta sem eru á heimsmælikvarða. 

Nú þurfum við að sækja á innanlandsmarkað og er sveitarfélagið að vinna með Markaðsstofu Suðurlands og Ríki Vatnajökuls að markaðsetningu. Nú er mikilvægt fyrir atvinnugreinina að standa saman og vinna að því að lokka Íslendinga á svæðið. Forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa verið í góðu sambandi við atvinnugreinina og nú er stefnt að sameiginlegum fundi í næstu viku til að stilla saman strengi. 

Auglýst er nú eftir starfsfólki í sumarstörf hjá sveitarfélaginu til að koma til móts við erfiðara atvinnuástand ásamt því að forstöðumenn eru að skoða möguleika á að bjóða atvinnulausum upp á tímabundin störf í samvinnu við Vinnumálastofnun. Við viljum hvetja fyrirtæki til að skoða þær leiðir hvað varðar sína starfsemi. Líklega munu 15-20 sumarstarfsmenn verða ráðnir til starfa umfram það sem hefðbundið er. Í undirbúningi eru ýmis verkefni svo sem lagfæringar og viðbætur á leik- og útivistarsvæðum í þétt- og dreifbýlinu. Það mun ráðast af starfsfólki í hvaða verkefni er hægt að fara. Hafin er vinna við lagningu göngustígs frá Álaleiru að Ægisíðu, undirbúningur stendur að skipulagi vinnuskóla og verkefna fyrir eldri starfsmannahóp í áhaldahúsi. 

Öllum krisum fylgja tækifæri og nú er mikilvægt að huga að nýsköpun. Ekki er eingöngu bara verið að huga að nýjum viðskiptatækifærum heldur er einnig mikilvægt að huga að nýsköpun í þeim stöfum sem nú þegar er verið að sinna. Huga þarf að nýsköpun í menntamálum, velferðarmálum og ekki síst stjórnsýslu. Ástand undanfarinna vikna hefur kennt okkur að nýta betur þá tækni sem er til staðar og nú er tækifæri til að staldra við og hugsa hlutina upp á nýtt.

Nú þegar hömlur vegna Covid-19 eru að minnka þá er ástæða til bjartsýni, samfélagið mun komast út úr þessari krísu sterkara en áður!

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.