Jákvæð rekstrarniðurstaða hjá Sveitarfélaginu Hornafirði
Á bæjarstjórnarfundi þann 14. maí var ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2019 samþykktur. Rekstur samstæðu sveitarfélagsins var jákvæður, niðurstaðan fyrir A og B hluta var jákvæð um 468 m.kr., niðurstaða A hluta var jákvæð um 407,6. m.kr..
Sterk fjárhagsleg staða Sveitarfélagsins Hornafjarðar er góður grunnur fyrir þá erfiðleika sem steðja að sveitarfélaginu nú.
Helstu tölur í ársreikningi:
- 468 milljón kr. afgangur af rekstrinum í heild
- Veltufé frá rekstri í hlutfalli við tekjur A og B hluta er 25%.
- Launagreiðslur 1.022.772 millj. kr. án launatengdra gjalda og lífeyrisskuldbindinga.
- Skatttekjur á hvern íbúa 579 þús. kr.
- Eigið fé í árslok var 5.179.
- Fjöldi stöðugilda var 154 í árslok og fjölgaði um 6 frá árinu 2018.
- Skuldahlutfall var 50% og lækkar um eitt prósentustig.
Óvissa vegna Covid-19 en sterk fjárhagsstaða
Eins og kunnugt er þá ríkir mikil óvissa í samfélaginu um hve mikil fjárhagsleg áhrif verða af völdum Covid-19og hversu lengi áhrifin munu vara. Viðbúið er að áhrif á rekstur sveitarfélagsins verði umtalsverð m.a. vegna lægri tekna og aukinna útgjalda. Bæjarstjórn hefur kynnt aðgerðir til viðspyrnu atvinnulífinu og mun áfram vinna að því með það að markmiði að styðja við atvinnulífið og tryggja atvinnu. Nú þegar er búið að bjóða upp á greiðslufrest á fasteignagjöldum fyrir þá sem hafa orðið fyrir skaða vegna faraldursins. Forstöðumönnum hefur verið falið að vinna upplýsingar um möguleg verkefni/sumarstörf sem hægt er að ráðast í unnið er að samstarfsverkefnum um störf við Háskólasetrið og Vinnumálastofnun.
Gera má ráð fyrir að endurskoða þurfi fjárhagsáætlun 2020 og er það í undirbúningi. Beðið er fregna frá aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar.
Fjárhagur sveitarfélagsins er traustur og skuldastaðan lág. Sveitarfélagið er því vel í stakk búið til að takast á við efnahagslegar afleiðingar vegna faraldursins.
Ársreikningur Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2019.