Leyfi til nýtingar á landssvæði við Kollumúla

21.10.2022

Sveitarfélagið Hornafjörður auglýsir skv. meginreglu stjórnsýsluréttarins eftir aðila til að nýta lóð L234664 undir aðstöðuhús fyrir dagdvalar- og tjaldgesti í Kollumúla og salernishús, auk þess sem gert er ráð fyrir byggingu á aðstöðuhúsi fyrir skálaverði á lóðinni.

Lóðin er stofnuð úr þjóðlendu Lónsöræfi nyrðri L222185. Samkvæmt 3. mgr. laga nr. 58/1998 fara hlutaðeigandi sveitarstjórnir með leyfisveitingar innan þjóðlendu aðrar en við koma vatns- og jarðhitaréttindum, vindorku, námum og öðrum jarðefnum innan þjóðlendu (sem eru á hendi forsætisráðuneytis sbr. 2.mgr 3.gr. laga nr. 58/1998). Jafnframt þarf samþykki forsætisráðuneytisins þar sem umrædd nýting er áætluð lengur en til eins árs, sbr. 3. mgr. 3. gr. sömu laga.

Um er að ræða leyfi með gildistíma frá 01.11.2022-01.11.2042 með möguleika á framlengingu til fimm ára í senn í allt að fjögur skipti, eða í heild til dagsins 01.11.2062.

Þættir sem einkum verður litið til við ákvörðun um leyfisveitingu á umræddu svæði eru eftirfarandi, en ekki skal litið svo á að röðun þeirra gefi til kynna vægi einstakra skilmála innbyrðis:

  • Upplýsingar um hvernig umsækjandi hyggst nýta auglýsta lóð í Kollumúla og framkvæmdaáætlun þar að lútandi.
  • Að rekstrinum skal standa óhagnaðardrifið félag sem starfar í almannaþágu.
  • Þekking og reynsla viðkomandi aðila af ferðaþjónustu á hálendinu, s.s. rekstri gistiskála og tjaldsvæða.

Öll uppbygging á svæðinu er á kostnað og ábyrgð leyfishafa. Á svæðinu stendur nú þegar 48,5 m2 skáli og hús með salernishús með sturtuaðstöðu. Mannvirkin eru í eigu Ferðafélags Austur-Skaftafellssýslu sem hefur verið með starfsemi á svæðinu til þessa. Ef breyting verður á lóðarhafa á svæðinu verður nýjum lóðarhafa skylt að kaupa skálann í samræmi við verðmat löggilts fasteignasala.

Áhugasamir aðilar vinsamlegast sendið tillögu að notkun á umræddu svæði til Sveitarfélagsins Hornafjarðar á netfangið afgreidsla@hornafjordur.is, eigi síðar en 09. nóvember nk. kl. 15:00.