SAMEINING SVEITARFÉLAGA

21.2.2017

Undanfarin ár hefur verið rætt um eflingu sveitarstjórnarstigsins og frekari tilfærslur á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga. Grundvöllur fyrir slíkri verkefnatilfærslu er að sveitarfélögin séu nægilega stór til að hafa burði til að taka við þessum verkefnum og er því mikilvægt að efla sveitarstjórnarstigið í landinu.

Bjorn-IngiSveitarfélagið Hornafjörður hefur mikla reynslu af því að taka til sín verkefni sem alla jafna eru á könnu ríkisins. Má þar til dæmis nefna málefni fatlaðs fólks og rekstur heilbrigðis- og öldrunarþjónustu allt frá árinu 1996.

Málefni aldraðra og framhaldsskólinn gætu verið verkefni sem næst verða færð yfir til sveitarfélaganna. Sveitarstjórnarstigið er það stjórnvald sem stendur almenningi næst og á að gæta hagsmuna íbúa sinna. Sterk sveitarfélög eru betur fær um að gæta hagsmuna þegna sinna og þar með öflugri málssvari þeirra.

Nú eru til skoðunar kostir og gallar þess að sameina sveitarfélögin Skaftárhrepp, Djúpavogshrepp og Sveitarfélagið Hornafjörð. Þessi vinna hófst með samþykki bæjar- og sveitarstjórna þessara sveitarfélaga í maí 2016. Í kjölfarið var stofnuð samstarfsnefnd skipuð þremur einstaklingum frá hverju sveitarfélagi til að skoða grundvöll sameiningar, og hefur hún nú fengið ráðgjafafyrirtækið KPMG til að leiða þá vinnu.

Ef til sameiningar þessara sveitarfélaga kemur, verður nýtt sameinað sveitarfélag landstærsta sveitarfélag landsins. Hér kæmu saman Sveitarfélagið Hornafjörður sem er 6.280 km2 stærð með 2.171 íbúa, Skaftárhreppur sem er 6.946 km2 með 470 íbúa og Djúpavogshreppur sem er 1.133 km2  með 456 íbúa. Sveitarfélagið verður þá 14.359 km2 að flatarmáli og með alls 3.097 íbúa.

Heildaríbúafjöldi á Íslandi er í dag 332.529 og yrði íbúafjöldi í nýju sveitarfélagi  því 0,93% af heildaríbúum landsins, en svæðið myndi hinsvegar ná yfir um 14% af þeim 102.698 km2 sem Ísland er. Það er því ljóst að um fámennt en víðfeðmt sveitarfélag verður að ræða. Í undirbúningsvinnunni er mikilvægt að velta við hverjum steini varðandi kosti og galla sameiningar, og er þar lykilatriði að allir hafi kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Sem liður í því  að fanga öll sjónarmið var lögð fyrir rafræn skoðanakönnun þar sem íbúum og öðrum áhugasömum gafst kostur á að velta fyrir sér þeim þáttum er varða þjónustu sveitarfélaganna og meta hvort þeir teldu að sameining væri til bóta eða vansa í þeim málaflokkum. Markmiðið með könnunni var ekki  að kanna afstöðu með eða á móti sameiningu, heldur var með henni verið að afla gagna fyrir frekari greiningarvinnu. Í liðinni viku hittust bæjar- og sveitarstjórnir  sveitarfélaganna þriggja  á tveggja daga vinnufundi á Djúpavogi þar sem farið var vítt og breitt yfir þau mál sem brenna á sveitarstjórnarfólki varðandi mögulega sameiningu.

Enn er mikil vinna fyrir höndum áður en tillaga samstarfsnefndarinnar verður lögð fram. Framundan eru t.d.  opnir fundir með íbúum sveitarfélaganna, ítarleg skoðun  á fjárhagslegum þáttum og umræður um mögulegt fyrirkomulag stjórnsýslu í sameinuðu sveitarfélagi. Áætlanir gera ráð fyrir að niðurstaða samstarfsnefndarinnar liggi fyrir nú í vor munu þær í framhaldi af því fara til  til umræðu í bæjarstjórn áður en þær verða kynntar íbúum. Gert er ráð fyrir að kynningarferlið taki tvo  mánuði og er stefnt að því að íbúar kjósi um tillöguna í haust.

Íbúafundur laugardaginn 4. mars

Laugardaginn 4. mars n.k. klukkan 16:00 verður haldinn opinn íbúafundur í Nýheimum þar markmiðið er að kynna verkefnið ítarlega fyrir íbúum áður en lagðar verða fram nokkrar sviðsmyndir um mögulega framtíð sveitarfélaganna. Þar á eftir mun eiga sér stað samtal um framtíðaráherslur íbúa, sem kemur til með að vera veigamikið innlegg í áframhaldandi sviðsmyndagreiningu. Er því mikilvægt  að íbúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar fjölmenni á fundinn og verði með því virkir þátttakendur í mótun mögulegs sameinaðs sveitarfélags.

Ég vil hvetja íbúa til að mæta á fundinn 4. mars í Nýheimum.   

Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar