Innleiðing „farsældarlaganna“ í Sveitarfélaginu Hornafirði

4.5.2022

Snemmtæk íhlutun er hefðbundið verklag í þjónustu við börn í Sveitarfélaginu Hornafirði en það er einnig megin markmið „farsældarlaganna“ svo kölluðu sem voru samþykkt 11. júní 2021 og gengu í gildi um síðustu áramót. 

Þetta er hluti af því sem fram kom í niðurstöðum RR-ráðgjafar (nú KPMG) sem leiddi fyrsta hluta innleiðingar farsældarlaganna með verkefnahópi úr sveitarfélaginu.

Markmið farsældarlaganna er að sjá til þess að öll börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana og er sveitarfélögum ætlað þrjú ár til að innleiða slíkt fyrirkomulag. Þeir sem bera ábyrgð samkvæmt lögum þessum skulu:

  • Fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra og meta þörf fyrir þjónustu.
  • Bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur.
  • Hafa samráð sín á milli með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna og foreldra.

Innleiðingarvinna í Sveitarfélaginu Hornafirði hófst í desember á síðasta ári. Þá var settur saman verkefnahópur og ráðnir utanaðkomandi ráðgjafar frá RR-ráðgjöf til að fylgja honum fyrstu skrefin. Fulltrúar í verkefnahópnum koma frá velferðasviði, fræðslusviði, leik-, grunn- og framhaldsskóla auk heilsugæslu auk þess sem kallaðir var til fjöldi aðila á vinnustofur. Á skilafundi 27. apríl sl. kynnti RR-ráðgjöf tillögu að næstu skrefum í innleiðingunni sem er m.a. að skýra verkferla og festa í formi verkþætti í samræmi við lögin. Markmiðið er að verkferlar verði aðgengilegir og auðskiljanlegir fyrir bæði þjónustuþega og þjónustuveitendur. Tillaga RR-ráðgjafar að næstu skrefum er í fimm liðum;

  • Innleiða stefnu og gildi sveitarfélagsins inn í þá starfsemi sem stuðlar að farsæld barna
  • Viðhalda viðhorfi lausnamiðaðrar sameiginlegar ábyrgðar
    • Hjá öllum þjónustuveitendum
    • Teymisvinna
  • Breyta verklagi til að mæta kröfum laganna á auðveldari hátt
  • Þjálfa tengiliði og málstjóra
  • Samræma hugtök sem hafa sömu merkingu

Verkefnahópurinn mun halda áfram störfum og vinna að frekari innleiðingu strax á næstu vikum því markmiðið er að öll börn í sveitarfélaginu nái að blómstra. En það er líka mikilvægt að veita athygli því sem þegar er vel er gert og rækta það. RR- ráðgjöf talaði sérstaklega um þá hefð sem hér er fyrir snemmtækum stuðningi jafnt í leik, grunn- og framhaldsskóla sem og hjá fjölskyldu- og félagsþjónustu og heilsugæslu. Þjónustan hefur verið byggð upp með þeim hætti að mynduð hafa verið teymi með foreldrum barns og fulltrúum þjónustuaðila hverju sinni. Teymið metur í sameiningu hvaða þjónustu barnið þarf og hvort þörf er á greiningu eða sértæku mati. Í mörgum tilfellum er teymisvinna farin af stað meðan barnið er enn í leikskóla enda markmiðið að grípa sem fyrst inn í svo þörfin verði minni síðar og barnið nái að njóta bernskunnar. Þessi hefð að veita stuðning og þjónustu í nærumhverfi barnsins og mynda teymi í kringum barnið svo fljótt sem auðið er samhliða umsókn um frekari greiningu er það sem RR-Ráðgjöf taldi framúrskarandi hefð og bæri að varðveita og hlúa að.

Freyja Sigurgeirsdóttir og Róbert Ragnarsson frá RR-ráðgjöf (nú KPMG) á skilafundi hér á Höfn 27. apríl síðastliðinn