Könnun um hegðun og líðan ungs fólks

25.4.2022

Um árabil hefur fyrirtækið Rannsóknir og greining (RG) framkvæmt könnun meðal ungmenna á Íslandi og aflað upplýsinga um hegðun þeirra og líðan á hinum ýmsu sviðum.

Könnunin nefnist Ungt fólk og er lögð fyrir í febrúar á hverju ári. Niðurstöðurnar gefa mikilvægar vísbendingar sem nýtast foreldrum, skólum og opinberum aðilum eins og sveitarfélögum. Þessir aðilar geta séð hvar gengur vel en einnig hvar skóinn kreppir og hvar má betur fara. Bestur árangur næst síðan eflaust ef allir þessir aðilar tala saman og tala líka við unglingana sjálfa og heyra hvað þeim finnst. Núna nýlega komu niðurstöður úr síðustu könnun og á þessari vefslóð má sjá niðurstöðurnar í heild sinni.

Niðurstöðurnar sem eru sérunnar fyrir Hornafjörð eru um margt forvitnilegar. Um leið og þar er margt sem kemur betur og betur út hjá okkar ungmennum þá eru líka áskoranir sem þarf að takast á við. Það er t.d. eftirtektarvert að fleiri ungmenni segjast fá nægan svefn á virkum dögum miðað við það sem áður var og einnig hefur samvera barna og foreldra aukist. Þá hefur rafrettunotkun minnkað og minna er um að unglingar hafi orðið ölvaðir. Þannig má ætla að fræðsla um til að mynda mikilvægi svefns, samveru fjölskyldunnar, skaðsemi rafrettna og áfengis hafi skilað sér í breyttri hegðun. Á sama tíma hafa aðrar áskoranir vaxið svo sem áreiti á netinu og orkudrykkjanotkun.

En myndir segja meira en mörg orð og hér á eftir koma myndrænar niðurstöðu beint úr skýrslunni. Fyrst kemur mynd sem sýnir nokkrar lykiltölur í lífi barna á Hornafirði 2022. Síðan koma þrjár myndir sem hægt er að nota sem samanburð milli áranna 2020-2022, athugið þó að þar sem gula myndin með húsinu er þar er ekki verið að bera saman sama hlutinn.