Menntastefna 2016-2030

19.12.2016

Í janúarlok árið 2014 var ákveðið að endurskoða stefnu sveitarfélagsins um skólamál. Jafnframt var ákveðið að ný stefna skyldi vera víðtækari en fyrri stefnur, að hún skyldi vera menntastefna þar sem lögð væri áhersla á að nám hefur engan endi heldur erum við að læra alla ævi.

 Eitt af mikilvægustu verkfærunum til þess að vinna með breytingar er menntakerfið og ein leið til þess að takast á við þær er að auka tækifæri og fjölbreytni í námsframboði fyrir íbúa sveitarfélagsins. Þannig fá allir betur notið hæfileika sinna og eiga möguleika á að endurskoða reglulega hvar kraftar þeirra nýtast best. Nám alla ævi er ekki einungis hluti af því að bregðast við ófyrirsjáanlegum breytingum heldur einnig hluti af því að hlúa að sjálfum sér. Aukin fjölbreytni í námsframboði skilar sér í hærra menntunarstigi íbúa og þar með í aukinni menntamenningu en menntamenning miðar að því að:

  •  Auka virðingu fyrir hvers kyns formlegu og óformlegu námi.
  • Fjölga  tækifærum og hvetja íbúa til að efla menntun sína. 
  • Auðvelda aðgengi að námi í samstarfi við skóla, atvinnulíf, nærsamfélag, tómstundastarf og íbúana sjálfa.
  • Gera nám sýnilegt og nýta það til uppbyggingar og þróunar samfélagsins.

Menntastefnan var unnin í samvinnu við íbúa sveitarfélagsins og komu 295 íbúar að mótun hennar. Hún endurspeglar því hugmyndir og sýn íbúa á öllum aldri til menntamála og framtíðarþróunar í sveitarfélaginu. Nú hefur menntastefnan litið dagsins ljós eftir rúmlega 2 ára vinnu og útdráttur úr henni hefur verið sendur á hvert heimili í sveitarfélaginu.