Skýrsla bæjarstjóra 7. apríl 2022

7.4.2022

Bæjarstóri gefur út skýrslu á hverjum bæjarstjórnarfundi þar sem hún greinir frá störfum sínum og áhugaverðum málum sveitarfélagsins. 

Menningarverðlaun

Voru veitt 11. mars s.l. Viðburðurinn er stór samfélagshátíð þar sem afhentir eru styrkir sveitarfélagsins ásamt því að veita umhverfisviðurkenningar og menningarverðlaun. Umsóknir um styrki hjá sveitarfélaginu eru margar og fjölbreyttar. Því miður er aðeins hægt að veita hluta þess fjármagns sem óskað er en umsóknirnar eru til marks um þann mikla kraft sem býr í samfélaginu. Að búa eins afskekkt eins og við gerum skapar ákveðið frumkvæði og grósku sem við sjáum sannarlega í þeim viðburðum sem eru í gangi hér allt árið. Menningarverðlaunin að þessu sinni hlaut Hanna Dís Whitehead. Hanna Dís vann um skeið hjá sveitarfélaginu á Svavarssafni en vinnur nú alfarið að sinni listsköpun. Hún er ótrúlega fjölhæfur og öflugur listamaður og vil ég nota tækifærið og óska henni til hamingju með verðlaunin. Einnig vil ég óska öðrum til hamingju með tilnefningar, viðurkenningar og styrki.

Móttaka flóttamanna

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur haldið reglulega samráðsfundi vegna móttöku flóttamanna til Íslands. Ég hef setið þá fundi ásamt Erlu sviðsstjóra velferðarsviðs og Hildi Ýr verkefnastjóra fjölmenningar. Ráðuneytið heldur utan um undirbúningsvinnu ásamt viðeigandi stofnunum. Kallað hefur verið eftir þátttöku sveitarfélaga og hefur Sveitarfélagið Hornafjörður sent erindi til ráðuneytisins þar sem komið er á framfæri áhuga á að taka á móti flóttamönnum. Unnið er að endurnýjun samnings við sveitarfélögin um verkefnið sem verður líklegast frágenginn fyrir Páska. Við höfum kortlag húsnæðismál og þjónustu sem sveitarfélagið getur veitt og sent til ráðuneytisins. Mikill fjöldi flóttamanna frá Úkraínu kemur daglega til landsins en fyrsta stoppið er á Höfuðborgarsvæðinu. Sérstakt aðgerðarteymi hefur nú verið stofnað vegna komu flóttamanna frá Úkraínu. Starfsmenn sveitarfélagsins halda áfram að fylgjast vel með og munu bregðast við kallinu þegar það berst.

Íbúafundir

Nú þegar covid er í rénum og sóttvarnartakmörkunum aflétt er lokst hægt að halda fundi í persónu. Frá síðasta bæjarstjórnarfundi hafa þrír slíkir verið haldnir bæði á staðnum og í fjarfundi.

Íbúafundur um deiliskipulag á miðsvæði og bygging líkamsræktar, var haldinn í Heppuskóla. Góð mæting var á fundinn þar sem íbúum gafst kostur á að fá upplýsingar um bæði nýja líkamsræktarbyggingu og einnig deiliskipulagið á miðsvæði. Bæði málin hafa verið unnin í miklu samstarfi við alla hagaðila og gefinn kostur á umræðu á fyrri stigum. Deiliskipulagið á miðsvæði var unnið m.a. samkvæmt Barnvænu samfélagi sem hefur ekki verið gert áður. Í því fólst að kalla sérstaklega eftir umræðu á meðal barna og ungmenna með rýnifundum í skólunum. Starfsmenn hafa skrifað greinar um framkvæmdina í tengslum við líkamsræktina svo íbúar ættu að vera vel upplýstir.

Íbúafundur Ósland útbær. Mikil áform eru um uppbyggingu hótela og gistirýma við Sandeyri. Umhverfis- og skipulagsnefnd ásamt bæjarráði ákvað að boða til opins íbúafundar þar sem allir uppbyggingaraðilar fengu að kynna sínar hugmyndir. Einnig voru skipulagsráðgjafar á fundinum sem gátu lýst þeim skipulagsbreytingum sem framkvæmdirnar kalla á. Góð mæting var á þennan fund en líklega um 60 manns mættu í heildina. Nauðsynlegt var á þessu stigi að kalla eftir viðbrögðum almennings áður en haldið er áfram með málið. Skipulagsvinnan er enn á borði umhverfis- og skipulagsnefndar.

Íbúafundur Hrollaugsstaðir. Opið hús var á Hrollaugsstöðum þar íbúum gafst kostur á að skoða nýjar íbúðir sem sveitarfélagið hefur útbúið í húsinu. Í kjölfarið var haldinn kynningarfundur um deiliskipulagið við Hrollaugsstaði. Miklar umræður sköpuðust um skipulagið en íbúar hafa áhyggjur af fótboltavellinum, færslu á vegi, hversu þétt byggðin er o.fl. Allt eru þetta réttmætar vangaveltur en skipulagið gerir ráð fyrir áfangaskiptingu framkvæmda, fyrri áfangi hefur engin áhrif t.a.m. á fótboltavöllinn. Byggðin er skipulögð út frá því landi sem sveitarfélagið á og markmiðið er að nýta það svæði sem best.

Afmælishátíð Rannsóknarmiðstöðvar HÍ

Stofnun rannsóknarsetra HÍ hélt ársfund sinn á Höfn þetta árið og fagnaði um leið 20 ára afmæli. Fyrsta rannsóknarsetrið tók til starfa 30. nóvember 2001 á Höfn undir forystu Rannveigar Ólafsdóttur. Í grein sem birtist á vef háskólans er vitnað m.a. í Þorvarð Árnason þar sem fjallað er um verkefni setursins á Höfn:

„Verkefni setursins snúast því annars vegar um umhverfi og náttúru og hins vegar um menningu og bókmenntir. Setrið hefur verið að leggja síaukna áherslu á loftslagsmálin að undanförnu, ekki þá síst á sjónrænar rannsóknir á því sviði. Sú áhersla helgast að miklu leyti af staðbundnum aðstæðum – þ.e. nálægð okkar við Vatnajökul og skriðjökla hans – en bráðnun jökla er einkar skýr birtingarmynd þeirra ótal mörgu áhrifa sem loftslagsbreytingar eru að valda út um heim allan.“

Málþingið var mjög áhugavert og kynntar voru helstu rannsóknir sem unnið er að um allt land. Ég fékk þann heiður að sitja í pallborði þar sem umræður snérust um mikilvægi rannsóknarsetra fyrir samfélög. Í kjölfar málþings bauð sveitarfélagið upp á móttöku í Svavarssafni þar sem Hlynur Pálmarson kynnti sýninguna sína, Harmljóð um hest. Á meðal gesta var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar sem gaf sér tíma til að taka þátt í málþinginu ásamt því að heimsækja nokkrar stofnanir og vinnustaði.

Ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands og Nýheima Þekkingarseturs

Voru haldnir 24. mars s.l. Ársfundur Nattsa var að þessu sinni haldinn á Höfn og því verður fundurinn að ári haldinn í Skaftárhreppi þar sem bæði sveitarfélögin eru aðilar að stofunni ásamt því að tveir starfsmenn eru staðsettir þar. Þetta var síðasti fundur Kristínar Hermannsdóttur sem hefur nú látið af störfum en hún hefur starfað hjá stofunni frá upphafi og tekið þátt í uppbyggingu hennar. Það verður eftirsjá af Kristínu en Lilja Jóhannsdóttir hefur nú þegar tekið við sem forstöðumaður stofunnar. Á ársfundinum fór Kristín yfir ársskýrsluna í stuttu máli og kynnti helstu verkefni stofunnar sem eru fjölmörg en skýrsluna má finna á heimasíðu Nattsa, www.nattsa.is.

Ársfundur Nýheima var haldinn með hefðbundnu sniði, starfsemin er fjölbreytt og kraftmikil. Haldin voru tvö erindi, Kristín Vala kynnti þjónustu setursins við fjarnema Hornafjarðar en Nýheimar halda m.a. utan um prófatökur og bjóða upp á námsaðstöðu fyrir fjarnema. Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga kynnti einnig niðurstöður verkefnisins Byltingar og byggðaþróun sem Nýheimar tóku voru aðilar að. Hægt er að kynna sér betur verkefni Nýheima þekkingarseturs á heimasíðu þeirra www.nyheimar.is.

Undirbúningur íbúakosningar vegna deiliskipulags í innbæ

Ég fundaði með formanni kjörstjórnar og Bryndísi stjórnsýslu- og upplýsingafulltrúa um fyrirkomulag íbúakosninganna vegna samþykkts deiliskipulags í innbæ. Kosið verður samhliða sveitarstjórnarkosningum 14. maí. Búið er að auglýsa kosningarnar í Eystrahorni og á heimasíðu sveitarfélagsins en utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram hjá Sýslumanni. Kynningarefni er í vinnslu en skipulagið sjálft má kynna sér á heimasíðu sveitarfélagsins undir skipulag í kynningu. Frekara kynningarefni verður sett á vefinn eftir Páska og einnig í Eystrahorn.

Hinsegin vika 28. mars – 3. apríl

Sveitarfélagið skipulagði í fyrsta sinn hinsegin viku og vill með þessu móti leggja sitt af mörkum til þess að hér megi öllum líða vel og að allir fái að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Markmið vikunnar var að auka fræðslu og skapa umræður sem tengjast hinsegin málum og fagna í leiðinni fjölbreytileikanum. Vikan tókst mjög vel og víða mátti sjá regnbogafána blakta á fánastöngum bæjarins og skreytingar hjá fyrirtækjum og stofnunum. Ég sat fyrirlestur hjá Mars Proppé sem fræddi starfsmenn sveitarfélagsins og einnig almenna íbúa um þessi mál, virkilega áhugaverður fyrirlestur.

Vegvarp um einbreiðar brýr.

Vegagerðin heldur úti svokölluðu vegvarpi en um stutta spjallþætti er að ræða þar sem valin eru ákveðin málefni til umfjöllunar. Þeir buðu mér að taka þátt í vegvarpi s.l. mánudag þar sem umfjöllunarefnið voru einbreiðar brýr. Ástæða þess að ég fékk að taka þátt er sá fjöldi einbreiðra brúa sem enn eru í sveitarfélaginu. Vakin var athygli á þeirri umferðaraukningu sem hefur átt sér stað á Suðurlandi undanfarin ár en Vegagerðin hefur til samanburðar verið að horfa til umferðar um Holtavörðuheiði. Þar var tekin ákvörðun um að fækka einbreiðum brúm með markvissum hætti fyrir nokkrum árum vegna umferðarþunga. Nú er það svo að engin einbreið brú er á leiðinni Reykjavík – Akureyri. Nú eru umferðartölur við Kvísker sambærilegar þeim sem voru þá fyrrnefndri leið og því er áherslan á að fækka einbreiðum brúm á okkar svæði. Ég lagði áherslu á mikilvægi nýs vegar yfir Hornafjarðarfljót ásamt úrbóta á brú yfir Jökulsárlón. Starfsmenn Vegagerðarinnar tóku undir þær áherslur heilshugar en þó nokkuð mörg slys hafa orðið á Hoffellsbrúnni og brúnni yfir Hornafjarðarfljót á undanförnum árum. Vegvarpið er á heimasíðu Vegagerðarinnar þó er þessi þáttur ekki enn kominn þangað inn. 

Leiðarhöfði verðlaunaafhending

Að lokum í þessari samantekt sem er nú orðin ansi löng verð ég að fjalla um viðburðinn í gær þar sem verðlaunahugmyndir í tengslum við hönnun og skipulag Leiðarhöfðans voru kynntar og verðlaun veitt. Viðburðurinn var mjög vel sóttur og hugmyndirnar fjölbreyttar og skemmtilegar. Verðlaunahugmyndin er vel útfærð og fellur einstaklega vel að Leiðarhöfðanum, lögð var áhersla á tengingu við sögu svæðisins, unnið út frá íbúakönnuninni og að því að halda höfðanum sjálfum náttúrulegum. Hér fyrir neðan má sjá yfirlitsmynd af hönnuninni en einnig er hægt að skoða nákvæmar myndir og fréttir á síðu Landmótunar, http://www.landmotun.is/archives/5352. Ég vil þakka öllum þeim sem tóku þátt í samkeppninni og einnig starfsmönnum og bæjarfulltrúum fyrir þeirra aðkomu. 

Gleðilega páska. 

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri