Starfið í Tónskóla A- Skaft í vetur

17.5.2022

Í vetur stunduðu 65 nemendur nám í einkakennslu við Tónskóla A-Skaft. sem sex kennarar auk skólastjóra sáu um.

 Við áttum því láni að fagna að fá nýútskrifaðan kennara til okkar í haust með nýjar áherslur og ferskan blæ inn í skólann. Skólinn lagði sérstaka áherslu á að auka samspil nemenda í vetur. Einnig lögðum við af stað með barnakór. Tónskólinn heldur einnig uppi öflugu starfi í forskólakennslu í samvinnu við Grunnskólann, þar sem annar bekkur hefur fengið tónlistarfræðslu tvisvar í viku auk tónmenntakennslu.

Mikil sveifla hefur verið á nemendafjölda í tónskólanum frá því 2009 þegar 112 nemendur voru við nám og fóru niður í 57 þegar fæst var 2017. Ekki er einhlít skýring á þessari niðursveiflu en fækkun nemenda í grunnskóla og aukning á íþróttastarfi og annarri tómstundariðn hefur hugsanlega átt sinn þátt í því. Það er hins vegar annað sem við hér í skólanum höfum meiri áhyggjur af og það er geta nemenda til að æfa sig heima. Við finnum mikið fyrir dvínandi getu, vilja eða áhuga barna í að æfa sig heima sem er forsendan fyrir að geta spilað á hljóðfæri. Það er kannski ekki mikill tími aflögu fyrir 11 ára gamalt barn sem stundar tvær til þrjár íþróttagreinar auk tónlistar, að finna tíma þar sem þar að auki eru tveggja daga íþróttamót nokkrum sinnum yfir veturinn og fjölskylduferðir um helgar vaxandi þáttur í lífi barnsins og ekki ætla ég að skilja út undan ferðalög á vegum Tónskólans. Tónskólinn hefur reynt að bregðast við þessu með því að fjölga kennslustundum á viku en stytta hverja kennslustund. Það gefur ágæta niðurstöðu en það eru vandamáli líka, þar sem skortur á tíma hjá nemandanum kemur í veg fyrir það. Grunnskóli Hornafjarðar hefur á móti stutt okkur og leyft okkur að fá nemendur á skólatíma. Við erum afar þakklát fyrir það.

En við erum bjartsýn á framtíðina og fjölmennir árgangar að koma upp og mikið af efnilegum nemendum að vaxa í náminu auk fyrrum nemenda sem stunda tónlist víðs vegar um landið í leik og í starfi. Við höfum getað haldið úti tónleikum reglulega yfir árið, þrátt fyrir fjöldatakmarkanir og sent nemendur í grunn- og miðpróf sem eru stórir áfangar fyrir nemendur.

Jóhann Morávek skólastjóri Tónskóla A- Skaftafellssýslu.