Stóri plokkdagurinn verður að plokkviku í sveitarfélaginu

25.4.2022

Stóri plokkdagurinn var haldinn hátíðlegur um land allt í gær, sunnudaginn 24. apríl, og fóru margir út að plokka í tilefni dagsins. 

Merktum sorpílátum var komið upp við Áhaldahúsið, Álaleiru 2, undir plokkaðan úrgang og voru þau vel nýtt.

Í ljósi þess hve vel gekk um helgina verða ílátin aðgengileg út vikuna þeim sem vilja láta gott af sér leiða. Plokkararnir sem nýttu sér ílátin síðastliðna helgi eiga hrós skilið fyrir góða flokkun og snyrtimennsku. Þar sem veðurspá vikunnar er hin prýðilegasta er kjörið að njóta blíðunnar með gagnlegri útivist fyrir þá sem það vilja.

Að lokum langar mig að benda áhugasömum á kortasjánna plokkari.is þar sem hægt er að merkja við svæði sem búið er að plokka. Svæðin eyðast svo sjálfkrafa að viku liðinni. Starfsfólk og nemendur Ráðhússins, Nýheima og FAS tóku til í sínu nánasta umhverfi í dag og skora á aðra að gera slíkt hið sama. Stofnanir og fyrirtæki eru sérstaklega hvött til að huga að sínu umhverfi.

Verkefnastjóri umhverfismála