Yfirlit vegna Öræfajökuls

13.7.2018

Almannavarnir sendu frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í dag.

Núverandi staða Öræfajökuls:

Skýr merki eru um ókyrrð í Öræfajökli en fjallið hefur þanist út, a.m.k. frá áramótum 2016-17.

Þenslunni fylgir aukin jarðskjálftavirkni og aflögun, sem kemur fram í úrvinnslu  gervitunglagagna og GPS mælinga.

Engin merki eru að hraði þenslunnar fari minnkandi þó svo að jarðhitavirkni hafi minnkað frá því í desember 2017.

Orsök þenslunnar er talin vera innskot nýrrar kviku í rótum eldstöðvarinnar.  Rúmmálsbreyting síðan þessi atburðarás hófst er af stærðargráðunni 10 milljón rúmmetrar (um 0.2 m3/s) sem er sambærilegt við kvikuinnskot í Eyjafjallajökli á árunum fyrir gosið 2010.

Nýjar viðnámsmælingar sýna jarðhitaummyndun á litlu dýpi inni í öskju Öræfajökuls sem er merki um tilvist háhitakerfis, svipað og sést í mörgum megineldstöðvum á Íslandi. 

Möguleg þróun:           

Virkni Öræfajökuls nú er dæmigerð fyrir eldfjöll sem búa sig undir eldgos.  Virknin getur hætt áður en til goss kemur en um það er ekkert hægt að segja á þessu stigi.

Ein möguleg afleiðing núverandi þróunar er aukin jarðhitavirkni sem gæti orsakað jökulhlaup og gasmengun.

Viðbrögð almannavarna og annarra aðila:

Haldnir hafa verið fundir með íbúum og ferðaþjónustuaðilum á svæðinu þar sem þeir hafa verið upplýstir um atburðarás undanfarinna mánaða í Öræfajökli. Fyrirhugað er að halda fund með sömu aðilum undir lok september þar sem farið verður yfir stöðu mála að nýju.

Unnin hefur verið neyðarrýmingaráætlun fyrir Öræfasveit sem virkjuð verður komi til eldgoss í Öræfajökli fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Neyðarrýmingaráætlunina má nálgast hér :

Unnið er að gerð viðbragðsáætlunar vegna eldgos í Öræfajökli á vegum almannavarna í héraði.

Tækjum til vöktunar eldfjallsins hefur verið fjölgað verulega og náttúruvársérfræðingar Veðurstofu Íslands fylgjast grannt með atburðum. Þeir senda viðvaranir til almannavarna ef þeir verða varir við breytingar.

Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun háskólans og Íslenskar orkurannsóknir með aðstöð Jöklarannsóknarfélags Íslands hafa unnið að auknum rannsóknum á Öræfajökli á undanförnum misserum til að auka skilning á aukinni jarðskjálftavirkni í Öræfajökli, þenslu eldfjallsins og breytingum á jarðhitavirkni.

Fjarskipafyrirtæki hafa unnið að því að bæta farsímasamband í Öræfum.