Barnaþing haldið vegna innleiðingu Barnvæns sveitarfélags

10.11.2021

Barnaþing var haldið í Hafnarskóla og FAS, fyrir alla nemendur upp að 18 ára aldri, í tengslum við innleiðingu Barnvæns sveitarfélags. Barnaþingið var haldið í tvennu lagi, 3. nóvember fyrir 6-10 ára og 4. nóvember fyrir 11-17 ára.

Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri setti þingið. Um 250 nemendur tóku þátt og mynduðust góðar umræður. Eftir að umræðum var lokið var boðið upp á pizzur.

Barnaþing er vettvangur þar sem börnum gefst tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og til að hafa áhrif á málefni sem þau varða. Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra og eiga fullorðnir að hlusta og taka mark á þeim. Á barnaþinginu voru fjórar málstofur: skólamál, félagslíf, forvarnir og umhverfið og miðað var við að hver hópur tæki tvær málstofur eða fleiri eftir því sem tími gafst. Umræðustjórar voru nemendur í 10. bekk og fulltrúar ungmennaráðs.

Sveitarfélagið Hornafjörður ætlar að innleiða Barnasáttmálann og gerast Barnvænt sveitarfélag. Til þess að það geti orðið samþykkir það að nota Barnasáttmálann sem viðmið í sínu starfi og að forsendur sáttmálans gangi sem rauður þráður gegnum starfsemi þess. Verkefnastjóri hefur verið ráðinn til að halda utan um innleiðinguna og skipuleggja hvernig innleiðingin gengur fyrir sig og stýrihópur hefur veriðstofnaður sem sér um verkefnið í samvinnu við verkefnastjóra. Í stýrihópnum eru fulltrúar frá öllum sviðum sveitarfélagsins, fulltrúar úr bæjarstjórn og fulltrúar úr ungmennaráði. 

Niðurstöður barnaþingsins verða skoðaðar út frá því hvað er vel gert, hvað má gera betur og hvaða breytingar börnin myndu vilja sjá að þeirra mati og þær verða síðan notaðar til að móta aðgerðaráætlun fyrir sveitarfélagið.