Hertar sóttvarnarreglur – starfsemi sveitarfélagsins

30.10.2020

Heilbrigðisráðherra hefur gefið út reglugerð um hertar sóttvarnaráðstafanir sem taka gildi laugardaginn 31. október. Sú breyting tekur nú gildi að sömu reglur gilda um allt land.

Meginbreytingin felst í 10 manna fjöldatakmörkum í stað 20 áður. Allt íþróttastarf verður óheimilt og sviðslistir sömuleiðis. Gert er ráð fyrir að reglur um hertar aðgerðir gildi til og með 17. nóvember. Þær verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg.

Helstu áhrif á starfsemi sveitarfélagsins:

  • Sundlaugin verður lokuð.
  • Íþróttahúsin verða lokuð.
  • Báran verður opin milli kl. 8-12 á virkum dögum fyrir grunnskólanemendur og eldri borgara.
  • Starfsemi Grunnskóla Hornafjarðar er með breyttu sniði í samræmi við reglugerð stjórnvalda en þar kemur fram að börn fædd 2011 eða síðar þurfa ekki að bera andlitsgrímu.
  • Börn fædd 2015 og síðar eru nú eingöngu undanþegin fjöldatakmörkunum í stað barna fædd 2005 áður. Grímuskylda gildir þar sem ekki verður hægt að framfylgja fjöldatakmörkunum fyrir börn fædd fyrir 2011.
  • Lokað fyrir heimsóknir í Áhaldahúsi og Hafnarvoginni
  • Afgreiðsla ráðhúss verður lokuð, hægt er að panta tíma fyrir viðtöl á netfangið afgreidsla@hornafjordur.is.
  • Starfsemi í Ekrunni verður með breyttu sniði, leiðbeiningar verða sendar til þjónustuþega þegar það liggur fyrir.

Við hvetjum íbúa til að sýna aðstæðunum skilning og þolinmæði. Aðgerðirnar nú snúa að því að ná faraldrinum niður með það að markmiði að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Smitum hefur ekki fjölgað í Sveitarfélaginu Hornafirði en það getur breyst á svipstundu eins og dæmi hafa sýnt. Nú er mikilvægt að standa saman og fylgja sóttvarnarreglum, hafið grímu við höndina, þvoið hendur og notið spritt!

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri