Hugleiðingar bæjarstjóra í vikulok!

31.10.2020

Þetta hefur verið viðburðarrík vika hér í sveitarfélaginu og það er ýmislegt sem hvetur mig til að skrifa nokkrar hugleiðingar á blað

Það voru miklar framkvæmdir í vatnsveitunni í vikunni. Þær höfðu í för með sér að taka þurfti vatnið af frá kl. 21:30 um kvöldið og fram eftir nóttu. Sveitarfélagið tilkynnti á heimasíðu sinni og á fésbókarsíðu um fyrirhugaðar framkvæmdir. Því miður náði tilkynningin ekki til allra íbúar. Við munum bæta úr næst þegar þarf að fara í sambærilegar framkvæmdir og senda sms til allra íbúa í sveitarfélaginu til viðbótar við tilkynningar á vefmiðlum.

Ljósleiðaraframkvæmdir hafa staðið yfir í sveitarfélaginu allt árið. Við lukum framkvæmdum á Mýrum og eru nú allir bæir þar tengdir ljósleiðara sem það völdu. Undirbúningur ljósleiðaralagningar á Mýrum og Nesjum hófst árið 2017 og átti að ljúka árið 2018. Af ýmsum ástæðum þá hafa framkvæmdir tafist umfram það sem eðlilegt getur talist. Ég vona að við getum tengt einhverja bæi í Nesjum og í Nesjahverfi fyrir áramót, ég get þó ekki fullyrt að framkvæmdum muni ljúka á þessu ári. Auglýsing var sett í Eystrahorn í vikunni og á vefmiðla til að óska eftir því að íbúar sæki um tengingu, það á við um þá íbúa sem skráðu sig EKKI fyrir þremur árum síðan eða ef um einhverjar breytingar er að ræða hjá íbúum. Til að taka af allan misskilning þá eru íbúar á Höfn ekki tengdir ljósleiðara. Ljósleiðaralagningar í dreifbýli tengjast verkefni ríkisins „Ísland ljóstengt“ og fær sveitarfélagið styrk á móti eigin framlagi. Styrkur ríkisins stendur þó ekki undir framkvæmdakostnaði og ekki heldur gjaldtakan á hverja tengingu, 280.000 kr. án vsk. Þegar tengin er komin á geta íbúar geta keypt þjónustu af því fjarskiptafélagi sem þeir kjósa og munu í staðinn búa við bestu mögulegu nettengingu. Á höfuðborgarsvæðinu eru fjarskiptafélögin að leggja ljósleiðara á markaðsforsendum en á landsbyggðinni er markaðurinn svo lítill að þau sjá sé ekki hag í að leggja ljósleiðara. Af þeirri ástæðu er ekki ljósleiðari í þéttbýlinu á Höfn.

Það fór uggur um íbúa í sveitarfélaginu þegar leit stóð yfir að ungum manni í Stafafellsfjöllum undir lok vikunnar. Hugur íbúa var hjá manninum, aðstandendum hans og leitarmönnum. Sem betur fer var hann vel búinn til útivistar og björgunarsveitin fann hann heilan á húfi. Þessi atburður sýnir okkur enn og aftur hversu mikilvægt það er að hafa öfluga björgunarsveit í sveitarfélaginu og hversu fljótt aðstæður geta breyst. Það er alltaf erfiðara þegar leitað er að einstaklingi sem íbúar þekkja og eflaust hvílir slíkt þungt á mönnum.

Í gær var tilkynnt um hertar sóttvarnaraðgerðir sem eru nú samræmdar fyrir allt landið. Það setur okkur frekari skorður næstu tvær vikur. Smitum hefur ekki fjölgað í sveitarfélaginu en við vitum að lítið þarf til að smit geti breiðst út. Það er því mikilvægt að sýna sjálfsaga og fylgja leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda.

Mig langar sérstaklega nú eftir erfiða viku að hvetja íbúa til að hugsa vel um hvort annað, sýnum samhyggð, tölum fallega um náungann og verum jákvæð.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri